10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki verða langorður að þessu sinni um það mál. sem hér er til umr. Ég tel þó rétt að gera nú strax við 1. umr. þessa máls með aðeins örfáum orðum grein fyrir minni afstöðu til frv. Ég tel að í meginatriðum stefni þetta frv. í rétta átt. Það hefur verið vanrækt um langt árabil að gera nokkuð fyrir þann atvinnurekstur, sem hér er til umr. Ég get því verið sammála í meginatriðum allflestu því, sem í frv. er.

En þó er í því einn póstur, sem ég hef hnotið um og tel að þyrfti að breyta. Það er í sambandi við 4. gr. frv., sem fjallar um skipan stjórnar fyrir stofnunina. Eins og frv. liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að í fimm manna stjórn eigi ríkið að skipa meiri hl. stjórnar, þ. e. þrjá. Þetta er rökstutt með því, að á fimm ára tímabili leggi ríkissjóður það miklar fjárfúlgur til þessa atvinnurekstrar, að það sé nauðsynlegt að „sósíalisera“ hann á þennan hátt. En þessi rökstuðningur kemur mér ákaflega spánskt fyrir sjónir. Ég vil spyrja þá menn, sem þessu halda fram, hvaða atvinnurekstur er það í okkar landi, sem ekki er á beinan eða óbeinan hátt styrktur af ríkissjóði? Ég vil benda á það t. d., að það liggur nú fyrir hv. Alþ. stjfrv. um breytingu á jarðræktarlögum, sem áætlað er, að kosti a. m. k. 17 millj. á þessu ári til viðbótar því, sem sá atvinnurekstur fær frá ríkinu. Ég segi þetta ekki til þess að vera neitt að átelja þetta. Ég tel þetta ósköp eðlilegt. En þarna er engin ástæða talin til að vera með neina sérstaka „sósíalíseringu“ á málum. Svo er víðar. Sjávarútvegurinn hefur um margra ára skeið fengið ekki kannske 100 millj., heldur hundruð millj. úr ríkissjóði til styrktar.

Og annað er í þessu, sem ég tel mjög óæskilegt, og það er það, sem ég óttast, að framleiðendur sjálfir verði ekki tiltækir til þess að koma inn í stofnunina, ef þetta verður látið standa óbreytt. Og hver verður þá tilgangurinn og hver verður þá árangurinn? Ég óttast það mjög, eins og fram hefur komið í umsögn Félags ísl. niðursuðuverksmiðja og maður hefur heyrt um getið, að með þessu fyrirkomulagi í stjórnun stofnunarinnar verði þeir alls ekki með í fyrirtækinu, og þá er enginn árangur. Ég legg þess vegna áherzlu á það, að á þessari gr. fáist breyting. Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að í meginatriðum stefnir frv. í rétta átt, en ég tel þetta það mikilvægt atriði, að ég tel, að þarna þurfi breyting á að verða. Ég vænti þess, að sú hv. n., sem málið fær til meðferðar, skoði það í ljósi þessa, sem ég hef nú sagt.