10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja, að af mínum sjónarhóli sýnast mér þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál, harla innihaldslitlar og hér sé verið að deila um keisarans skegg, þegar verið er að tala um stjórn væntanlegrar stofnunar, sem við erum að ræða um. Ég vil taka undir það með hv. 5. þm. Norðurl. e., að hér er verið að gera mjög merkilega tilraun. Það er verið að gera tilraun til þess að ná samvinnu á milli framleiðenda í atvinnuvegi, sem mikið hefur verið lagt til á undanförnum árum og áratugum, ekki aðeins af þeim, sem fyrirtækin eiga og reka, heldur m. a. af opinberu fé og opinberum og hálfopinberum sjóðum. Og það er anzi hlægilegt að hlusta m. a. á hv. 3. þm. Norðurl. v., þegar hann hamast eins og naut í flagi að Atvinnuleysistryggingasjóði, sem ég hygg, að hafi kannske lánað einna mest til þessarar starfsemi í þeirri von, að þessi atvinnuvegur gæti orðið til eflingar og uppbyggingar atvinnulífi hér á landi. Nú er sú staðreynd fyrir hendi, að þessi starfsemi hefur ekki tekizt sem skyldi. Það liggur líka fyrir frá hæstv. ráðh., að það hafi verið leitað til þessara aðila og þeir spurðir, hvort möguleiki væri á því, að þeir gætu lagt fram fé til þess að gera stórátak til eflingar markaða erlendis. Það liggur fyrir, að svo er ekki. Ég get ekki annað heldur en fallizt að miklu leyti á rök hæstv. ráðh. um það, að þegar verið er að taka úr sjóðum almennings tugi millj., sem nema á fimm árum á annað hundrað millj. kr., þá sé það eðlilegt, að fulltrúar ríkisstj. vilji hafa þar hönd í bagga. Hitt er annað mál, að mér finnst, eins og ég segi, að þegar um þetta er rætt, þá sé verið að deila um keisarans skegg. Auðvitað fer þetta mikið eftir þeim þrem mönnum, sem verða skipaðir af hinu opinbera. Hins vegar er tillögugerð að mér skilst frá fulltrúaráðum þeirra, sem þetta eiga, og þeir geta komið sínum aths. á framfæri hverju sinni við þessa skipuðu stjórn, þannig að það á ekkert að fara á milli mála hverju sinni, að till. þeirra og skoðanir geta komið fram.

Í sjálfu sér er kannske ástæðulaust að vera að ræða mjög efnislega þetta frv. hér við 1. umr. Auðvitað þarf það að komast til n., ef það á að ná fram að ganga, vegna þess hve liðið er á þingið, en ég vil aðeins undirstrika þær skoðanir, sem komu fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., að það er verið að gera hér merkilega tilraun til þess að lyfta þýðingarmiklum atvinnuvegi okkar þjóðar úr þeirri lægð, sem hann óneitanlega hefur aldrei komizt upp úr á undanförnum árum þrátt fyrir góðan vilja bæði þeirra, sem reka fyrirtækin, opinberra aðila og annarra, sem þar hafa lagt hönd á plóginn.