16.05.1972
Neðri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

149. mál, Íþróttakennaraskóli Íslands

Frsm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Það hefur orðið ágreiningur í menntmn. deildanna um eitt atriði varðandi Íþróttakennaraskóla Íslands, og mér þykir því hlýða að greina frá því í nokkrum orðum, í hverju þessi skoðanamunur liggur. Þessi skoðanamunur kemur fram í 2. gr., þar sem segir svo:

„Einnig geta nemendur að loknu prófi, ef þeir æskja þess“, þ. e. nemendur í Íþróttakennaraskólanum, „bætt við sig námi í Kennaraháskóla Íslands, sbr. 1. tl. 1. gr. laga nr. 38 16. apríl 1971, um Kennaraháskóla Íslands, og lokið þaðan kennaraprófi með íþróttakennslu að sérgrein.“ Síðan hefur bætzt við í Ed.: „enda fullnægi þeir inntökuskilyrðum Kennaraháskólans að öðru leyti.“

Eins og þm. munu e. t. v. vita, þá mun þorri nemenda í Íþróttakennaraskóla Íslands vera án stúdentsprófs. Þess vegna kom menntmn. Nd. það til hugar, þar sem átti að reyna að tengja þessa skóla saman, að hafa ekki þetta ákvæði með, að þessir nemendur fullnægðu inntökuskilyrðum Kennaraháskólans. Það merkir í sjálfu sér stúdentspróf, þannig að einungis þeir nemendur, sem hafa stúdentspróf í Íþróttakennaraskólanum eða sambærilegt próf, geta vænzt þess að halda áfram í Kennaraháskólanum. M. ö. o., þetta ákvæði, sem kemur inn frá Ed., felur í sér, að líklega allur þorri nemenda í Íþróttakennaraskólanum eru útilokaðir frá því að halda áfram í Kennaraháskólanum. Ég vil ekki fella dóm á þetta atriði. Þetta eru bara ákveðin viðhorf, sem birtast í þessu. Hér kemur fram viðhorf menntmn. Ed., að þeir einir nemendur, sem hafa stúdentspróf eða sambærilegt próf, eigi erindi í Kennaraháskólann. Hins vegar er sú stefna að vinna á að meta stúdentsprófið ekki jafnmikils, þegar um inntöku í skóla er að ræða, og má ég minna þar á háskólalögin. Þar er verið að opna háskólann fyrir nemendum, sem ekki hafa stúdentspróf.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég tel, að hver og einn þm. geri þetta upp við sig, og menntmn. Nd. hefur ekki séð ástæðu til þess að fara að gefa út sérstakt álit varðandi þessa viðbót, sem kemur frá menntmn. Ed.