04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Frsm. (Ragnar Arnalds) Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að lengja að neinu ráði þessar umr., sem orðnar eru um það frv., sem hér er til umr., því að mest nauðsyn er nú á því, að frv. komist áfram.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson gerði nokkrar aths. við frv. í gær og hélt því m. a. fram, að frv. væri illa samið. Ég verð nú að segja það, að ef frv. er slík hrákasmíð sem hv. þm. vill vera láta, þá hefði ég nú átt von á því að sjá fleiri brtt. af hans hálfu en raun ber vitni. Staðreyndin er sú, að hann hefur aðeins flutt hér eina brtt. til viðbótar þeim till., sem n. hefur verið sammála um.

Hann gat þess, að á skorti, að það væru nægilega skýr ákvæði um þá tækniþjónustu, sem þörf væri á í þessum iðnaði, því að það þyrfti að leggja þunga áherzlu á tæknihliðina. Út af fyrir sig er það alveg rétt, að ekki má gleyma henni. Ég vil nú hins vegar segja það, að ég held, að framleiðsla íslenzkra niðursuðuverksmiðja, niðurlagningarverksmiðja, hafi almennt þótt nokkuð vel heppnuð og nokkuð góð. Meinið hefur sem sagt ekki verið það fyrst og fremst, að tæknin hjá þessum verksmiðjum væri í ólagi, heldur það, að illa hefur gengið að selja vöruna. Það hefur verið kjarni málsins. Þess vegna er einmitt hér verið að leggja megináherzluna á það með stofnun þessarar sölustofnunar. Ég held, að sá liður, sem um þetta fjallar í frv., sé algerlega fullnægjandi. Það mun vera g-liður í 2. gr. frv., en þar er einmitt skýrt kveðið á um það, að komið skuli á fót tækniþjónustu fyrir þennan iðnað. Hv. þm. minnti á, að í skýrslu sérfræðings, sem hingað kom fyrir allmörgum árum til þess að fjalla um vandamál niðursuðuiðnaðarins, hefði verið lagt til, að komið yrði upp sérstakri tæknimiðstöð fyrir þennan iðnað, og ég efast ekki um, að það hafi verið skynsamleg till. á sínum tíma. En ég er hræddur um, að sú till. sé ekki sérlega raunhæf í dag. Við höfum síðan þá þróazt fram á við, hvað þessi mál snertir, höfum fengið og byggt upp tæknistofnun fiskiðnaðarins og hún vinnur fjöldamörg þau störf, sem slíkri tæknimiðstöð hefði verið ætlað ella. T. d. gerir hún efnagreiningar og veitir þessum verksmiðjum mjög mikilsverðar leiðbeiningar. En að því leyti sem sú þjónusta nægir ekki, þá er gert ráð fyrir því, að sölustofnunin komi upp tækniþjónustu.

Annars er það svo, að mesta deilumálið í sambandi við þetta frv. er það, hvernig stjórn stofnunarinnar skuli háttað, og hér komu í gær tveir hv. þm., sem lögðu mjög þunga áherzlu á það, að þessari gr. þyrfti að breyta, 4. gr., þannig að atvinnurekendur ættu og hefðu meiri hl. í stjórn stofnunarinnar. Eins og ég tók fram hér í gær, er það svo, að þarna hefðu komið til greina þrjár hugsanlegar leiðir. Það hefði verið hugsanlegt, að sölustofnunin hefði verið byggð upp sem hrein ríkisstofnun. Þá reikna ég með, að öll stjórnin hefði verið kosin hér af Alþ., framleiðendur hefðu þá ekki haft þar nein bein áhrif og þeir hefðu þá aðeins átt almenn viðskipti við stofnunina með því að fela henni að hjálpa sér að selja sína vöru. Þannig var þetta t. d. í sambandi við fiskimálanefndina á sínum tíma, og þannig er þetta oftast með venjulegar hreinræktaðar ríkisstofnanir. Þessi leið var hins vegar ekki valin. Önnur leið hefði verið sú, að þarna hefði bara verið um að ræða hrein samtök framleiðenda. Þá hefði auðvitað öll stjórn þessarar stofnunar verið skipuð af framleiðendum. Framleiðendur hefðu ráðið stofnuninni algerlega. Þeir hefðu þá sjálfir útvegað það fjármagn, sem til þarf. Þeir hefðu lagt fram eigið fé í stofnunina, part af sínum verksmiðjum eins og reiknað var með á sínum tíma. Þá var reiknað með því, að hver verksmiðja, sem átti að vera aðili að Sameinuðu niðursuðuverksmiðjunum, hver eigandi slíkrar verksmiðju legði fram helminginn af hlutafé hverrar verksmiðju inn í sameiginlega fyrirtækið og það hefði þá verið eignarhluti sölusamtakanna í viðkomandi verksmiðju. Ríkisvaldið hefði út af fyrir sig getað komið þar til greina með ýmiss konar fyrirgreiðslu, ekki skal því neitað. Þessi samtök hefðu átt það skilið og hefði verið sjálfsagt að veita hana. Það hefði komið til greina að veita almenna ábyrgðarheimild og ég er ekki frá því, að alþm. hefðu getað komið sér saman um það að veita þessum samtökum einhverja dágóða upphæð á fjárlögum til styrktar slíkri starfsemi, eins og hefur auðvitað verið gert með fjöldamörg mikilvæg samtök einkaaðila, sem komið er á fót, en eru algerlega á vegum einkaaðilanna og er stjórnað af þeim. Sú leið, sem aftur á móti varð þarna fyrir valinu, er millileið. Þarna er um að ræða opinbera stofnun undir sjálfstæðri stjórn, sem er sett á laggirnar ekki með samningum einkaaðila, heldur með löggjöf. Því verður ekki á móti mælt, að framleiðendum er ekki ætlað að leggja eitt eða neitt inn í þessa stofnun. Það er ríkið, sem útvegar allt fjármagnið, en samhliða þessu mynda svo framleiðendur ráðgefandi fulltrúaráð, sem fær og á kost á því að skipa tvo menn af fimm stjórnarmönnum, og ég efast ekkert um það, að eins og þetta er uppbyggt, verður þetta fulltrúaráð leiðandi afl innan þessarar stofnunar. Aftur á móti verður skipulaginu breytt á þann veg eftir fimm ár, þegar framleiðendur njóta ekki lengur ríkisframlaga og styrkja, að framleiðendur fá þá úrslitaáhrif innan stofnunarinnar.

Því var haldið fram hér í gær, að þess væru mörg dæmi, að ríkið hefði komið til aðstoðar við einstök félagasamtök eða við samtök atvinnurekenda, án þess að framleiðendur þyrftu að láta af sjálfstæði sínu, eins og það var orðað hér í gær. Í þessari fullyrðingu eru tvær skekkjur. Í fyrsta lagi er sú skekkja, að það er ekkert fordæmi fyrir því í íslenzkri löggjöf, að sett sé upp stofnun, þar sem ríkisvaldið leggur fram allt fjármagn, sem stofnunin hefur úr að spila, en framleiðendur hafi þar úrslitaáhrif. Það er ekkert fordæmi um það yfirleitt, að framleiðendur eða samtök þeirra hafi fengið svo gífurlega mikið fjármagn í hendurnar, eins og þarna er gert ráð fyrir. Menn voru að nefna það hér í gær, að það hefði tíðkazt, að samtök framleiðenda fengju verðuppbætur á fisk eða gengisuppbætur og slíkar upphæðir hefðu oft numið mörg hundruð millj. kr. Þetta er alveg rétt. En ég vil leyfa mér að spyrja menn í fyllstu hreinskilni, hvort þeir vilja bera þetta tvennt saman. Þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt, þó að ríkisvaldið líti svo á, að verðlag á einhverri ákveðinni vörutegund sé óeðlilega lágt miðað við okkar efnahags- og viðskiptakerfi og telji nauðsynlegt að greiða verðuppbætur á einhverja ákveðna afurð, þá er ekki þar með sagt, að það sé verið að styrkja þessi viðkomandi sölusamtök. Þeir menn, sem ráða yfir slíkum sölusamtökum, fá ekki þessa peninga upp í hendurnar. Þeir ráða ekki, hvernig þeim er ráðstafað, heldur ákveður ríkisvaldið, að það skuli greiða svo og svo margar krónur til verðuppbóta á einhverja ákveðna afurð, og þeir peningar koma aldrei í hendurnar á viðkomandi framleiðendum raunverulega, þannig að þessi samanburður er algerlega fráleitur og á ekki nokkurn rétt á sér.

Í öðru lagi vildi ég undirstrika það hér enn einu sinni, að það er ekki um það að ræða, að þessar verksmiðjur láti eitt eða neitt af sjálfstæði sínu. Þær eru fullkomlega sjálfstæðar hver um sig eftir sem áður. Þær hafa rétt til þess að ganga úr samtökunum hvenær sem þær óska eftir því. Þær eru frjálsar að því að selja sína vöru utan við samtökin, og samtökin hafa ekki minnsta íhlutunarrétt um stjórn hverrar verksmiðju fyrir sig, þannig að það er ekki hægt að halda því fram með nokkrum rétti, að þær séu sviptar sjálfstæði sínu með tilkomu þessarar nýju stofnunar. En ef þær telja það samrýmast hagsmunum sínum að láta þessa stofnun selja fyrir sig sína framleiðslu, þá eiga þær kost á því, þá geta þær gert það. Það tel ég ekki vera að fórna sjálfstæði sínu.

Hér var sagt í umr. í gær, að framleiðendur legðu fjármuni sína, fyrirtæki sín og sérþekkingu inn í þessa samvinnu. Það væri þeirra mikla framlag. Út af fyrir sig er þetta alveg rétt, þeir leggja þetta fram. En það er ekki svo, að þeir fái ekki eitthvað á móti. Þetta er einmitt gert til þess að auðvelda þeim að selja sína vöru og þeir fá þá áreiðanlega fyllilega það á móti, sem eðlilegt er.

Ég vildi sem sagt undirstrika það hér, að framleiðendur eiga sínar verksmiðjur áfram, á því verður engin breyting, og það er satt að segja reginmunur á því og svo aftur þeim samtökum, sem stóð til að stofna á vegum framleiðenda sjálfra á sínum tíma, þar sem þeir ætluðu beinlínis að láta sínar verksmiðjur, a. m. k. að hálfu leyti, inn í samtökin. Það er ekki um það að ræða í þessu tilviki hér. Þeir fórna sem sagt engu og eru algerlega frjálsir áfram, geta gengið út hvenær sem þeir vilja.

Hv. þm. Jón Árnason lagði áherzlu hér í gær á það, sem framleiðendur legðu fram, það væri ekki hægt að segja, að ríkið legði fram alla fjármunina, því að viðkomandi sölusamtök hefðu tekjur í gegnum umboðslaun og sölulaun af framleiðslunni. Þetta er alveg laukrétt. Auðvitað er samtökunum ætlað að fá eitthvað í sinn hlut til þess að standa undir þeim mikla kostnaði, sem er af sölu þessarar framleiðslu. Væntanlega eiga sölulaunin og umboðslaunin, þegar þar að kemur, að standa algerlega undir dreifingarkostnaðinum og markaðskostnaðinum. En þetta er ekki fjármagn, sem verið er að taka af framleiðendum. Það er alger fölsun, ef því er haldið fram. Framleiðendur hafa hingað til ekki fengið umboðslaunin eða sölulaunin. Það eru útflytjendur, sem hafa fengið þau, stundum með réttu og kannske stundum með röngu. En í öllu falli hafa sölulaunin ekki runnið til framleiðenda, þannig að það er ekki hægt að halda því fram, að framleiðendur séu að afhenda þessum nýju samtökum sölulaunin eða umboðslaunin. Sölulaunin og umboðslaunin eru bara réttmæt greiðsla fyrir það starf, sem innt er af hendi af hálfu samtakanna, og það er víst ekki nokkur vafi á því, að kostnaður þeirra af dreifingunni og sölunni erlendis mun verða miklu meiri en nemur þessum sölulaunum og umboðslaunum.

Ég vildi sem sagt undirstrika það hér, að menn verða að skilja eðli þessarar stofnunar. Það er ekkert minnsta fordæmi fyrir því, að ríkisvaldið hafi afhent samtökum, sem stjórnað er af einkaaðilum, mörg hundruð millj. til frjálsrar ráðstöfunar, án þess að ríkisvaldið tryggi sér eftirlit og umráðarétt með því, hvernig því fjármagni er varið. Það væri algerlega án nokkurs fordæmis, og ég tel þess vegna ekki stætt á því að gera það. Aftur á móti hef ég fallizt á það, þó að ég telji það út af fyrir sig ekki neina nauðsyn og í raun og veru alls ekki eðlilegt, þá hef ég fallizt á það, að það fyrirkomulag verði, að eftir fimm ár, þegar framleiðendur hætta að njóta þessa ríkisframlags, þá fái þeir meiri hlutann í stjórn stofnunarinnar. Þá mun að vísu eftir sem áður verða um það að ræða, að þeir muni ekki hafa lagt neitt fram til uppbyggingar stofnunarinnar, heldur verður allt fjármagn, sem í henni er fólgið, raunverulega komið frá opinberum aðilum, en það má kannske segja, að það hafi þá að mestu eyðzt og hafi runnið í reksturinn almennt til að byggja upp stofnunina sem slíka, og ég reikna þá með, að það sé komin það mikil festa í starfsemi þessarar stofnunar, að menn geti sætt sig við það, að framleiðendur verði við þær aðstæður í meiri hl. innan stofnunarinnar.

Ég vil að lokum undirstrika það, að ef menn eru þeirrar skoðunar, að framleiðendur eigi að vera í algerum meiri hluta í stofnun af þessu tagi, þá eigi þeir ekki að fylgja þessu frv. Þá er bara eðlilegast, að framleiðendur geri þetta sjálfir. Þá eiga þeir sjálfir að útvega fjármagnið, þá eiga þeir sjálfir að bera ábyrgðina. Ríkisvaldið getur þá veitt eðlilega fyrirgreiðslu. Það getur þá útvegað lánsfé eftir því sem talin er þörf á, og það getur út af fyrir sig alltaf komið til greina einhver ríkisstyrkur, en það á ekki að byggja samtökin upp með þessum hætti, eins og hér er gert ráð fyrir. Kjarni málsins er hins vegar sá, að við þurfum þá enga lagaheimild til þess að byggja upp slík samtök. Framleiðendur mundu geta gert það sjálfir. Þeir eru frjálsir að því að gera það hvenær sem þeir vilja, en það vill bara svo til, að þessa leið vill enginn fara. Þessi leið hefur verið reynd og þess vegna nýtur hún einskis stuðnings lengur. Hún mistókst á sínum tíma. Þess vegna hefur verið valin önnur leið, og henni fylgja þá auðvitað önnur skilyrði og önnur tilhögun óhjákvæmilega.