03.05.1972
Efri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þá mælir iðnn. einróma með samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir. Hv. frsm. ræddi um mikilvægi þessa máls og nauðsyn þess að gera skipulegar og markvissar aðgerðir til þess að efla niðursuðuiðnaðinn í landinu. Um þetta er ég honum algerlega sammála og ég fagna því út af fyrir sig, að frv. um þetta efni skuli fram komið. Annað mál er það, að það er ýmislegt, sem ég hef við frv. að athuga, sumt af því eru formsatriði og minni háttar atriði, sem ég hef ekki talið rétt að gera að neinu sérstöku ágreiningsefni. Það er svo, þegar um er að ræða frv. sem þetta, að þá getur lengi sitthvað farið betur og margt verið álitamál.

Hv. frsm. fór að segja, að stjórnarandstaðan hefði átalið það, hvaða fulltrúar hefðu verið settir . . . (Gripið fram í: Blöð.) Blöð stjórnarandstöðunnar átöldu, hvaða fulltrúar hefðu verið settir af ríkisstjórninni í nefnd til þess að semja þetta frv., á þeirri forsendu, að þeir hefðu ekki sérfræðilega þekkingu á niðursuðumálum. Hv. ræðumaður sagði, að það væri alveg rétt, að þeir hefðu ekki haft þekkingu á niðursuðumálum, en samt væri þessi ádeila ekki réttmæt. Þetta hefur að vissu leyti veikt álit mitt á þeirri vinnu, sem hefur verið framkvæmd við samningu þessa frv. Að vísu geri ég mér grein fyrir, að þessi nefnd, sem hafði það verkefni að semja frv., hefur ekki sérfræðiþekkingu á niðursuðumálum á þann hátt, að þessir menn hafi unnið við niðursuðu. En þegar menn taka að sér að semja frv. til löggjafar um þýðingarmikið efni, þá þykir mér einsýnt, að þeir verði að heyja sér einhverja lágmarksþekkingu í þessum efnum, og það var það, sem ég hélt að þessir ágætu nm., m. a. 4. þm. Norðurl. v. og 1. þm. Vestf., hefðu gert. Nú er það upplýst, að þeir hafa ekki gert þetta, og ég spyr þá:

Hvernig stendur á, að þeir hafa verið settir í þetta verk? Ég sagði, að ég hefði ýmislegt við frv. að athuga, og þá átti ég við formsatriði og minni háttar atriði. Mér finnst frv. illa samið og slæm smíði og ég vildi fyrirgefa þeim það, ef þeir hefðu þá haft þekkingu á því, sem var aðalatriðið í þessu efni, niðursuðumálunum sjálfum. (Gripið fram í: Ég sagði, að þeir hefðu ekki haft sérþekkingu.) Já, en ég segi, að þegar menn taka að sér frv. sem þetta, þá verða þeir að heyja sér lágmarksþekkingu. Þetta er nú aðeins byrjunin á þessu. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta efni, en skal víkja að frv. sjálfu.

Ég sagði, að það væri margt, sem kæmi til álita að breyta ætti eða gæti betur farið, en út í það ætla ég almennt ekki að fara, en víkja að einu atriði, sem ekki hefur verið gerð brtt. um. Mér þykir það þess eðlis, að það sé sjálfsagt að vekja athygli á því, og þá á ég við það atriði, sem stendur í 2. gr., g-lið, varðandi tækniþjónustu og tæknimál. Hv. frsm. sagði, að þar sem skórinn hefði kreppt að varðandi niðursuðuiðnaðinn væru fyrst og fremst markaðs- og sölumálin. Ég vil ekki á neinn hátt draga úr mikilvægi markaðs- og sölumálanna. En við megum þó ekki gleyma öðrum þætti, sem er framleiðslan sjálf, tæknimálin varðandi framleiðsluna sjálfa, og mér finnst, að þetta frv. geri helzt til lítið úr þeim þætti. Að vísu segir í lok 2. gr., að að því skuli stefnt að koma á fót tækniþjónustu hjá niðursuðuiðnaðinum. Minna gat það nú ekki verið. Mér hefði fundizt það koma til greina að setja miklu fyllri og nákvæmari ákvæði um þessi efni, en ég hef ekki gert brtt. um það. Það er bæði, að það er nokkuð vandmeðfarið og kannske ekki einsýnt, hvernig á að koma þeim málum fyrir, svo og að ég legg mikla áherzlu eins og aðrir á það, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi. Það getur hugsazt líka, að það væri fullt eins skynsamlegt að hyggja á breytingar í þessu efni síðar og þá þegar einhver reynsla væri komin á þessa stofnun, sem hér er um að ræða.

En ég minnist á þetta vegna þess, að það liggur í augum uppi, að þessi mál eru ákaflega þýðingarmikil. Áður fyrr, þegar niðursuðumálin eða vandamál niðursuðuiðnaðarins hafa verið athuguð, þá hefur þessi þáttur verið þýðingarmikill í þeim athugunum, sem fram hafa farið. Í því sambandi leyfi ég mér að nefna, að Karl Sundt Hansen, norskur vélaverkfræðingur, gerði skýrslu um þessi efni fyrir rúmum 10 árum. En hann var fenginn hingað til lands til að rannsaka þessi mál og gera till. um lausn þeirra á vegum Iðnaðarmálastofnunar Íslands. Og þessi sérfræðingur lagði til, að komið yrði á fót sérstakri tæknimiðstöð niðursuðuiðnaðarins, sem hefði það hlutverk að vinna að þessum málum í þágu niðursuðuiðnaðarins. Hlutverk þessarar stofnunar átti að vera í megindráttum það að veita þjónustu og ráðleggingar hverju fyrirtæki í niðursuðuiðnaðinum, sem þess óskaði, varðandi byggingu verksmiðja og endurbyggingar, við innkaup véla og lausn hvers konar vandamála í sambandi við sjálfa niðursuðuna, efnagreiningu og þess háttar. Ég bendi á þetta, vegna þess að það má ekki gleymast, að undirstaðan undir öllum iðnaði er þó framleiðslan sjálf, þó það sé rétt, að ekki tjói að framleiða, ef ekki er hægt að selja.

En ég vík þá að brtt. þeim, sem við hv. 2. þm. Reykv., Birgir Kjaran, höfum leyft okkur að flytja og varða það mál, sem er mesta ágreiningsefnið, eins og hv. frsm. sagði. En við höfum kosið að bera fram brtt. okkar í því formi, að við höfum umorðað 4. gr. í heild. Eins og 4. gr. liggur fyrir í brtt. okkar, er þar um að ræða það sama og er í 4. gr. frv. sjálfs, en í brtt. okkar felast samt veigamikil og stór atriði. Og það er þá það fyrsta, að í okkar till. segir: „Fulltrúaráðið fer með æðsta vald í öllum rekstri og stefnumótun stofnunarinnar.“ Í frv. segir: „Fulltrúaráðið er ráðgefandi um allan rekstur og stefnumörkun stofnunarinnar.“ Hér er um grundvallarmál að ræða. Áður en ég vík að þessu grundvallaratriði vil ég koma að spurningunni um stjórn stofnunarinnar, en hún er nátengd valdsviði fulltrúaráðsins. Í brtt. okkar er gert ráð fyrir, að stjórn stofnunarinnar skuli skipuð fimm mönnum kjörnum til þriggja ára í senn eins og frv. gerir ráð fyrir, en tveir skuli kosnir hlutfallskosningu af Alþingi og skipar ráðh. annan þeirra formann, en þrír skuli kjörnir af aðalfundi fulltrúaráðsins. Þetta er það, sem brtt. felur í sér, en eins og hv. frsm. lýsti hér áður, þá gerir frv. ráð fyrir því, að ráðh. tilnefni þrjá menn í stjórnina, en fulltrúaráðið kjósi einungis tvo.

Nú er það, að þessi atriði um valdsvið fulltrúaráðsins og skipun stjórnarinnar hljóta að fara eftir því, hver er tilgangurinn með þessu frv. Tilgangurinn er að aðstoða niðursuðuiðnaðinn í landinu. Það er hinn yfirlýsti tilgangur. Það er ekki tilgangur frv., — enda yfirlýst, að það felist ekki heldur í frv., yfirlýst af hv. frsm. n., — að hér sé um einokun og þjóðnýtingarfyrirtæki að ræða. Það er ánægjulegt, að formaður Alþb. skuli sýna okkur þá tillitssemi að koma í veg fyrir, að við óttumst það, að hann standi að þjóðnýtingarfyrirtæki. En ef þetta er ekki einokun og ef þetta er ekki þjóðnýting og ef þetta er gert til þess að hjálpa og efla niðursuðuiðnaðinn sjálfan, þá sýnist mér, að það sé auðsætt, að eðlilegt sé, að fulltrúaráðið, samkoma framleiðenda, fari með æðsta vald í öllum rekstri og stefnumótun stofnunarinnar. Þetta að vera ráðgefandi, það er allt annað. Við þekkjum það úr okkar sögu, að það er annað að vera ráðgefandi en að hafa ráðin. Það kann að fara vel á því, að slíkar samkomur sem þessar séu ráðgefandi, þar sem ríkinu er falin öll forsjá í atvinnumálum. En það samræmist ekki íslenzkum venjum, það samræmist ekki tilgangi frv. eins og honum er lýst, því að svo bezt er hægt að efla niðursuðuiðnaðinn í landinu, að framleiðendum sé hjálpað til þess að hjálpa sér sjálfir. Og ef það á að þýða, ef ríkið aðstoðar og beitir áhrifum sínum til þess að efla einhverja einstaka atvinnugrein í landinu, að atvinnugreinin sé lögð undir forsjá og stjórn ríkisins, þá erum við að fara inn á algerlega nýjar brautir í þessum efnum. Hér þarf ekki að minna á það, að á öllum tímum hefur hið opinbera komið til aðstoðar við einstaka atvinnuvegi, einstakar atvinnugreinar undir mismunandi kringumstæðum og af sérstökum tilefnum. En það hefur verið grundvallarstefna, ég vil segja hvaða ríkisstjórnar sem er, að láta ekki slíka aðstoð kosta það, að viðkomandi atvinnugrein þurfi að láta af sjálfstæði sínu og hún sé lögð undir forsjá ríkisins.

Hv. frsm. gerði mikið úr þeirri ríkisaðstoð, sem veitt er með þessu frv. Ég hef enga tilhneigingu til þess að gera lítið úr henni. En hv. þm. sagði, að allt fjármagn kæmi frá ríkinu, framlag í formi ríkisábyrgðar, allt kæmi frá ríkinu. Þetta er grundvallarmisskilningur, og slíku er ekki hægt að halda fram. Hér er um heila atvinnugrein að ræða, fjölmarga framleiðendur og verksmiðjur um allt land. Þessir framleiðendur leggja fjármuni sína og sérþekkingu til þessara mála. Á móti kemur aðstoð frá ríkinu, sem ég vil segja að sé hvorki meiri né minni en efni standa til og eðlilegt væri miðað við það, sem gert hefur verið í öðrum tilfellum. Og það er engin sérstök aðstoð við þessa framleiðendur, sem orð er á gerandi, þó að það sé tekið fram, að ríkissjóði sé heimilt að ábyrgjast fyrir hönd stofnunar lán, sem nemur allt að 100 millj. kr. Það er ekki orð á því gerandi borið saman við það, sem yfirleitt er gert og hefur verið gert til aðstoðar atvinnuvegunum. En það eru 25 millj. á ári í 5 ár, sem ríkið leggur í beinu framlagi til þessarar þýðingarmiklu atvinnugreinar. Það er lofsvert og það kemur í góðar þarfir. Það kemur þó því aðeins í góðar þarfir, að það sé sköpuð sú aðstaða fyrir framleiðendur, að þeir finni til ábyrgðar sinnar og geti notað sína sérþekkingu til þess að fara raunverulega með stjórn þessarar atvinnugreinar, án þess að leggja hana undir pólitíska ráðherra. Og það er algjörlega fásinna, sem hv. þm. sagði hér áðan, að vegna þess að ríkið leggi til tekjustofna, eigi að leggja þá aðila, sem njóta ákveðinna tekjustofna, undir forsjá og áhrifavald ríkisins. Hvar værum við staddir í þessu þjóðfélagi, ef það ætti að fylgja þessari kenningu? Það er augljóst, hvert við værum komnir. Það væri allt komið undir ríkið, því að auðvitað er það ríkisvaldið, sem ákvarðar tekjustofna hinna ýmsu aðila. Ég held, að eftir því sem við veltum þessu máli meira fyrir okkur, eftir því verði það augljósara, að það brýtur ekki einungis á móti viðtekinni venju að leggja þessa atvinnugrein undir ríkisvaldið með þeim hætti, sem frv. gerir ráð fyrir, þó að það sé veitt aðstoð af hálfu ríkisvaldsins, heldur er það svo, að þetta er í eðli sínu til þess fallið að draga úr áhrifum þess góða, sem þessi aðstoð gæti annars stuðlað að.

Ég hef hér rætt um tvö veigamikil atriði, sem felast í brtt. okkar hv. 2. þm. Reykv. En í brtt. okkar felast önnur tvö atriði, sem eru minni háttar, en mér þykir rétt að gera grein fyrir. Annað er það, að brtt. okkar leggur til, að fulltrúaráðið skuli ákveða þóknun til stjórnar stofnunarinnar, en frv. gerir ráð fyrir því, að ráðh. ákveði þetta. Með tilvísun til þess, sem ég hef áður sagt um afskipti ríkisvaldsins, þá þykir okkur rétt, að þetta heyri undir stjórn fyrirtækisins.

Hitt atriðið varðar framkvæmdastjórann. Í frv. segir, að stjórnin ráði framkvæmdastjóra, sem sé prókúruhafi fyrir stofnunina og annist almennan rekstur í samráði við stjórnina. Staða framkvæmdastjóra skal ákveðin í samræmi við launakerfi starfsmanna ríkisins. Við gerum að till. okkar, að stjórnin ráði og ákveði laun framkvæmdastjóra, sem sé prókúruhafi fyrir stofnunina og annist annan rekstur í samráði við stjórnina. Munurinn, sem hér er á, er sá, að samkv. frv. er litið svo á, að farið sé með starf þessa manns sem starf opinbers starfsmanns. Ég held, að efnislega sé ekki rétt að gera slíkt, og það sé heldur ekki raunhæf leið til að fá sem hæfastan og beztan mann til að stjórna þessu fyrirtæki, því að það liggur í augum uppi, að til þess starfs þarf að velja með öðrum hætti heldur en embættismenn ríkisins eru venjulega valdir. Af þessum ástæðum gerum við og þessa brtt.

Ég hef núna gert grein fyrir viðhorfi mínu til þessa frv. og brtt. okkar og sé ekki ástæðu til að orðlengja það frekar.