16.03.1972
Efri deild: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð um þetta mál við þessa umr. Í fyrsta lagi er þetta frv. nokkru síðbúnara en búizt var við af þeim, sem fyrir ríkisstj. hönd höfðu málið til meðferðar og sömdu frv. Eins og fram kemur í aths., skipaði hæstv. iðnrh. hinn 31. ágúst s. l. þriggja manna nefnd til að fjalla um vandamál niðursuðuiðnaðarins. Eftir að nefnd þessi hafði kynnt sér þessi mál og leitað upplýsinga hjá fagmönnum og framleiðendum um þau, boðaði hún til almenns fundar með þessum aðilum að Hótel Esju þann 30. nóv. s. l. Þá var gert ráð fyrir því, að mál þetta kæmi til afgreiðslu fyrir áramót, og þá sérstaklega með tilliti til þess, að þá voru fjárlögin til afgreiðslu í þinginu, en hins vegar augljóst mál, að hér var um allverulega fjárveitingu að ræða af hendi ríkissjóðs, ef frv. gerði ráð fyrir þeim fjárstuðningi, sem þá var rætt um og er í samræmi við það, sem nú er í þessu frv. d þessum fundi lá fyrir uppkast að væntanlegu frv. Komu þá þegar fram nokkrar aths. við þær till., sem þá lágu fyrir. Ég sé, að ýmsar þær aths., sem fram komu á fundinum þann 30. nóv. frá nefndinni, sem sá fundur kaus sérstaklega til þess að yfirfara frv. eins og það var, hafa verið teknar til greina við endanlega gerð frv. En eitt er þó óbreytt, sem framleiðendur gerðu sérstaka aths. við og lögðu áherzlu á, og það er, hvernig stjórn hinnar væntanlegu sölustofnunar niðursuðuiðnaðarins skuli skipuð. Með tilliti til þess, að gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi hér verulegt fjármagn fram til stuðnings og eflingar þessum atvinnuvegi, er bæði sjálfsagt og eðlilegt, að meðan svo stendur á hafi það opinbera hönd í bagga og eftirlit með sjálfum rekstrinum. En þó að hér sé um miklar fjárhæðir að ræða, þá verður sá hlutur, sem framleiðendur sjálfir leggja fram, væntanlega miklum mun stærri, bæði í einu og öðru formi. Þeir eiga og einnig að sjálfsögðu mikilla hagsmuna að gæta vegna framleiðslu sinnar, sem væntanlega verður árlega margföld sú upphæð, sem hér um ræðir. Það var því till. framleiðenda, að stjórn stofnunarinnar væri skipuð að meiri hluta af framleiðendum, enda held ég, að það geti ráðið úrslitum um það, að alger samstaða náist um þetta mál, og það verður að teljast mjög þýðingarmikið og æskilegt. Að öðru leyti er ekki óeðlilegt, að skipun stjórnarnefndarmanna af hálfu hins opinbera verði á sama hátt og tíðkazt hefur, þegar ríkisvaldið hefur haft afskipti af slíkum málefnum atvinnuveganna, þ. e. að nm. séu kosnir af Alþ. að viðhafðri hlutfallskosningu og sé formaður tilnefndur af viðkomandi ráðh.

Í þessu sambandi vildi ég geta þess, að á umræddum fundi, sem fyrir forgöngu nefndarinnar var haldinn þann 30. nóv. s. l., sögðust tveir af þrem nm., sem frv. sömdu, geta fallizt á það sjónarmið framleiðenda, að þeir tilnefndu þrjá af fimm stjórnarnefndarmönnum. Ég verð að segja, að ég trúi ekki öðru en svo sé enn, eða þar til annað kemur í ljós.

Það er ýmislegt fleira smávægilegt, sem er ástæða til þess að athuga sérstaklega í n. undir meðferð málsins þar, orðalagsbreytingar o. fl., sem koma fyllilega að mínu mati til greina, t. d. í 2. gr. frv. Þar segir undir b-liðnum, að stofnunin skuli „annast alla sölu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum samkv. vöruskiptasamningum, sem gerðir hafa verið við önnur ríki.“ Ég hygg, að þar sé átt við, að það sé ekki verkefni þessarar stofnunar aðeins að sjá um það varðandi þá samninga, sem þegar hafa verið gerðir, heldur einnig þá samninga, sem gerðir verða í framtíðinni. Ég tel, að þarna þurfi að gera smávegis orðalagsbreytingu, sem skýrir þetta ákvæði betur, að það nái til framtíðarinnar einnig, en ekki bara til þeirra samninga, sem gerðir hafa verið. En þetta er nú bara smáatriði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta við þessa umr. Ég vildi aðeins koma þessu hér að og beina því til n., að hún taki þetta til athugunar, þegar hún endanlega afgreiðir frá sér frv., sem væntanlega verður innan skamms tíma, þar sem hæstv. iðnrh. lagði á það sérstaka áherzlu, að mál þetta fengi fljóta afgreiðslu og yrði afgreitt á þessu þingi.