04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Það er fátt nýtt, sem ég þarf að bæta við það, sem ég sagði hér í gær um þetta mál. Þó vil ég aðeins víkja nokkrum orðum að því ágreiningsefni, sem hér er um að ræða. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í gær, að ég tel, að það sé mjög gott fyrir niðursuðuiðnaðinn að fá þetta frv., sem hér er um að ræða, og í því felist margvíslegar fyrirgreiðslur fyrir þennan atvinnuveg og til þess að efla hann. Og vegna þess að það hefur orðið svo góð samstaða eða samkomulag um að byggja þetta frv. upp, því hefur verið mikið breytt frá því að það kom úr höndum þeirrar nefndar, sem undirbjó frv. og var til þess kjörin af hæstv. iðnrh., þá hefðum við, sem stöndum að þessum verksmiðjum, sem hér er um að ræða, vænzt þess, að það næðist einnig samkomulag um þetta atriði, sem við höfum margskýrt frá, að við leggjum mjög mikla áherzlu á. Það er nokkuð annað að vera aðeins með í stjórnuninni og eiga bara að vera ráðgefandi ellegar að geta ráðið meira yfir málefninu, eins og við teljum að sé nauðsynlegt. Við þökkum fyrir þann stuðning, sem felst í þessu frv. við þessa starfsemi, sem var af hæstv. ríkisstj. talin það mikilsverð í okkar þjóðarbúskap, að þess var getið í hennar stjórnarsamningi, að reynt yrði að styðja og efla þennan atvinnuveg og þennan iðnað, sem hefur átt í vök að verjast, eins og rétt er og hér hefur verið margskýrt frá á undanförnum árum, þrátt fyrir þá staðreynd, að þróunin í nágrannalöndum okkar hefur verið í þá átt, að það hefur verið æ stærri hluti af fiskframleiðslunni, sem hefur gengið til niðursuðuiðnaðarins. En því miður kemur mjög lítið brot af okkar útflutningsverðmætum frá niðursuðuiðnaðinum í dag, þrátt fyrir það að við höfum úrvalshráefni til þess að byggja á þessa framleiðslu.

Hv. frsm. þessa frv. sagði í gær, að hér væri ekki verið að koma upp þjóðnýtingarstofnun eða neinu þess háttar. Þetta ættu að vera frjáls samtök framleiðenda. Það væri meiningin með þessu frv. Og ég verð nú að segja það, að ég kann ekki við þann tón í sambandi við umr. um þetta mikilsverða mál, sem ég legg mikla áherzlu á, að náist sem bezt samvinna um og samkomulag, því að ég er ekki í neinum vafa um það, að ef það næst, þá verður hægt að gera stórt átak í þessum efnum með þeim fjárstuðningi, sem hér er heitið. Svo er annað, sem ég vil líka láta koma fram, af því að hv. frsm. n. er búinn að margsegja það hér í umr., að framleiðendur eða verksmiðjueigendur leggi enga peninga fram í þessum efnum. Ég vil upplýsa það, að það hefur ekki verið farið fram á það við undirbúning þessa máls, að framleiðendur eða verksmiðjueigendur legðu neina peninga fram, sem rynnu í sameiginlegan sjóð til þess að byggja þessa stofnun upp. Ég skal ekkert segja um það, að hve miklu leyti þeir eru færir um að koma með stórar fjárhæðir í þessum tilgangi, en mér er ekki kunnugt um, að farið hafi verið fram á það. Vikið hefur verið að því, að útflutningsgjöldin af niðursoðnum sjávarafurðum og grásleppuhrognunum komi í sjóð hjá þessari stofnun, það sé framlag ríkissjóðs. Sannleikurinn er sá, að í fjöldamörgum og flestum okkar nágrannalöndum, sem byggja afkomu sína að verulegu leyti — þó ekki í námunda við það, sem við Íslendingar gerum — á sjávarútvegi, er það í mörgum tilfellum, að það er ekki aðeins, að engin útflutningsgjöld séu greidd þar af sjávarútvegsframleiðslunni, heldur eru verðbætur frá því opinbera, ríkinu, til viðbótar. Og enda þótt útflutningssjóðurinn verji þarna nokkru fjármagni, er ég ekki búinn að sjá, að það komi stórar upphæðir í þennan sjóð. Það kann vel að vera, að á prjónunum sé að koma með stórar upphæðir úr ríkissjóði í þennan sjóð til þess að bæta honum það tjón, sem hann kann að verða fyrir. Ég veit, að útflutningssjóðurinn eða vátryggingarsjóðurinn er í mjög miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Það kann vel að vera, og það mundi gleðja mig, að ríkisstj. sjái sér fært að veita verulegar fjárupphæðir til þess að efla þann sjóð, því að það er vissulega mikil þörf á því. Hann er nú þegar orðinn á eftir með greiðslur til þess að standa við sínar skuldbindingar a. m. k. sem nemur 8–9 mánuðum, og þar verður vissulega að gera eitthvert átak. En þó að þessi upphæð komi vissulega að verulegu gagni við þessa starfsemi, þá er þarna ekki um neina verulega upphæð að ræða á mælikvarða þess sjóðs, sem þar er um að ræða.

Nei, ég veit og ég trúi því, að það sé einlægur ásetningur þeirra, sem hafa staðið að því að semja þetta frv., að um þessa starfsemi náist sem bezt samvinna og einnig þeirra aðila, sem ætlað er að veita styrk í þessum efnum. Og þess vegna mundi ég segja, að það væri mjög mikilsvert, ef iðnrh. vildi fallast á og stuðla að því, að stjórn þessarar væntanlegu stofnunar verði þannig skipuð, að það verði þrír af fimm frá framleiðendum, en hins vegar finnst mér koma til greina, að þeir aðilar verði þá látnir leggja eitthvað fram. Það mætti vel koma einhver fyrirvari um það og eins einhver varnagli af hendi þess opinbera, svo að tryggt verði, að því fjármagni, sem það opinbera leggur þarna af mörkum, verði ráðstafað á þann hátt, sem sæmilegt mætti teljast, og það yrði þá vel séð fyrir því, að ekki væri farið illa með það fé, sem ríkið veitti til eflingar þessum iðnaði. Ég held, að það hljóti að vera hægt að finna leiðir til þess að hafa þann varnagla á í þessum efnum af hendi þess opinbera, að tryggt verði, að vel verði farið með það fé, sem þarna verður lagt af mörkum af hálfu þess opinbera, enda þótt ríkið hafi ekki endilega meiri hl. í stjórn þeirrar stofnunar, sem á að fara með sölumál þessarar framleiðslu.