10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég ætlaði við þessa 1. umr. aðeins að segja örfá orð í sambandi við þetta mál. Ég vil taka undir það með hæstv. iðnrh., að ég tel, að hér sé um stórmál að ræða fyrir þennan atvinnuveg og kannske miklu stærra mál heldur en þetta frv., svona við fyrsta yfirlestur, ber með sér. Hér er tekið á vandamáli og reynt að byggja grunn undir ónotaða möguleika, sem, eins og hæstv. ráðh. sagði, hafa verið notaðir að svo sáralitlu leyti í landinu enn sem komið er. Þetta er þó ekki vegna þess, að það séu ekki nægjanlega margar verksmiðjur í landinu, heldur er það vegna þess, að þetta hefur verið býsna skipulagslítið. Og því er mín spurning sú, hvort það sé talið líklegt, að framleiðendur yfirleitt muni fallast á þetta fyrirkomulag og nota þá aðstöðu, sem þarna er um að ræða.

Ég er öldungis sammála því, að vandamálið í þessu er efling sölustarfseminnar. Þessi starfsemi hefur á þessu sviði eins og raunar annars iðnaðar í landinu verið ákaflega lítil og mjög tilviljanakennd. Það vantar ekki, að það hafi verið kannske boðnar niðursoðnar vörur, en þetta hefur ekki verið gert á skipulegan hátt. Ég felli mig sem sé mjög vel við þau vinnubrögð og er í langflestum tilfellum sammála því fyrirkomulagi, sem hér er miðað við. Ég er alveg sammála hæstv. iðnrh. um það, að ég tel, að ríkið eigi að hafa meiri hl. í þessari stjórn stofnunarinnar, á meðan það tímabil er að líða, þar sem þarf virkilega að hafa fasta forustu um alla starfsemina. Ég held, að það sé eðlilegra og raunar sjálfsagt, að ríkið hafi á þessu tímabili meirihlutastjórn með höndum.

En ég get ekki látið þess ógetið, að það er til meiri iðnaður í landinu heldur en lagmetisiðnaður, svo ágætur sem hann nú annars er. Ég minnist þess, að í haust barðist ég þó nokkuð fyrir því að fá framlag til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins, eins og það var árið áður, þ. e. 6 millj. kr. Ónei, ekki aldeilis. Það var skorið niður um 33%. Ég kann illa við það, að það sé einhvern veginn verið að flokka iðnaðinn í landinu. Þarna er verið að taka myndarlega á vissum þætti iðnaðar gagnvart sölustarfsemi, og því er ég öldungis sammála. En mér finnst líka, að það hefði þurft að taka tillit til annars iðnaðar í landinu, sem er þó nokkur og sem verður á næstu árum líka að leita að erlendum markaði að verulegu leyti fyrir framleiðslu sína. Og það er sízt minni vandi eða ódýrara að selja annan iðnvarning í útlöndum heldur en lagmeti. Mér finnst sem sé óþolandi, að iðngreinar séu flokkaðar eftir einhverri forgangsröðun í góðar og ekki eins góðar greinar.

En ég tel sem sé, að það sé stefnt mjög í rétta átt með þessu frv. Reynslan verður að sýna, hvort hér er nægjanlega stórt tekið á, en við fljótan yfirlestur sýnist mér það einmitt vera. Ég kann þessum vinnubrögðum vel, en ég tel að það hefði líka þurft að gera eitthvað álíka fyrir annan iðnað í landinu.