16.03.1972
Efri deild: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Að vísu gerði hæstv. iðnrh. svo ítarlega grein fyrir þessu máli í framsöguræðu sinni, að óþarft er að bæta þar við mörgum orðum. Ég sat hins vegar í þeirri nefnd, sem um málin fjallaði, og síðasti ræðumaður vísaði til þess réttilega, að í þeirri nefnd kom fram nokkur ágreiningur um eitt atriði þessa frv., og þykir mér því rétt þegar við þessa 1. umr. að gera í örfáum orðum grein fyrir minni afstöðu sérstaklega til þess ákvæðis í frv., sem hann fjallaði um.

Þó vil ég segja það áður um niðursuðunefndina, sem svo var kölluð, almennt, að mjög fljótlega kom í ljós, að mikið hafði verið unnið í þessu máli. Ýmsir sérfræðingar höfðu starfað og skilað ítarlegum skýrslum, bæði innlendir og erlendir. Líklega er ítarlegasta skýrslan sú, sem kanadíska ráðgjafarfyrirtækið Stevensen & Kellogg skilaði um málið. Allar þessar skýrslur, sem við kynntum okkur ítarlega, og viðræður við fjölda af sérfræðingum sannfærðu okkur um það, að niðursuðuiðnaðurinn getur átt hér glæsilega framtíð. En við sannfærðumst jafnframt um það, að markaðsmál niðursuðuiðnaðarins eru í ólestri. Samtök eru þar ekki slík sem þurfa að vera til þess að litlir aðilar geti haslað sér völl á erlendum mörkuðum. Það er æðiflókið mál og margt, sem þarf til að koma, og ætla ég ekki að fara mörgum orðum um það. Nefndin einbeitti sér því að samningu frv., sem ætlað er að lagfæra þetta ástand, sem nú ríkir. Hér er afkvæmið. Það er frv. til l. um sölustofnun niðursuðuiðnaðarins.

Eins og síðasti ræðumaður minntist á, var frv. lagt fyrir mjög fjölmennan fund fulltrúa niðursuðuiðnaðarins og raunar marga fleiri 30. nóv. s. l. hér í bæ. Það var hinn ánægjulegasti fundur. Þar mættu jafnvel fleiri en við gerðum okkur vonir um og umræður urðu ágætar. Þar var leitazt við að vinna eins og frekast var unnt með fulltrúum niðursuðuiðnaðarins, m. a. nefnd, sem fundurinn eða viss hluti hans valdi til viðræðna við niðursuðunefndina. Og eins og kom fram hjá ræðumanni, þá var tekið tillit til langflestra þeirra aths., sem fram komu hjá þessari nefnd og öðrum, sem á ráðstefnunni voru.

Um eitt atriði hins vegar varð nokkur ágreiningur, og það er skipun stjórnar. Í því frv., sem nú hefur verið lagt fram, er gert ráð fyrir fimm manna stjórn, og er til þess ætlazt, að þrír verði skipaðir af ríkisstj., en tveir af fulltrúaráði niðursuðuiðnaðarins, þ. e. að ríkisvaldið hafi meiri hluta í þessari stjórn, en aftur á móti eftir fimm ár snúist þetta við og verði öfugt, þrír frá niðursuðuiðnaðinum og tveir frá ríkisvaldinu. Á fyrrnefndum fundi kom fram nokkur óánægja með þetta. Reyndar var það frv., sem þar var lagt fyrir, ekki eins og hér er sýnt. Þar var ekki gert ráð fyrir því, að þetta breyttist eftir fimm ár. Ég lýsti því á þeim fundi, að ég fyrir mitt leyti væri því hlynntur, að niðursuðuiðnaðurinn hefði meiri hluta í þessari stjórn, og hef síðan á öðrum vettvangi og víðar rökstutt þá skoðun mína. Ég tel það eðlilegt. Það verður ekki sízt um hagsmuni niðursuðuiðnaðarins að tefla í þessu máli. Að vísu er það rétt, að hið opinbera leggur fram e. t. v. óvenjulega mikla fjármuni sem styrk í fimm ár og hefur að því leyti hagsmuna að gæta, að þessu fé sé ráðstafað á eðlilegan máta. En vitanlega eru það hin mörgu niðursuðufyrirtæki í landinu, sem stærstra hagsmuna eiga að gæta. Þau láta í hendur þessarar stofnunar þau sambönd, sem þau hafa erlendis og raunar framleiðslu sína alla. Þau framleiða undir gæðamerki þessarar stofnunar og þeirra verður áfallið mest, ef illa tekst til.

Ég var með þá hugmynd þá, að fjárhagsáætlun stofnunarinnar yrði hins vegar lögð fyrir og þyrfti að fá samþykki ráðh. þau fimm árin, sem um opinberan styrk yrði að ræða. Um þetta varð ágreiningur í nefndinni og ég tel sjálfsagt, að það komi hér fram, að meiri hl. nefndarinnar valdi þá leið, að stjórnin væri skipuð eins og hér er gert ráð fyrir, en ég var þar einn í minni hl. Eftir töluverðar umræður varð hins vegar samkomulag um það, að eftir fimm ár snerist þetta við. Ég tel fyrir mitt leyti þetta viðunandi lausn, því að ég tel málið svo mikilvægt og svo nauðsynlegt, að það fái framgang á þessu þingi, eins og fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni, að ég vildi ekki bera ábyrgð á því, að málið tefðist svo, að það yrði ekki lagt fyrir þetta þing. Því hef ég fallizt á þessa skipun og mun fylgja henni.

Í sambandi við það, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að máli þessu yrði hraðað, þá vil ég aðeins upplýsa það, ekki sízt með tilliti til þeirrar gagnrýni, sem komið hefur fram á störf nefnda, að við erum þegar búnir að halda einn fund um þetta mál, þó að það sé nú ekki komið til okkar. Við erum búnir að ákveða það, hvaða aðilar fá það til umsagnar, og verður það gert án tafar, ef d. fellst á að senda málið til n.