16.03.1972
Efri deild: 56. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég átti þess kost að sitja þá ráðstefnu, sem vitnað hefur verið til um þessi mál, og vil aðeins undirstrika það, sem kom nú fram og kemur fram í skýrslunni, að það var gagnrýnt fleira heldur en stjórnskipunin, atriði, sem er ekki síður mikilvægt en hvernig stjórnin á þessu á að vera.

Það, sem ég ætla þá að byrja fyrst á hér, er varðandi tekjuöflun þessara samtaka. Hér er farið út á algerlega nýja braut, sem ég sé ekki fyrir hvar endar, ef hún verður tekin upp og viðurkennd. Og hún er fólgin í því að skattleggja framleiðslu og færa frá henni yfir til annarrar iðngreinar. Og ef við byrjum á þessu stigi, þá dettur mér skyndilega í hug hér í ræðustól, að t. d. væri vandalaust að skattleggja Gefjun-Iðunn á Akureyri og færa þar á milli yfir í Öl & Gos eða Sanaverksmiðjuna, þar sem hún hefur gengið illa á Akureyri. Það er alveg hliðstætt, má segja, sem farið er út í hérna. Ég á þá við að það á að fara að skattleggja saltsíldina sérstaklega og þorskhrogn sérstaklega sem nemur tugum millj. í þágu niðursuðuiðnaðarins.

Hér er um mikið mál að ræða, og ég hef lýst óánægju minni yfir því, að afgreiðsla á öðru frv. gengi fyrir sig hikstalaust án undangenginnar betri athugunar, vegna þess að fyrir d. liggur annað frv. á þskj. 309, Ed.-málið 162, þar sem lagt er til, að útflutningsgjöld séu aukin, vegna þeirrar röksemdafærslu, sem er alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh., að þennan sjóð, Tryggingasjóð fiskiskipa, vantar nú verulegt fjármagn og það svo að nemur mörgum tugum millj., ef ekki á annað hundrað millj. Hér liggur hins vegar líka á borðinu hjá okkur frv., sem er ekki um að breyta skattheimtu í sjálfu sér, en að færa hana frá þessum sjóði yfir á aðra grein, þannig að Tryggingasjóð fiskiskipa vantar mun meira fé, og þarf þess vegna að athuga þessi frv. í samhengi, að minni hyggju. Ég tel eðlilegt, eins og gert hefur verið í sjávarútvegi, að iðngreinin sem slík byggi sig upp eins og aðrar iðngreinar sjávarútvegsins hafa gert og munu gera áfram. Um það hafa ekki verið deilur. Það hafa verið deilur um það, hversu há þessi skattlagningarprósenta á að vera. Hitt er algert nýmæli, sem ég vona að hv. n. hugleiði mjög gaumgæfilega, hvort á að byrja á því að færa á milli greina. Það er alveg ný stefna, og ég vara við þeirri stefnu.

Ýmislegt annað í frv. mætti fjalla hér um. Það er nú svolítið undarlega til orða tekið sums staðar um ákveðna hluti hér. Það er talað um, að saltsíld sé engan veginn fullunnin. Við getum auðvitað unnið flesta okkar vöru meira. Þó er saltsíld þannig, þegar hún er bæði flökuð og flutt úr landinu, — hún er fullverkuð. Um hana hafa verið settar mjög strangar matsreglur. Hún skaffar gífurlega vinnu í landinu og það er auðvitað hægt að skera hana í enn minni bita og setja hana í fleiri umbúðir. Það er hægt að gera við mjög margar okkar afurðir og kalla hvert stig frekari fullvinnslu.

Það er talað um, að við eigum að stefna hér að því að koma upp fiskréttaverksmiðju — það er ágætt — og dósamat og túpumat, og mig minnir, að hæstv. ráðh. reiknaði út hugsanlega framleiðslu í tugum millj. ef ekki hundruðum millj. túpa. Allt þetta er hægt að reikna út og láta tölvurnar gefa okkur jafnvel milljarða í túpum, ef við komum öllu slíku inn. En þá er bara eftir að losna við framleiðsluna. Ég hef það fyrir satt, að ráðh. hafi haft áhyggjur af því að flytja saltsíld norður á Siglufjörð, — því miður er hann nú ekki hér við, — en hann hafi stöðvað þann flutning um tíma a. m. k. Kannske er lausn komin á það í dag. Vonandi hefur rætzt úr þessu máli, en þó er ekki um nema 12 þús. tunnur að ræða handa þessari einu verksmiðju, og má nú mikið bætast í, ef öll þessi stórkostlegu plön varðandi niðursuðuiðnaðinn verða að raunveruleika. Þó vil ég taka það skýrt fram, að ég styð algerlega og við í Alþfl. meginefni frv., og ég styð það, að ríkissjóður leggi þessum iðnaði til fjármagn með eðlilegum hætti og uppbygging hans verði endurskipulögð og stórkostlegt átak gert til þess að efla iðnaðinn, þó svo að við kunnum að deila um það, hvort frystur, fiskur í neytendapakkningum telst fullunninn eða ekki. Það kemur raunar fram hér í grg., hvernig beri að líta á það. Það er eiginlega engin fullvinnsla í landinu nema það, sem komið er í túpur eða er steiktur fiskréttur. Ég lít hins vegar ekki þannig á hlutina. En það er ekki meginatriði, vegna þess að breyting á þessari vöru úr hráefni yfir í niðursoðna vöru skeður með íslenzku vinnuafli, en umbúðirnar eru erlendar að langmestu leyti eins og er, og umbúðakostnaður í niðursoðnum afurðum er yfirleitt um 30–35% og svo til allur erlendur. Við flytjum umbúðirnar inn og flytjum þær út aftur. En hins vegar breytir það markaðseftirspurn vörunnar og gerir okkur kleift að skaffa meiri vinnu hér heima, sem er afar nauðsynlegt og einnig að afsetja vöruna um leið.

En á eitt atriði hefur aldrei verið drepið í þessum umr., ekki af neinum manni. Skapar slík áframhaldandi vinnsla hærra verð fyrir hráefni til sjómanna? Við erum þá ekki betur settir, ef þessi vinnsla getur ekki skapað hærra verð fyrir hráefni til sjómanna, og á það minntist hæstv. ráðh. ekki, að niðursuðuiðnaðurinn erlendis hefur átt við mikla vinnuerfiðleika að stríða. Og ef hann kæmi inn í niðursuðuverksmiðju núna í Vestur-Þýzkalandi, — ég veit ekki, hvað skeður í Austur-Þýzkalandi, en í Vestur-Þýzkalandi, — þá heyrði hann mörg tungumál töluð, mjög mörg, frá flestum Suður-Evrópulöndunum og jafnvel brot að austan. Og vegna hvers er það? Vegna þess að þetta vinnuafl er ódýrara heldur en hitt vinnuaflið, sem risaiðnfyrirtækin eru að slást um, og niðursuðuverksmiðjurnar verða að sætta sig við verulegt innflutt vinnuafl. Við skulum því gera okkur fulla grein fyrir því, að niðursuðuiðnaður á Íslandi á við ýmsa örðugleika að etja, en þeir þurfa engan veginn að vera svo miklir, og ég vil ekki mikla þá, að við eigum að vera feimnir við að ráðast gegn þeim og efla þessa iðngrein á allan hátt. Að því vil ég standa. En ég tel það óeðlilegt og eiginlega hæpnar forsendur að setja sköttun á saltsíld, sem á nú mjög í vök að verjast og gefa mun litla peninga, en þó stendur hér í aðalmgr., að það á að efla niðursuðu á saltsíld og öðrum sjávarafurðum. Það fer ekki saman að byggja upp stórkostlegan iðnað, sem á að treysta á það hráefni, sem er svo sagt á hinu leitinu að muni ekkert gefa af sér í skattgjaldi og þess vegna sé ótímabært að vera að rífast um slíkt skattgjald. Það er eitthvað rangt í slíkri staðhæfingu, þegar hún gengur á víxl.

Ég vil ítreka það, að n. athugi það alvarlega að fara ekki út fyrir skattlagningu á iðngreininni sjálfri. Varðandi þorskhrognin er það þannig, að þau eru næstum óseljanleg í dag í tunnum, og er það athyglisvert, ef okkur mundi ganga miklu, miklu betur að selja þau í túpum eða niðursoðin. Ég veit um mann, sem nýlega hefur verið í Englandi, vel þjálfaðan í þessum efnum, og hann hefur rekið niðursuðu á þorskhrognum hér undanfarið. Hann á mjög erfitt núna og mjög erfitt með að koma þeim inn erlendis. Og það tímabil, sem hægt er að framleiða þessa vöru, — því að það er heimtað, að hún sé fersk, ekki fryst, — það er mjög stutt á Íslandi, mjög stutt. Það stendur í 6–8 vikur. Þó hafa sumar verksmiðjurnar viljað taka þau fryst, en þær verksmiðjur, sem gera kröfu um, að hrognin séu fersk, geta ekki framleitt fersk hrogn á lengri tíma en um tveggja mánaða tímabili. Víða kemur samkeppni frá, m. a. frá Noregi. Nú er þar óvenjugóður afli og kann það að valda þessari sölutregðu hjá íslenzkum aðila, en ég er þó sannfærður um, að með því skipulagi og bætta átaki, sem frv. gerir ráð fyrir að verði, þá muni okkur ganga betur að losna við okkar vöru, með mikilli auglýsingastarfsemi og undir okkar sérstaka vörumerki. En við skulum líka athuga það, að a. m. k. í Vestur-Evrópu erum við að keppa við fjárhagslega mjög sterk fyrirtæki, a. m. k. á okkar mælikvarða, þó að um eitt einstakt fyrirtæki sé að ræða. Við höfum starfað með fyrirtæki, sem heitir Bjelland, í sambandi við Norðurstjörnuna í Hafnarfirði. Það fyrirtæki annaðist alla sölu á framleiðslunni. Eftir nokkurra ára þjálfun var starfslið þess fyrirtækis komið upp í eðlileg afköst miðað við bónuskerfi. Hins vegar tók það mjög langan tíma að þjálfa starfsliðið þannig, að afköst hjá því fyrirtæki væru sambærileg við það, sem er í Noregi. Hins vegar varð hráefnisskortur því fyrirtæki að aldurtila, en e. t. v. er hægt að breyta um og fara í aðra framleiðslugrein heldur en síld. Nú er verið að reyna við lifur. Ég sá það nú reyndar í blaði hæstv. iðnrh., að það væri tíföldun á því að sjóða niður lifur. Það hefur nú sennilega aðeins verið miðað við, að hún væri flutt út í tönkum, en hér í Reykjavík er nú fyrirtæki, sem hefur framleitt meðalalýsi um árabil og hefur margfaldað verðmæti lifrarinnar og mun halda því áfram. Engu að síður er veruleg búbót að því að geta soðið niður mikið af lifrinni. En það ber alveg að sama brunni. Ef niðursuðan á að fá lifur, þá skal það vera úrvalslifur og hún fæst aðeins takmarkaðan tíma ársins, því miður. Það er mjög erfitt að fá góða lifur í niðursuðu nema á vertíð. Þó kynni það að vera undir vissum kringumstæðum á sumrin, ef göngufiskur kemur inn fyrir vestan eða norðan, en þá eru líka flutningsvandræðin orðin mikil.

Einnig er það mikið atriði, hvernig dreifing á fyrirtækjum á sér stað. Ég held persónulega, — það er kannske harður dómur, en ég held það persónulega, — að þessi fyrirtæki megi ekki vera of lítil, til þess að þau geti fullnýtt sjálfvirkni í framleiðslu. Og ef sjálfvirkni kemst ekki á í niðursuðu, þá er hún fyrir fram dauðadæmd á hinum stóra, breiða markaði, sem við erum að reyna að keppa að að koma afurðum okkar á. Þetta þýðir það, að fjármögnun á slíku fyrirtæki verður mjög mikil og það verður að undirbúa slíkt fyrirtæki mjög vel. Og það er misskilningur, að það sé hægt að hafa þessi fyrirtæki úti um allt land. Þau hljóta að vera við vissar stórar verstöðvar eða jafnvel í þéttbýliskjarna. Að öðrum kosti eiga þau ekki lífsmöguleika að minni hyggju.

Á þetta vildi ég nú benda. Það er kannske óþarfi að vera með svona sparðatíning, en það er gert í góðri meiningu, svo að menn geri sér fulla grein fyrir því, að þegar svona stórátak á að gera, þá verður að huga að ýmsu öðru en að leggja viðbótarskattgjald á saltsíldarframleiðslu og sykurhrognaframleiðslu. Það mun hvergi nærri duga til.