05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

39. mál, stofnun og slit hjúskapar

Auður Auðuns:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður sagði: Konurnar eru skilningsríkar, og hann átti þá þar við umsögn frá Kvenréttindafélaginu, en ég verð þá að hryggja hann með því, að hér kemur líklega ein, sem er ekki sérlega skilningsrík, því að ég er andvíg þessari brtt. hans. Ég skal ekki tala um það mál af neinni tilfinningasemi. Það er ofur einfaldlega það, sem reyndar kom fram hjá frsm. n., að ég tel það óeðlilegt, að embættismenn, sem hafa látið af embætti, séu að vinna embættisstörf, og ég tel, að þetta eigi við presta eins og aðra. Hitt er annað, að þetta hefur tíðkazt hér nokkuð, að uppgjafaprestar framkvæmdu hjónavígslur, og svo mun hafa verið áður á Norðurlöndunum. Ég held, að þetta hafi alls staðar verið lagt niður. Ég veit ekki til, að það gegni einhverju sérstöku máli í þeim efnum í Svíþjóð. En ég vil benda á það, sem segir einfaldlega í grg. með frv. og kemur þar skýrt fram, þ. e. rökin fyrir þessu um 16. gr. Það er hér á bls. 25, og eru í aths. taldar fram ástæður fyrir því, að n. leggur til, að þessi siður verði lagður niður. Segir þar, að nú sé auk þess ekki neinn hörgull á hjónavígslumönnum hér almennt, og það getum við öll verið sammála um, að það geti verið hætta á, að embættisbókfærsla verði ekki jafntryggileg og ella, ef uppgjafaprestar framkvæmdu vígslurnar og um embættisábyrgð þeirra geti einnig ríkt nokkur óvissa.

Síðan er í aths. vikið að hæstaréttardóminum og það rakið, að Hæstiréttur hafi komizt þarna 1968 að þeirri niðurstöðu, að það sé venjuhelguð réttarregla, að menn, sem prestvígðir hafi verið í þjóðkirkjunni, þótt ekki séu þjónandi sóknarprestar, geti löglega gefið saman hjónaefni. En tveir dómendur dæmdu þó málið á öðrum grundvelli. Hæstiréttur hafði viðað að sér upplýsingum. Það voru nokkrar — ekki ýkjamargar hjónavígslur framkvæmdar af uppgjafaprestum miðað við heildartölu hjónavígslna. En ég verð að segja, að ég sé ekki, hvernig Hæstiréttur hefði getað úrskurðað ógilt viðkomandi hjónaband, sem þetta hæstaréttarmál var rekið út af, því að það hefði auðvitað skapazt töluverð ringulreið, ef tugir — eða við skulum segja e. t. v. hundruð — hjónabanda hefðu þarna með einum dómi verið lýst ógild.

Ég skal svo undirstrika það, sem kemur hér fram í aths. við frv., að ég ætla ekki að gera þetta að neinu tilfinningamáli. Ég efast um, að fólki sé það alveg eins mikið tilfinningamál og flm. brtt. vill láta í veðri vaka, en mér finnst einfaldlega, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að embættismenn, sem hafa látið af embætti, eigi ekki að framkvæma embættisverk. Ég vil líka leggja áherzlu á það, sem fram kemur í aths. við frv., að það er ákaflega óviðkunnanlegt, að það liggi ekki ljóst fyrir í l., hvað eigi að gilda í þessum efnum, og ekki sé þar bara byggt á hæstaréttardómi um, að það sé venjuhelguð réttarregla, að uppgjafaprestarnir framkvæmi vígslur.

Ég vil þá aðeins víkja að því, sem flm. brtt. sagði — ég skal reyndar reyna að stytta mál mitt — um það, að verið sé að taka rétt af uppgjafaprestum. Ég held, að það sé tæpast hægt að orða það þannig. Eigum við ekki heldur að segja, að það hafi verið umborið sem venja, að þeir framkvæmdu vígslur, en ekki, að það sé tekinn af þeim einhver réttur, og þegar vitnað er í fulltrúana, sem framkvæmi vígsluathafnir á ábyrgð og í umboði yfirmanna sinna, þá er bara sagt, að þetta eigi við um embættismenn. Ég held, að það sé ekki neinn óskaplegur vandi að framkvæma hjónavígslur. Það er hægt að lesa sér til um það mestallt af bók, og það er ekki verið að vantreysta neinum til þess, þó að auðvitað geti prestar orðið elliærir eins og við hin. Það er ekkert vantraust á þeim til að framkvæma athöfnina, heldur bara það, að þetta er ekki eðlilegt. Það gildir um þetta eins og allt, sem orðið er að venju, að fyrst í stað þykir fólki þetta kannske ekki rétt, en ég held, að þegar frá líður, verði allir á eitt sáttir um, að þetta sé ofur eðlilegt, þ. e. að maður haldi sig að þeim reglum, sem gilda um embættismenn yfirleitt.