13.03.1972
Efri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Dr. Sigurður Pétursson gerlafræðingur, sem er öðrum mönnum fróðari um málefni niðursuðu- og niðurlagningariðnaðarins, hefur bent á það, að niðursuðuvörur munu í fyrsta skipti hafa verið fluttar út frá Íslandi laust eftir miðja 19. öld, en þá hóf enskur laxakaupmaður Ritchie að nafni, niðursuðu í Borgarnesi, og árið 1863 hafði hann flutt út með sér 9 þús. pund af niðursoðnum laxi og 18 þús. pund af niðursoðinni ýsu. Þessi starfsemi féll þó fljótlega niður, og næst er getið um útflutning á niðursoðnum varningi á Íslandi frá Siglufirði á árunum 1877–1882, en þar suðu Snorri Pálsson verzlunarstjóri og Einar á Hraunum niður lax, rjúpur, kæfu, kindakjöt og nautakjöt og fluttu varninginn til Danmerkur og Englands.

Næst er getið um útflutning á niðursoðinni vöru á árunum 1912–1914, en þar var um að ræða heilagfiski og fiskbollur frá Pétri M. Bjarnarsyni á Ísafirði, sem starfrækti verksmiðju fyrst á Ísafirði, en síðar í Reykjavík. Einnig þar var þó um góugróður að ræða, og hin raunverulega saga þessarar iðngreinar hefst 1936, þegar niðursuða á rækjum er hafin á Ísafirði, og 1938, þegar niðursuðuverksmiðja SÍS er sett á laggirnar í Reykjavík. Komu þar mjög til stuðnings starfsemi og forusta fiskimálanefndar og myndarleg fjárframlög ríkisins á þeirra tíma mælikvarða. En um starfsemi fiskimálanefndar má lesa í fróðlegri bók, sem Arnór Sigurjónsson tók saman og út kom 1945.

En þótt þannig megi segja, að niðursuða hafi verið samfelldur hluti af íslenzkum iðnaði í hálfan fjórða áratug, hefur sú starfsemi öll verið af ærnum vanefnum, miklar sveiflur í framleiðslunni og framleiðslumagnið aðeins örlítið brot af eðlilegri getu. Þó hefur þessi framleiðsla skipt verulegu máli á sumum tímabilum. Þannig fluttum við út 500–600 tonn af niðursoðnu og niðurlögðu fiskmeti árin 1940 og 1941, en þar mun fremur hafa verið um að ræða áhrif styrjaldarinnar en að við hefðum náð tökum á þessari iðngrein. Enn jókst þessi útflutningur myndarlega í styrjaldarlok og varð nær 1000 tonn áríð 1948, og kom þar ekki sízt til forusta Fiskiðjuvers ríkisins, sem því miður var síðar lagt niður af skammsýni. Síðan hrakaði þessari iðngrein ár frá ári og útflutningur á niðursoðnu og niðurlögðu fiskmeti varð ekki nema 44 tonn árið 1954. Síðustu árin hefur þessi útflutningur aukizt allverulega á nýjan leik og numið árlega á annað þús. tonnum síðan 1968. Eru horfur á, að útflutningur í ár verði meiri en nokkru sinni fyrr. Mestur hefur markaðurinn verið í Sovétríkjunum og öðrum ríkjum Austur-Evrópu, þá hefur bandaríski markaðurinn komið, síðar EFTA-markaðurinn og nokkurt magn hefur verið selt á mörkuðum Efnahagsbandalagsins.

En þó að ég tali hér um verulega magnaukningu síðustu árin, er raunar um smámuni eina að ræða í samanburði við getu okkar, markaði þá, sem tiltækir eru, og afköst keppinauta okkar, sem margir hverjir nota einmitt íslenzkt hráefni. Samkv. skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna 1969 fóru yfir 9% af heildaraflamagni fiskafurða í heiminum til niðursuðu og niðurlagningar, en hlutfallið hjá okkur hefur verið l–2 af þúsundi. Árið 1969 notuðum við sem hráefni í niðursuðuiðnað 1.6 þús. tonna, Danir hins vegar 19.2 þús. tonna og Norðmenn 34.4 þús. tonna. Það ár veiddu Vestur-Þjóðverjar í allt 805 þús. tonna og notuðu í niðursuðu og niðurlagningu 204 þús. tonna eða hvorki meira né minna en rúman fjórðung af heildaraflamagninu. Í því sambandi minnist ég ummæla Davíðs Ólafssonar þáv. fiskimálastjóra á alþjóðlegri ráðstefnu, sem hér var haldin um fiskveiðar og fiskiðnað fyrir nokkrum árum. Hann sagði, að ef Íslendingum tækist að koma fiskiðnaði sínum á sama stig og Vestur-Þjóðverjar, væri hægt að þrefalda verðmæti útflutningsframleiðslunnar. Sú staðreynd sýnir betur en margar tölur, hvílíkt stórmál hér er um að ræða.

Samt langar mig að bæta hér enn við nokkrum tölum. Árið 1970 framleiddum við 4255 tonn af sykursöltuðum þorskhrognum, sem er hráefni í þorskhrognakavíar í áltúpum. Við nýttum þetta hráefni ekkert sjálfir, en fluttum það úr landi, aðallega til Svíþjóðar. Ef við hefðum hagnýtt þetta magn, hefði það nægt til að framleiða um 38.3 millj. af túpum með 100 g nettóþyngd. Árið 1970 framleiddum við 1376 tonn af söltuðum ufsaflökum, en notuðum aðeins sjálfir í sjólaxframleiðslu 191 tonn. Hitt var hráefni handa öðrum.

Árið 1970 framleiddum við 1254 tonn af söltuðum grásleppuhrognum, en notuðum aðeins 73 tonn í kavíarframleiðslu. Allt hitt magnið fór í fullvinnslu handa öðrum. Svo að ég taki enn eitt dæmi, var áætlað magn af þorsklifur 10 344 tonn 1970, en í niðursoðna þorsklifur notuðum við aðeins 80 tonn.

Um staðreyndir af þessu tagi mætti fjalla í löngu máli, en ég læt þessi dæmi nægja að sinni. Þau eru til marks um það, að enn er þessi þáttur í framleiðslukerfi okkar afar frumstæður. Við framleiðum mjög verulegt magn af hráefnum, en eftirlátum öðrum að fullvinna dýrmætar afurðir. Ástæðurnar fyrir hinni hægu og erfiðu þróun niðursuðu- og niðurlagningariðnaðarins eru margar. Við höfum allt fram undir þetta lagt áherzlu á aðferðir veiðimannaþjóðfélagsins að tryggja sem mestan afla, og á því sviði höfum við náð frábærum árangri. En nýting aflans var lengi vel í annarri röð, bæði í vitund almennings og stjórnarvalda.

Nú höfum við hins vegar öðlazt vaxandi skilning á því, að þetta er léleg hagsýni og aflamagninu eru takmörk sett. Landhelgismálið minnir okkur m. a. sífellt á þá staðreynd. Því hljótum við að leggja sívaxandi áherzlu á þá stefnu að hagnýta sjálfir það hráefni, sem við öflum, og gera úr því sem dýrmætasta vöru.

Önnur ástæðan fyrir vanda niðursuðuiðnaðarins er það forustuleysi og skipulagsleysi, sem einkennt hefur þróun atvinnumála í allt of ríkum mæli hérlendis. Niðursuðuverksmiðjur hafa verið byggðar upp flestar hverjar af einstaklingum, bjartsýnum og duglegum athafnamönnum, en þá hefur oft skort bæði fjármagn og þá sérþekkingu, sem úrslitum ræður í þessari iðngrein. Milli þeirra hefur verið lítil sem engin samvinna og stundum raunar fráleit samkeppni með undirboðum á erlendum mörkuðum. Fyrirtækin hafa yfirleitt verið smá. Þau voru 26 talsins á síðasta ári, og mörg þeirra hafa verið þannig skipulögð, að þau hafa ekki getað starfað nema hluta úr ári. Skipulagsleysið hefur einnig leitt til óhagkvæmni í fjárfestingu. Við höfum komið okkur upp vélbúnaði, sem er langt umfram þarfir á ýmsum sviðum, eins og nú standa sakir.

Alvarlegasta vandamálið hefur þó tvímælalaust verið skortur á sölusamtökum, sem ynnu í þágu þessarar iðngreinar í heild. Við þekkjum það sjálfir úr hraðfrystiiðnaðinum, hvert gildi slíkra sölusamtaka er, og að forsendur þeirra eru nákvæm skipulagning og verulegt fjármagn. Það er í sjálfu sér einfalt verkefni að selja hráefni og verða þá jafnframt að una þeim stórfelldu sveiflum á magni og verði, sem fylgja hráefnisframleiðslu í iðnaðarþjóðfélögum okkar tíma. En að framleiða fullunninn iðnaðarvarning og koma honum á framfæri sem næst neytendum sjálfum er vandasamt og sérfræðilegt verkefni. Hins vegar ræður það úrslitum um arðsemi framleiðslunnar. Enda þótt verð á hráefnum sveiflist mjög, er sú sjaldnast raunin um fullunninn varning, og því tryggja fullkomin sölusamtök ekki aðeins stóraukinn ábata af framleiðslunni, heldur einnig miklu stöðugra verðlag. Þetta á við um alla iðnaðarframleiðslu og í sérstaklega ríkum mæli um framleiðslu á matvælum. Á því sviði hefur þróunin orðið sú umhverfis okkur, að fólk sækist í sívaxandi mæli eftir matvælum, sem hægt er að nota fyrirhafnarlaust. Því hefur neyzla á niðursoðnum fiskafurðum aukizt mjög stórlega. Þannig jókst innflutningur Bandaríkjanna á niðursoðnum fiskafurðum úr 53 millj. dollara 1958 í 111 millj. dollara 1969 og eru þó skeldýr ekki meðtalin. Innflutningur Efnahagsbandalagslandanna jókst á sama tíma úr 52 millj. dollara í 135 millj. dollara. Og innan EFTA-landanna varð aukningin á sama tíma úr 106 millj. dollara í 152 millj. dollara. Hér er því um að ræða mjög hraðvaxandi markaði, sem munu halda áfram að aukast með breyttum neyzluvenjum. En ef við eigum að ná tökum á þessum mörkuðum, verðum við að koma okkur upp því heildarskipulagi og kosta til þeim fjármunum, sem til þess þarf.

Allt eru þetta staðreyndir, sem mönnum hafa verið kunnar um langt árabil. Um það hefur verið fjallað á fjölmörgum ráðstefnum og um það hafa verið samdar skýrslur og bækur. Árið 1968 framkvæmdi kanadíska fyrirtækið Stevenson & Kellogg markaðsrannsóknir í þágu niðursuðuiðnaðarins, safnaði að sér merkri vitneskju og komst að þeirri niðurstöðu, að unnt væri að tífalda útflutning niðursuðuiðnaðarins á stuttum tíma. Um sömu mundir unnu Sameinuðu niðursuðuverksmiðjurnar mikið og merkilegt undirbúningsstarf með stofnun sölusamtaka undir forustu Gísla Hermannssonar verkfræðings. En því miður varð raunin sú, að rannsóknirnar og athuganirnar hlóðust upp og rykféllu í skápum, en ekkert varð úr framkvæmdum.

Því var það, að þegar núv. stjórnarflokkar sammæltust um að taka upp samvinnu eftir kosningar í fyrra, ákváðu þeir, að meðal hinna mikilvægustu verkefna skyldi vera stórátak í þágu niðursuðu- og niðurlagningariðnaðarins. Í samræmi við það skipaði ég 30. ágúst í fyrra nefnd til þess að leggja á ráðin um framkvæmd þessa fyrirheits. Í nefndinni áttu sæti Ragnar Arnalds alþm. og var hann formaður nefndarinnar, Ólafur Hannibalsson skrifstofustjóri og Steingrímur Hermannsson framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins. Starfsmaður nefndarinnar var dr. Örn Erlendsson. Nefndinni var falið að semja frv. það, sem hér liggur fyrir, en henni var jafnframt falið að fjalla um vandamál einstakra fyrirtækja, sem voru vægast sagt sum hver af hrollvekjutagi, þegar núv. ríkisstj. tók við völdum. Nefndin hefur unnið ágæt störf, sem ég sé ástæðu til þess að þakka á þessum vettvangi, en hún hefur nú lokið verkum sínum, og hefur verið lögð niður. Starfsmaður nefndarinnar, dr. Örn Erlendsson, hefur hins vegar verið lausráðinn sem sérfræðingur af iðnrn. til þess að fylgja þessum málum og öðrum eftir af hálfu stjórnvalda.

Í störfum sínum naut nefndin að sjálfsögðu mjög þeirra rannsókna og tillagna, sem áður hafði verið unnið að og ég minntist á áðan, ekki sízt rannsókna Stevenson & Kellogg og áforma Sameinuðu niðursuðuverksmiðjanna. Jafnframt lagði nefndin áherzlu á að hafa sem nánasta samvinnu við sérfræðinga og atvinnurekendur í þessari iðngrein. Gekkst nefndin fyrir sérstakri ráðstefnu, sem haldin var á Hótel Esju 30. nóv. í fyrra, en þar mættu sérfræðingar og atvinnurekendur hvaðanæva að af landinu, 63 talsins. Voru þar lögð fram drög að frv. um sölustofnun niðursuðuiðnaðarins og urðu um það miklar umr. Var það mikið ánægjuefni, að fullkomin samstaða var á ráðstefnunni um meginstefnu frv. og þær framkvæmdir, sem brýnastar væru og mikilvægastar. Jafnframt komu að sjálfsögðu fram ýmsar ábendingar, sem nefndin hefur unnið úr og tekið tillit til við endanlega gerð á till. sínum.

Frv. sjálft hefur nú legið á borðum þm. í eina viku og geri ég því ráð fyrir, að menn hafi kynnt sér efni þess gaumgæfilega, og því sé ég ekki ástæðu til að fjalla nákvæmlega um efnisatriði hverrar gr. um sig, heldur mun ég stikla á stóru.

Í 1. gr. er ákveðið það meginatriði, að íslenzka ríkið og atvinnurekendur í niðursuðu- og niðurlagningariðnaði bindist samtökum um að koma á laggirnar sölustofnun niðursuðuiðnaðarins, sem verði sjálfstæð stofnun með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald.

Í 2. gr. er hlutverk stofnunarinnar rakið í sjö liðum. Henni er m. a. ætlað að annast sölu og dreifingarstarfsemi á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum og skipuleggja hvers kyns markaðsöflun, samræma framleiðslu verksmiðjanna með skipulögðum vinnubrögðum og greiða fyrir öflun hráefnis með það markmið í huga, að gott hráefni verði ekki flutt úr landi óunnið, ef hægt er að nýta það hérlendis. Í þessari gr. eru ströng ákvæði um gæðaeftirlit, um fjölbreytta rannsóknastarfsemi og tækniþjónustu. Í því sambandi vil ég láta þess getið, að ég hef fyrir nokkru falið þeim sérfræðingunum Gísla Hermannssyni og Páli Péturssyni að semja nýja reglugerð um framleiðsluhætti þessarar iðngreinar í samræmi við ströngustu nútímakröfur um hollustuhætti og gæði. Er hér að minni hyggju um grundvallaratriði að ræða, ef við ætlum að ná þeim árangri, sem að er stefnt. Sérfræðingarnir hafa tjáð mér, að þeir geri sér vonir um að geta lokið verkefni sínu í vor, þannig að hin nýja reglugerð gæti hlotið staðfestingu um sama leyti og sölustofnunin hæfi framleiðslu sína, ef allt gengur að óskum.

Þá eru í þessari gr. ákvæði um, að stofnunin geti annazt sameiginlegan innflutning fyrir aðila sína og gerzt eignaraðili að dósa- og umbúðaverksmiðju. Einnig þetta atriði er mjög veigamikið. Hérlendis er aðeins starfrækt ein dósaverksmiðja, vanbúin að tækjum og framleiðslugetu, auk þess sem þrjár niðursuðuverksmiðjur framleiða dregnar dósir til eigin nota. Verð umbúðanna er tiltölulega stór hluti af framleiðslukostnaði niðursuðuvara, auk þess sem gerð og útlit umbúðanna er afar veigamikið atriði á mörkuðunum. Því þurfum við að efla þessa iðngrein til mikilla muna, og reynslan af Kassagerð Reykjavíkur sýnir, að einnig á sviði umbúða eigum við að geta háð árangursríka samkeppni við aðra.

Í 3. gr. er fjallað um aðild að sölustofnuninni, en hún er öllum opin án þess að nokkur sé til þess knúinn að taka þátt í henni. Jafnframt er stjórn stofnunarinnar veitt vald til að kveða á um gæði framleiðslunnar og um refsiaðgerðir, ef út af er brugðið. Auk þess er ákvæði um vörumerki á framleiðslu, sem seld er á vegum stofnunarinnar, og þarf ekki að færa rök að því, að kynning á slíku sameiginlegu vörumerki er eitt meginatriði markaðsöflunar.

Í 4. gr. er fjallað um stjórn stofnunarinnar, en þar er gert ráð fyrir því, að atvinnurekendur, sem aðild eiga, myndi fulltrúaráð með einum fulltrúa fyrir hvert fyrirtæki, og sé fulltrúaráð þetta ráðgefandi um allan rekstur og stefnumörkun stofnunarinnar. Þá er einnig lagt til, að fulltrúaráðið tilnefni tvo menn í stjórn stofnunarinnar, en þrír verði tilnefndir af iðnrn., viðskrn. og fjmrn. Er lagt til, að þessi skipan haldist um fimm ára skeið, meðan ríkið leggur stofnuninni til, ábyrgist eða útvegar meginhluta þess fjármagns, sem hún fær til starfsemi sinnar. En að fimm árum liðnum, þegar bein fjárframlög ríkisins falla niður og stofnuninni hefur vonandi vaxið fiskur um hrygg, er ákveðið, að fulltrúaráðið tilnefni meiri hl. stjórnar, þrjá af fimm.

Í 5. gr. eru ákvæði um tekjur sölustofnunarinnar. Þar er ákveðið, að ríkissjóður leggi fram sem óendurkræft framlag 20 millj. kr. á ári í fimm ár og ábyrgist jafnframt fyrir hönd stofnunarinnar 100 millj. kr. lán. Þannig eiga greiðslur og ábyrgðir ríkisins að nema 200 millj. kr. á fimm árum, og er þar óneitanlega um mjög myndarlega fyrirgreiðslu að ræða í þágu þessarar iðngreinar. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í lagagr., að niðursuðuverksmiðjurnar greiði sölulaun til stofnunarinnar. Í því sambandi má geta þess, að árið 1970 nam heildarútflutningur niðursuðuiðnaðarins um 143 millj. kr. Ef sölustofnunin hefði annazt allan þann útflutning og tekið 3% sölulaun, hefðu tekjur hennar af þeirri starfsemi numið 4.3 millj. kr. Í fjórða lagi er lagt til, að stofnunin geti tekið umboðslaun fyrir þær vörur, sem hún flytur inn eða útvegar í þágu iðngreinarinnar. Árið 1970 voru fluttar inn í þágu niðursuðuiðnaðarins umbúðir, krydd og aðrar rekstrarvörur fyrir 42.3 millj. kr. Ef sölustofnunin hefði haft alla þá starfsemi með höndum og tekið 5% umboðslaun, hefðu tekjur hennar af þeirri starfsemi numið 2.1 millj. kr. Þessar tölur eru að sjálfsögðu aðeins nefndar til viðmiðunar. Mér dettur engan veginn í hug, að stofnunin muni í reynd annast alla þessa starfsemi í þágu niðursuðuiðnaðarins. Hins vegar mun grunnurinn vonandi aukast til mikilla muna, eftir því sem stofnunin eflist og þeir aðilar, sem að henni standa.

Í 6. og 7. gr. frv. er svo kveðið á, að öll útflutningsgjöld af niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum, söltuðum grásleppuhrognum, söltuðum ufsaflökum, hraðfrystum og sykursöltuðum þorskhrognum og salt- og kryddsíld, renni næstu fimm árin í sérstakan sjóð, sem hafi það verkefni að efla niðursuðuiðnað, auka tilraunir með nýjar vörutegundir og afla þeim markaða erlendis. Einnig þessi ákvæði frv. eru að minni hyggju mjög mikilvæg. Þau frábæru hráefni, sem okkur eru tiltæk, bjóða upp á sérstaka tilraunastarfsemi á okkar vegum, auk þess sem sjóðurinn yrði notaður til að efla niðursuðuiðnaðinn á annan hátt.

Til þess að gefa hugmyndir um tekjur þessa sjóðs, munu hér nefndar tölur, sem eru annars vegar miðaðar við útflutningsmagnið 1970, en hins vegar við útflutningsgjaldið eins og það var í byrjun þessa árs. Miðað við þessar forsendur er útflutningsgjald af niðursuðuvörum 2.3 millj. kr., af söltuðum grásleppuhrognum 6.5 millj. kr., af söltuðum ufsaflökum 3.2 millj. kr. og af frystum og sykursöltuðum þorskhrognum 11.6 millj. kr. Samtals nema þessar upphæðir 23.6 millj. kr. á ári miðað við magnið 1970, og mundi sú upphæð hækka um 3.6 millj. kr., ef útflutningsgjaldið verður hækkað úr 1900 kr. á tonn í 2300 kr., eins og nú hefur verið lagt til. Hér er hins vegar sleppt útflutningsgjaldi af salt- og kryddsíld vegna síldveiðibannsins og algerrar óvissu á því sviði, en miðað við útflutninginn 1970 hefðu útflutningsgjöld af þeim vörum numið 27.4 millj. kr. Í þessum frvgr. er því gert ráð fyrir mjög verulegum árvissum tekjustofnum.

Ég hef nú farið fljótlega yfir meginefni frv., en langar að lokum að víkja örfáum orðum að nafngiftum. Í þessu frv. er talað um niðursuðuiðnað, en ég hef áður lagt hér fram í þessari hv. þd. frv. um lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði. Þessar nafngiftir þarf auðvitað að samræma. Orðalagið niðursuðu- og niðurlagningariðnaður er bæði langt og óþjált og því er í daglegu tali rætt um niðursuðu, einnig þótt um sé að ræða allt aðrar vinnsluaðferðir. Því er komin upp sú hugmynd að nota nýyrðið „lagmeti“ um allar framleiðsluvörur af þessu tagi. Mér finnst þetta orð bæði rökrétt og þjált og ég er sjálfur farinn að nota það án nokkurrar fyrirhafnar. Þó má vera, að aðrir eigi erfiðara með að fella sig við það, en þessar nafngiftir verður auðvitað að samræma í meðförum Alþ.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. iðnn. Jafnframt vil ég leggja á það áherzlu, að frv. verði afgr. á þessu þingi, svo að unnt verði að hefjast handa um framkvæmdir þegar í vor, ef þm. vilja á málið fallast. Eins og ég gat um í upphafi tel ég, að hér sé um stórmál að ræða. Við eigum kost á einhverju bezta hráefni, sem fáanlegt er til lagmetisiðju, en nýtum það aðeins að örlitlum hluta. Með fullvinnslu munum við stórauka verðmæti útflutningsframleiðslunnar, lyfta iðnþróun okkar á hærra stig og treysta til muna atvinnuöryggi og festu í fiskiðnaði okkar.