04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

222. mál, læknaskipunarlög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. landbn., er n. sammála um það að mæla með því, að það frv., sem hér er til umr., verði samþ. og nái fram að ganga, en hún stendur sameiginlega að þeim brtt., sem prentaðar eru á þskj. 643. Það er þess vegna ekki vegna ágreinings, að ég kem hér í ræðustól til að segja fáein orð, heldur aðeins til þess að lýsa ánægju minni yfir því, að gengið hefur verið til þessarar endurskoðunar á jarðræktarlögunum, og það er gott til þess að vita, að það verk hefur að meginstofni verið unnið af samtökum bændanna sjálfra, af mþn. Búnaðarþings ásamt sérfræðingum, sem eru í þjónustu Búnaðarfélagsins. Ég lýsi ánægju minni yfir því, vegna þess að ég tel það mikla nauðsyn að endurskoða lög og reglur varðandi þetta efni öðru hverju, því að þróunin í þessum málum er ör eins og á flestum öðrum sviðum atvinnulífsins hjá okkur um þessar mundir. Og það þarf þess vegna að sveigja lög og fyrirmæli til þeirrar þróunar, eftir því sem hún verður á hverjum tíma. Það mun síðast hafa farið fram heildarendurskoðun þessara laga árið 1965, ef ég man rétt, og var þess vegna orðið tímabært að efna til endurskoðunar á ný. Einn þáttur þessara mála var í endurskoðun í fyrra og gengið þá frá lögum um Landnám ríkisins, sem var þessu nokkuð skylt og á þeim tíma féll nokkuð inn í þennan ramma, sem hér er verið að fást við. Þá var við þá lagasetningu mörkuð sú stefna, að afnumið var að hafa misháan jarðræktarstyrk á túnrækt, eftir því hvort tún voru stærri eða minni fyrir á bæjum. Það hefur að allra dómi, sem um þessi mál fjalla, þótt eðlilegt að afnema það, sem áður var í gildi um þetta efni, og þessi lög, sem nú eru hér til umr., staðfesta þá stefnu, sem þarna var mörkuð á þingi í fyrra.

Að sjálfsögðu vill það fara svo og er með eðlilegum hætti, að einhver kostnaðarauki verður af endurskoðun slíkra laga sem þessara, þegar hún er framkvæmd. Ég minnist þess, að árið 1965, þegar þessi lög voru síðast endurskoðuð, þá mun hafa leitt af þeirri endurskoðun um 30 millj. kr. hækkun á framlögum vegna laganna. Við þessa endurskoðun verður að sjálfsögðu nokkur hækkun. Það er alltaf erfitt að spá með öryggi um hlutina, spá um það, hversu miklar framkvæmdirnar verða. En sé miðað við þær framkvæmdir undangenginna ára, þá er útlit fyrir, að framlög hækki vegna þessara laga frá því, sem gildandi lög segja til um, um ca. 17 millj. kr. Þó er líklegt, að frá því mætti draga hluta af aukaframlagi, sem var til súgþurrkunar, og enn fremur lítils háttar upphæðir, sem gengju til vatnsveitna hjá einstaklingum og gekk í gegnum fjárlög áður. Þannig eru þessar upphæðir að sjálfsögðu nokkuð á reiki, en það er sýnt, að um stórkostlegt stökk er þarna ekki að ræða. Þó er þarna farið inn á nokkra pósta, sem eru allmikilvægir, og ég vil þá sérstaklega minna á það, sem raunar var komið hér inn á áðan, og það er framlagið til hagaræktarinnar. Ýmsir mundu e. t. v. ætla, að þetta væri ekki mikilvægt atriði, en bændur þekkja það, að þetta er mjög mikilvægt fyrir búskapinn, og ég hygg, að allir aðrir Íslendingar, sem leiða hugann að þessu máli, átti sig fljótlega á því, að með bættri hagarækt er líka aukið beitarþol útjarðarinnar, og það er landvinningur í því að styrkja þá hagarækt eins og hér er lagt til.

Þá er þarna ein breyting, sem ég vil telja, að sé ekki óeðlileg, að nú eru jarðræktarframlögin greidd út frá einni hendi eða hjá Búnaðarfélagi Íslands, en var áður bæði þar og hjá Landnámi ríkisins. Aðeins er eitt, sem veldur þarna nokkru um í lækkunarátt, sem sé það, að Landnám ríkisins greiddi framlög vegna ræktunarframkvæmda út á því sama ári og verk var unnið, og var að því allmikið hagræði fyrir þá, sem stóðu í ræktunarframkvæmdum, en mér sýnist, að gert sé ráð fyrir því nú eins og áður, að greiðslur á vegum Búnaðarfélags Íslands fari fram ári eftir að framkvæmdin er unnin.

Þá er annað atriði, sem er nokkuð veigamikið í þessu nýja frv., að kaflinn um Vélasjóð ríkisins er felldur niður og gert er ráð fyrir því, að Vélasjóður hætti störfum. Í sjálfu sér er ekki ágreiningur um þetta atriði. Það er rétt, sem kom fram í ræðu frsm. n. áðan, að svo er að sjá, sem Vélasjóður hafi að mestu lokið þeim verkefnum, sem hann nauðsynlega þurfti að sinna. Á síðustu árum hefur hann aðeins sinnt verkefnum á Vestfjörðum fyrir þá sök eina, að þar er erfitt land til framræslu og þegar útboð fóru fram um það, þá voru þau mjög óhagstæð og Búnaðarfélagið gekk þá til þess ráðs að ráða skurðgröfur Vélasjóðs til þess að grafa fyrir lægra verð heldur en annars virtist vera hægt að fá í gegnum útboð.

Það var aðeins drepið hér á það áðan, að í frv., eins og það liggur hér fyrir, sé gert ráð fyrir því, að framræsluframkvæmdir séu boðnar út eins og er í gildandi lögum, að öðru leyti en því, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þar sem ræktunarsambönd eru starfandi og hafa eigin skurðgröfur til afnota, þá séu þau ekki skyldug til þess að bjóða út framkvæmdir á sínum svæðum. Efnislega er ég andvígur þessu ákvæði, en ég ætla ekki að gera till. um breytingu á því að þessu sinni. Ég tel eðlilegt, af því hvað ræktunarsamböndin hafa sótt þetta mál fast, að haga málunum á þennan hátt, að gerð sé um þetta tilraun. En það kæmi mér ekki á óvart, þó að það þyrfti fljótlega að endurskoða þetta atriði. En það er ekki erfitt að koma því við og þess vegna hygg ég, að bezt sé og eðlilegast að láta við svo búið standa að sinni, en eins og ég hef tekið fram áður, þá ætla ég ekki að bera fram breytingu við það ákvæði að þessu sinni.

Ég get látið máli mínu lokið um þetta jarðræktarlagafrv. Eins og fram kemur í nál., þá stöndum við að því sameiginlega allir nm., og ég legg til, að frv. verði samþykkt.