31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

149. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að taka undir orð síðasta ræðumanns, hvað snertir ánægju með endurflutning á þessu frv. um Íþróttakennaraskóla Íslands. Varðandi umr. um staðsetningu skólans er það í sjálfu sér engin goðgá, þótt skólinn þyrfti skólans vegna að vera staðsettur í Reykjavík; það er í sjálfu sér engin höfuðsynd. En ég get tekið undir það, að það væri mjög æskilegt, að skólinn gæti starfað áfram að Laugarvatni. þar sem að mörgu leyti er mjög ákjósanleg aðstaða fyrir slíka kennslu og fyrir slíka starfsemi. En það, sem skiptir máli, þegar rætt er um staðsetningu skólans, er náttúrlega einfaldlega það, hvort hægt er að reka skólann með eðlilegum hætti á einum eða öðrum stað, þ. e. ef í ljós kemur, að ekki er hægt að reka íþróttakennaraskóla að Laugarvatni, vegna þess að ekki fæst þangað fólk og aðstaða er ekki fullnægjandi; að sjálfsögðu verður það að ráða úrslitum.

Nú kemur það fram í fskj. með þessu frv., að þeir aðilar, sem virðast hafa fengið þetta frv. til umsagnar, hafa gert ýmsar aths. um einstök ákvæði þessa frv., og þar sýnist mér vega þyngst aths. þeirra varðandi staðsetninguna að Laugarvatni. Ráðh. hefur þegar lýst þeirri skoðun sinni, að hann telji þetta ekki vera þess eðlis, að hægt sé að taka tillit til þess, og er hægt að virða það sjónarmið, og mér skilst, að hann leggi frv. fram að þeirri ákvörðun tekinni, að staðsetning skólans skuli áfram vera að Laugarvatni og þess vegna þurfi ekki að bera þetta mál frekar undir þessa eða aðra aðila, eins og farið er fram á í þessum umsögnum nefndra aðila, þ. e. Íþróttakennarafélags Íslands og Samtaka ísl. kennaranema. Með leyfi hæstv. forseta segir m. a. í fskj. eða umsögn Íþróttakennarafélagsins:

„Stjórnin dregur hins vegar mjög í efa, að þær breytingar á skólanum, er frumvarpið gerir ráð fyrir, séu nægjanlegar til að koma menntun íþróttakennara í viðunandi horf og getur því ekki lýst yfir stuðningi sínum við frumvarpið, heldur telur nauðsynlegt að ítarleg endurskoðun á því fari fram hið bráðasta og áður en það verður tekið til umr. á ný á Alþingi. Þessu til stuðnings leyfir stjórnin sér að benda á, að sérstaklega þurfi að endurskoða þær greinar frumvarpsins er fjalla um hlutverk og stjórn skólans, námsgreinar, inntökuskilyrði og staðsetningu skólans að Laugarvatni.“

Það má vel vera, að það sé misskilningur hjá mér, en ég skil það svo, að þessi endurskoðun, sem þarna er farið fram á, hafi ekki farið fram, þ. e. að þetta félag hafi ekki fengið aðstöðu til að láta í ljósi frekara álit sitt á þessu frv., síðan þessi umsögn var send, en hún er dags. 21. okt. 1971. En af þessum upplestri mínum má sjá, að félagið gerir ýmsar aðrar aths. en þær, sem snerta staðsetninguna, þ. e. svo sem um stjórn skólans, námsgreinar, inntökuskilyrði o. s. frv. Þetta álit kemur enn fremur fram í umsögn Samtaka ísl. kennaranema, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í umsögninni kemur fram, að fjölmargt má betur fara og betur ræða. Má þar nefna atriði eins og inntökuskilyrði, námsgreinar og próf, stjórn skólans og starfsmenn, auk staðsetningar skólans að Laugarvatni.“

Síðan fylgja nokkuð ítarlegar brtt. þessari umsögn. Nú skal ég engan dóm leggja á það, hvort það sé hægt að taka þessar aths. til greina. Ég skal játa það, að ég hef ekki rannsakað þetta mál niður í kjölinn. Mér er hins vegar ljóst, að Íþróttakennaraskólinn hefur verið hálfgerð hornreka. Öll aðstaða hans hefur verið mjög takmörkuð, og af þeim sökum hafa þeir nemendur, sem útskrifazt hafa úr skólanum, kannske ekki verið nægilega vel menntaðir til þeirra starfa, sem til stendur, að þeir taki að sér. Þess vegna fagna ég því, að þetta frv. kemur nú fram og getur orðið til þess að bæta íþróttakennslu og menntun íþróttakennara, en það má ekki vera að mínu viti gert á þann hátt, að það sé í fullri andstöðu við það fólk, sem nú þegar hefur hlotið þessa menntun, eins og virðist koma fram með þeim umsögnum, sem með þessu frv. fylgja. Ég veit þess vegna satt að segja ekki, hvort ég á að spyrja ráðh. um það, hvort hann hyggist leita umsagnar þessara aðila eða taka tillit til þeirra að einhverju leyti, hvort hann líti svo á, að það verði gert í meðförum Alþ., eða hvort hann hafi tekið þá ákvörðun að mæla með, að þetta frv. sé samþ., eins og það liggur fyrir nú þrátt fyrir þessar aths. En ég vil sem sé ítreka það álit mitt, að ég tel það mjög til bóta og fagna því, að þetta frv. er komið fram og vænti þess, að það verði samþ. á þessu þingi lög um Íþróttakennaraskóla Íslands á þann veg, að allir geti vel við þau unað.