01.11.1971
Efri deild: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

39. mál, stofnun og slit hjúskapar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það liggur í hlutarins eðli, að ég hef síður en svo á móti því, að þetta frv. verði afgr. á þessu þingi. Til þess er það vitaskuld lagt hér fram, að á því fari fram athugun og afgreiðsla, ef mönnum sýnist svo. Ég taldi hins vegar rétt að benda hv. þm. á það, að þessi mál eru í deiglunni annars staðar á Norðurlöndum, og þar eru nefndir, sem eru að athuga þessi mál, og ég tel eðlilegt, að þm., sem um þetta fjalla sérstaklega, kynni sér það og meti það, hvort ástæða er til þess að bíða eftir því, að einhverjar niðurstöður fáist þaðan. En eins og ég gat líka um í máli mínu áðan, þá tel ég það vafalaust, að í þessu frv. séu ýmsar þær breytingar, sem við munum telja sjálfsagðar. Aftur á móti er því ekki að leyna, eins og ég líka drap á þá, að það eru um ýmis atriði í hjúskaparlögunum uppi mismunandi skoðanir, kannske í sumum tilfellum skoðanir, sem okkur sýnast ganga nokkuð langt, en eigi að síður er að sjálfsögðu rétt að kynna sér. En þetta mál er þess háttar, að það er allveigamikið og flókið, og þess vegna legg ég til, að hér verði ekki farið að ræða um það í einstökum atriðum, heldur verður bezt að þessu máli unnið á þann veg, að sú hv. n., sem fær það til meðferðar, setji sig vel inn í það og kynni sér það.

Ég vildi aðeins taka þetta fram, til þess að orð mín yrðu ekki misskilin á þann veg, að ég væri að draga úr því, að frv. fengi afgreiðslu á þessu þingi. Sjónarmið mitt var aðeins að benda þm. á það, að málin eru enn í athugun a. m. k. sums staðar á Norðurlöndum og — að ég held raunar — alls staðar.