10.05.1972
Efri deild: 78. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

222. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þessu hefur nokkrum sinnum verið frestað hér á þingfundum og ástæðan er sú, að eftir að 2. umr. hafði farið fram kom að máli við okkur framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga og bar fram óskir um það, að IV. kafli laganna yrði numinn úr jarðræktarlögum, þar sem meginþorri af því, sem þar er ráð fyrir gert, er kominn inn í aðra löggjöf, og taldi hann, að þetta væri orðinn þýðingarlaus kafli í jarðræktarlögunum og jafnvel, að einstaka ákvæði laganna tefðu framgang vissra mála.

Eftir að þessi ósk hafði komið fram, var leitað álits Búnaðarfélags Íslands um málið og þá einkum til þeirra ráðunauta, sem hafa haft með framkvæmd jarðræktarlaganna að gera, og umsögn þeirra var á þá leið, að þeir hefðu engin afskipti haft af þessum málum, þ. e. erfðaleigu á löndum í kaupstöðum og kauptúnum, á annan áratug. Kafli þessi hefur verið óbreyttur að heita má í hálfa öld og eftir að þessi umsögn hafði borizt fannst landbn. Ed. ekki nein ástæða til þess að halda ákvæðum þessum inni í jarðræktarlögunum lengur og leggur því til, að þær breytingar, sem fram eru bornar á þskj. 729, verði samþykktar.

Bréfið, er barst frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, mun hafa verið tekið þar fyrir á stjórnarnefndarfundi. Það er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga leggur til, að IV. kafli frv., 22.–31. gr., verði felldur niður úr jarðræktarlagafrv., en ákvæði þessi fjalla um erfðaleigulönd innan takmarka eða í nágrenni kaupstaða og kauptúna. Ákvæði þessa kafla eru svo til óbreytt, frá því þau voru fyrst sett fyrir tæpri hálfri öld með jarðræktarlögum nr. 43 1923. Vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna virðast ákvæði þessi óþörf, enda er um sum þessi atriði, sem á reynir, svo sem eignarnáms- og skipulagsákvæði, fjallað í öðrum gildandi lögum. Framanritað tilkynnist hv. þingdeildarnefnd hér með.

Virðingarfyllst,

Magnús E. Guðjónsson.“

Ég vil svo leggja til að þær breytingar, sem fram eru bornar á þskj. 729, verði samþ., en önnur breytingin er nánast leiðrétting, vegna þess að í frv. sjálfu var ekki vitnað rétt til þeirra laga, sem þar um getur.