01.11.1971
Efri deild: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

39. mál, stofnun og slit hjúskapar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fyrir d., var lagt fram á s. l. vori og þá einnig fyrir þessa hv. d. Frv. kom þá fram mjög skömmu fyrir þingslit, og gafst því ekki tími til, að það gæti fengið venjulega athugun í n., þótt því væri formlega vísað til hv. allshn., og þykir því þegar af þeirri ástæðu rétt, að frv. verði lagt fyrir d., svo að það megi hljóta þinglega meðferð. Fyrirrennari minn sem dómsmrh., sem einnig á nú sæti í þessari hv. d., hv. 6. þm. Reykv., fylgdi frv. úr hlaði í apríl s. l. með ítarlegri framsöguræðu, en sá hv. þm. hafði, eins og fram kemur í aths. við það frv., starfað að undirbúningi lagafrv., einnig áður en það kom í hennar hlut að leggja það fram hér sem dómsmrh.

Frv., sem nú er lagt fram óbreytt að efni til, fylgir einnig umfangsmikil grg., þar sem rakin er þróun sifjalöggjafar hér á landi og á Norðurlöndum yfirleitt, svo og að nokkru leyti í öðrum löndum. Enn fremur er lýst aðdraganda þeirrar endurskoðunar, sem stofnað var til eftir ályktun Norðurlandaráðs 1955, á löggjöfinni um stofnun og slit hjúskapar og löggjöfinni um réttindi og skyldur hjóna. Leiddi sú endurskoðun til þess, að samin voru lagafrv. í löndunum, sem voru í höfuðatriðum shlj., þótt ekki næðist nú frekar en fyrir 50 árum alger samstaða og samsvörun. Það kom hins vegar fram einkum í Svíþjóð, að þær breytingar, sem áformað var að gera á hinni 50 ára gömlu sifjalöggjöf, væru of veigalitlar. Frv. voru því lögfest í Danmörku og Noregi, en aðeins þættir úr till. sænsku sifjalaganefndarinnar hafa verið lögfestir, og 1969 var skipuð ný sifjalaganefnd í Svíþjóð, sem fékk nýtt erindisbréf um stöðu sína, þar sem tekið skyldi tillit til breyttra félagslegra viðhorfa. Einnig hefur verið skipuð ný sifjalaganefnd í Danmörku að nokkru leyti vegna samsvarandi l. þar í landi. Fyrirhugað hefur verið, að hin löndin þrjú fylgist með störfum þessara nefnda. Eins og fram kom á fundi Norðurlandaráðs á s. l. vetri, eru allskiptar skoðanir um hin nýju viðhorf í erindisbréfi sænsku nefndarinnar og erfitt að segja fyrir um, til hvers störf hinna nýju nefnda leiði. Það getur því verið athugunarefni fyrir hv. Alþ., sem eflaust mun verða til athugunar við nefndarmeðferð, hvort e. t. v. væri réttara að fara sér hægt um afgreiðslu þessa lagafrv. og bíða þess að viðhorf skýrist til möguleika á framhaldi samræmdrar löggjafar á þessu sviði á Norðurlöndum. Og ég vil taka það fram fyrir mitt leyti, að ég mun hér ekkert á eftir ýta.

Eins og ég hef þegar sagt, var í framsögu á s. l. vetri gerð grein fyrir einstökum atriðum lagafrv., sem einnig var þá nokkuð rakið í fjölmiðlum. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til að rekja nú að neinu ráði einstök efnisatriði þessa frv. Segja má, að höfuðþættir breyt., sem þetta lagafrv. ráðgerir frá núgildandi l., séu niðurfelling löggjafar um festar, nokkrar breytingar á hjónavígsluskilyrðum, þ. á m. lækkun aldursmarka karla í 18 ár og breyttar lagareglur til rýmkunar á nokkrum hjúskapartálmum vegna sjúkdóma, skyldleika og tengsla. Lagt er til, að niður falli reglur um lýsingu, sem ekki hafa nú verið tíðkaðar í reynd hér á landi um langa hríð, að telja má. Þá eru ráðgerðar nokkrar breytingar á lagareglum um hjónaskilnaði, þ. e. um skilnaðarskilyrði, aðdraganda, veitingu skilnaðar og um réttaráhrif skilnaðar. Þá eru formaðar reglur um umgengnisrétt foreldris við barn, sem hitt foreldrið fær forráð yfir fyrir skilnaðinn. Eru flest þau atriði, sem breytingum sæta samkvæmt frv., sameiginleg með till. allra norrænu sifjalaganefndanna, sem eins og áður hefur verið sagt — hafa nokkrar verið lögfestar. Þá má líka nefna það, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, ef að l. verður, að taka algerlega fyrir þann óvana, sem hér hefur átt sér stað og látinn hefur verið viðgangast lengi, að uppgjafaprestar framkvæmdu hjónavígslur. Ég held, að í þessu frv. séu margar eðlilegar og sjálfsagðar breytingar, en hins vegar eru svo aðrar, sem geta verið fullkomið álitamál.

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál af ástæðum, sem ég hef áður greint, en vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.