15.05.1972
Neðri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

222. mál, læknaskipunarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um, hefur ríkt mikil eining um þetta frv. hér á hv. Alþ. Skal því ekki lengja umr. um það mjög mikið, aðeins fara um það nokkrum orðum. Ég tel að þetta frv. sé dæmi um þróun, sem stefnir í rétta átt, en ekki neina sérlega stökkbreytingu. Það má segja, að það sé í samræmi við það markmið, sem fjallað er um. Í ræktunarmálum er sjaldnast um örar stökkbreytingar að ræða, heldur tiltölulega hægfara þróun í rétta átt, þegar bezt lætur.

Að sjálfsögðu er, eins og menn vita, stofn jarðræktarlaganna gamall. Hann á rætur sínar að rekja allt aftur undir 1920, þó að á lögunum hafi að sjálfsögðu verið gerðar breytingar á seinni árum í samræmi við þá þróun, sem orðið hefur, sérstaklega í túnrækt. Endurskoðunin byggist á ályktun Búnaðarþings frá 1971. Búnaðarþing benti á nokkur atriði, sem það taldi, að sérstaklega bæri að skoða við þessa athugun og endurskoðun. Hygg ég, að sú nefnd hafi unnið gott verk. Það er bent á nokkur atriði, sem sérstaklega hefur verið hugað að, svo sem það, að leitazt er við að gera ákvæðin um ríkisframlag einfaldari og skýrari en þau hafa verið, svo að þau orki ekki tvímælis. Benda má á nýmæli, sem frv. fjallar um, m. a. er tekið upp framlag til hagaræktar. Hygg ég, að flestir muni hugsa gott til glóðarinnar í þessum efnum og styðja þessa viðleitni, því að við vitum það allir, að ræktun úthagans getur a. m. k. stuðlað að því að létta beit af túnum, sem oft er ofbeit. Og mikil túnbeit, sérstaklega á harðindavörum, mun stuðla m. a. að stóraukinni kalhættu.

Þá hefur verið horfið að þeirri skoðun Búnaðarþings að hætta við að miða upphæð framlags til nýræktar við ákveðna túnstærð. En þessi mörk, sem lengi voru í lögum, voru afnumin með breytingum, sem gerðar voru á stofnlánadeildarlögunum á s. l. ári. Það er alkunna, þegar spurt er um, hvort einhver jörð eigi framtíð fyrir sér, að þá er iðulega miðað við tvennt. Verður jörðin aðnjótandi rafmagns í náinni framtíð og hefur hún upp á næg ræktunarskilyrði að bjóða? Það eru ekki nema sérstakar jarðir án ræktunarskilyrða, sem eiga nokkra framtíð fyrir sér.

Ég vil ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Mér fannst ástæða til þess að segja nokkur orð um svona merkt mál. Það mætti miklu fleira um málið ræða. Það er ánægjulegt til þess að vita, að um það hefur ríkt eining hér á hv. Alþ. Eins og ég sagði áðan, tel ég það ekki marka nein sérstök tímamót eða stökkbreytingu, heldur vera dæmi um þá jákvæðu þróun, sem átt hefur sér stað í ræktunarmálum undanfarin ár. Þess vegna fagna ég frv., styð það og vona, að það bendi til réttrar þróunar í ræktunarmálum landsins.