19.10.1971
Neðri deild: 3. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

3. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Viðvíkjandi þessu frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr. og hæstv. sjútvrh. hefur fylgt úr hlaði, þá get ég fyrst komið að því, sem ég er honum sammála um. Ég er honum alveg sammála í því, að fiskverð hlaut að geta hækkað og átti að hækka, enda lá það ljóst fyrir vegna hagstæðs afurðaverðs, að fiskverð mundi hækka frá því, sem það var áður, án þess að til þessara hluta hefði komið. Hitt er svo annað mál, að það mátti einnig koma til móts við sjómenn á annan hátt en þann, sem frv. gerir ráð fyrir, og þá vil ég fyrst og fremst nefna það, að það hefði verið ólíkt hyggilegra hjá hæstv. ríkisstj. að koma til móts við sjómenn með því að veita þeim undanþágu frá tekjuskatti í einhverri mynd fram yfir þau hlunnindi, sem sú stétt hefur núna og fékk nokkra breytingu á á síðasta Alþ. Ég hygg, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. hafi með þessari aðferð verið að ýta undir verðbólguna, sem þeir skömmuðu mest fyrrv. ríkisstj. fyrir að hafa ekki getað haldið í skefjum. En ég held, að aðgerðir hæstv. núv. ríkisstj. hafi allar verið með þeim hætti að halda ekki í við verðbólguna, heldur hreint og beint að auka verðbólguna, eins og raun ber vitni. Við skulum líka líta á það, hvað sjómenn fá í aðra hönd með þessum hækkunum. Hverjir þeirra eru það, sem fá mest af þessum hækkunum? Það eru auðvitað fyrst og fremst sjómennirnir á þeim skipum, sem mest afla. Fólkið á skipunum, sem minna afla — kannske ekki fyrir kauptryggingu, fær enga hækkun við þessa breytingu,sá hluti sjómannastéttarinnar fær enga hækkun. En þeir, sem yfirleitt afla vel og fá fiskverðshækkunina að öllu leyti, fá auðvitað mesta hækkunina. Og hverjir njóta svo þessarar hækkunar aðrir en sjómennirnir — yfirmennirnir — á þessum skipum og aðrir, sem hafa fyrir nokkuð háar tekjur? Það eru fyrst og fremst ríkið og sveitarfélögin, sem taka um 53% af þessu fólki aftur. En hvað gerir það svo aftur að öðru leyti? Það ýtir auðvitað undir kröfur hinna, sem hafa orðið á undanförnum árum að sætta sig við kauptrygginguna, um að fá kauptrygginguna hækkaða verulega í næstu kjarasamningum. Þetta hlýtur að liggja ákaflega ljóst fyrir öllum. Og ég veit, að það liggur líka mjög ljóst fyrir hæstv. sjútvrh.

Það hefur verið mikið rætt um það gjald, sem ákveðið var með l. frá 31. des. 1968, að fiskkaupandi greiði til útgerðarinnar — 17% ofan á fiskverðið, sem ekki kæmi til skipta. Hv. stjórnarandstæðingar, sem þá voru, gerðu sér mikinn mat úr þessu gjaldi, og alltaf er hægur vandi að koma af stað leiðindum og illindum í þjóðfélaginu. En við skulum líta á aðstæðurnar, sem voru fyrir hendi eftir þau miklu áföll, sem sjávarútvegurinn og útflutningsatvinnuvegir okkar urðu fyrir á árunum 1967 og 1968. Hagur útgerðarinnar var með þeim hætti, að það varð að gera þessar aðgerðir í efnahagsmálum til þess að bæta rekstraraðstöðu útvegsins, svo að hann gæti starfað með eðlilegum hætti og aftur yrði vakin sú trú í landi okkar, að það væri nauðsynlegt og jafnvel ábatasamt að byggja og reka fiskiskip fyrir þjóðarbúið.

Með efnahagsaðgerðunum 1968 varð gerbreyting á rekstraraðstöðu útvegsins, og það var aftur stofnað til þess, að þeir menn, sem fengjust við þennan atvinnuveg, tryðu á framtíð hans, og aftur hófust í ríkum mæli skipabyggingar í landinu og endurnýjun fiskiskipastólsins. Það getur hver maður spurt sjálfan sig að því og svarað því, að þegar gengisbreytingin var gerð 1968, gat það ekki gengið, ef við ætluðum að rétta við starfsemi útflutningsatvinnuveganna, að ein stétt nyti gengisbreytingarinnar með því að fá þá kauphækkun, sem gengisbreytingin leiddi af sér fyrir útfluttar sjávarafurðir, því að þá hefðu aðrar stéttir komið á eftir og heimtað einnig þá þegar sinn hlut af kökunni. Það hefði auðvitað þýtt það, að innan skamms tíma hefðum við staðið alveg í sömu sporum eftir þessar efnahagsaðgerðir, útflutningsatvinnuvegirnir hefðu verið komnir í vanda og hin góðu áhrif gengisbreytingarinnar orðið að engu á skömmum tíma. Þessu bar ríkisstj. auðvitað ábyrgð á og þeir flokkar, sem að henni stóðu. Hitt skal svo aftur sagt, að sumir stjórnarandstæðingar vildu nota sér óánægju sjómanna yfir, að gengið væri þannig á rétt þeirra, eins og þeir sögðu, og ýfðu upp sár og leiðindi í sambandi við þessi mál. En ég staðhæfi það, þó að þessi tími sé liðinn, að þessar ráðstafanir voru nauðsynlegar, og það var jafnframt skylda ábyrgrar stjórnar í landinu að gera þessar ráðstafanir, hvort sem henni var það ljúft eða leitt. Og auðvitað er það alltaf leitt, þegar þarf að grípa til þess að skerða kjör einhverrar ákveðinnar stéttar, en það getur verið nauðsynlegt að gera það vegna heildarinnar, ekki hefði verið hægt að ráða við þetta í þessu tilfelli með öðru móti. En hvað skeður svo síðar? Eftir að þessi 17% eru lögð á, staða útgerðarinnar verður aftur sterk og útgerð er á þessu tímabili rekin með góðum árangri, verðum við samhliða fyrir því mikla láni, að verðlag á útflutningsafurðum okkar fer stígandi yfirleitt í öllum greinum útflutningsafurða, þannig að við gátum þegar mjög fljótlega veitt sjómönnum nokkrar kjarabætur bæði í nokkuð hækkuðu fiskverði og svo síðar í því að semja um að lækka þessi 17% niður í 11%. Á það féllust sjómannasamtökin og Alþ. staðfesti þetta á s. l. vetri.

Í ársbyrjun 1969 var samið að nýju og þá samið um, að sjómenn fengju verulegar kjarabætur í mynd lífeyrissjóðs og ókeypis fæði að verulegu leyti. Þegar þetta hafði verið gert, gengu útvegsmenn auðvitað út frá því, að hér væri um endanlega breytingu að ræða, hvað snerti gerð þessara samninga. Hitt er svo annað mál, að það hefði getað orðið samningsatriði að nýju, því að nú eru allir samningar lausir, hvort það hefði átt að lækka þetta gjald enn úr 11% og færa það eitthvað niður, en þá hleypur ríkisstj. til, um leið og hún er mynduð, með þessum makalausa málefnasamningi sínum, því að með málefnasamningnum bauð hún allri þjóðinni upp í dans, en þjóðin hefur ekki dansað síðan, en ráðh. hafa dansað síðan. En það hafa ekki komið neinar frekari skýringar á fjölmörgum greinum þess, hvernig á að uppfylla þennan mikla óskalista. Það, sem ríkisstj. átti auðvitað ekki að gera í þessu tilfelli, var að hlaupa til og gefa út brbl. Hún átti fyrst og fremst að leita eftir samstöðu og áliti hagsmunasamtakanna í þessu máli, L. Í. Ú. og sjómannasamtakanna. Hún er með þessum aðgerðum að koma enn fleiri og stærri upphæðum inn í verðlagið og ýta undir verðbólguna. Þetta átti auðvitað allt að bíða. En það má kannske segja, að ríkisstj. hefði haft það sér til afsökunar og varnar í þessu máli, ef hún hefði samið um vinnufrið við stéttasamtökin í landinu og látið hér við sitja. Það liggur ekkert fyrir enn þá þrátt fyrir þessar aðgerðir. Vitaskuld hefðu sjómannaleiðtogarnir borið fram sínar kröfur. En þegar ríkisvaldið gengur á þennan hátt á undan, þá finna menn upp á því að bera fram kannske nýjar kröfur og stærri kröfur en við verður ráðið. Ég tel, að þeir menn séu ekki sjómönnum verri, sem vilja halda rekstraraðstöðu útgerðarinnar sterkri og tryggja áframhaldandi rekstur hennar, en hinir, sem vilja ýta fyrst og fremst undir það að bjóða mönnum miklar tekjur, bjóða mönnum að hafa mikið fé á milli handanna, sem svo aftur er tekið af þessu sama fólki í auknum sköttum og með aukinni dýrtíð.

Hæstv. sjútvrh. gerði nokkuð að umræðuefni Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Ég skal ekki á þessu stigi málsins vera langorður um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, en við getum auðvitað talað mikið og langt mál um hann. En ég vil aðeins minna á, að þegar frv. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins var til umr. á Alþ., þá sagði hæstv. núv. forsrh. um Verðjöfnunarsjóðinn, að að baki hugmyndarinnar um Verðjöfnunarsjóð lægi heilbrigð hugsun að hans dómi. Það væri skynsamleg regla að leggja til hliðar í góðum árum og geyma til hinna lakari. Þetta sagði hæstv. forsrh., þegar hann var í stjórnarandstöðu, um frv. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, þegar það kom til 1. umr. í Ed. Alþ. og hæstv. þáv. sjútvrh. hafði fylgt því úr hlaði.

Ég er sammála þessum orðum hæstv. forsrh., en mér finnst, að hann og ríkisstj. hans hafi ekki munað eftir þessum orðum hans í sambandi við Verðjöfnunarsjóðinn, þegar hún ákvað að gefa út þessi brbl. og skerða framlög til sjóðsins um 310 millj. kr. á ári, sem auðvitað gerir sjóðinn óhæfari til að gegna sínu hlutverki. Það er alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh., að það verður að endurskoða ákvæði um greiðslur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og við verðum auðvitað að leggja til grundvallar rekstrarkostnað sjávarútvegsins á hverjum tíma. Við megum ekki taka það mikið í Verðjöfnunarsjóðinn, að hann skerði eðlilega rekstrarafkomu allra greina sjávarútvegsins. Þar er ég honum algerlega sammála.

Ég ætla ekki á þessu stigi að flytja miklu lengra mál, en það gefst aftur síðar tækifæri á seinna stigi þessa máls hér í þessari hv. þd., þegar sjútvn. hefur haft þetta frv. til meðferðar. Ég vil benda á það, að stjórn L. Í. Ú. hefur lýst sig andvíga þeirri fyrirætlun ríkisstj. að afnema þessa kostnaðarhlutdeild, sem fiskkaupendur greiða útvegsmönnum og ekki hefur komið til hlutaskipta. Um það voru eins og flest önnur mál eitthvað skiptar skoðanir. Sjútvrh. núv. er snjall maður í ræðuflutningi og hefur ákaflega mikla, og góða eiginleika til að fá menn til þess að fallast á sitt mál, þegar hann er á þeim buxunum, og það var hann sannarlega, þegar þetta mál var á döfinni, því að hann talaði við nokkra útvegsmenn á svæðafundum útvegsmanna. Hann ætlaði sér nú að fara um landið allt, en hefur ekki lokið því ferðalagi enn þá, en honum tókst að sannfæra útvegsmenn um það, að með því að hækka fiskverðið svo verulega með þessum hætti, eins og hann og ég hafa lýst, væri hér um stórfellda kjarabót að ræða fyrir sjómenn og enga skerðingu á rekstraraðstöðu útgerðarinnar. En ég er hræddur um það, að sumir þeirra, sem þá létu sannfærast, verði orðnir sannfærðir á annan hátt, þegar liðið er á þetta haust, því að við auðvitað sjáum það og skiljum, að eftir því sem kaup og verðlag hækkar, hækka allir kostnaðarliðir útvegsins að sama skapi og rekstraraðstaða útgerðarinnar versnar. Þetta liggur mjög augljóslega fyrir. Og ég efast ekki um, að jafnglöggur og greindur maður og hæstv. sjútvrh. er í hjarta sínu mér algerlega sammála, þó að það henti honum ekki að viðurkenna það enn, af því að hann stóð fyrir þessum darradansi fyrir kosningarnar út af þessu máli. Og ég held líka, að hann sé mér sammála um það, að það hefði verið ólíkt hyggilegri leið að láta fiskverðið hækka um það, sem hagstæðari sala á erlendum markaði leyfði, þar ber ekkert á milli hjá okkur.

En hitt hefði verið ólíkt hyggilegra að grípa til þess að veita sjómannastéttinni meiri fríðindi í sambandi við álagningu tekjuskatts. Það er varhugavert og hættulegt að hafa áhrif á álagningu útsvara, hvað það snertir, vegna þess að það kemur svo ójafnt niður á sveitarfélögunum. Það kemur hart niður á mörgum, litlum sveitarfélögum, sem eru með tiltölulega fáa sjómenn, að hækka þessi fríðindi, því að það kippir grundvelli undan rekstri margra sjávarplássa, en hitt hefði verið auðvelt verk fyrir ríkisstj. og ríkið að auka skattfríðindi sjómanna án þess að ýta neitt undir það, að aðrar stéttir kæmu á eftir. Ég fyrir mitt leyti tel það ekki vera neitt áhorfsmál, að þeir, sem eru fjarri heimilum sínum vikum og mánuðum saman og geta ekkert gert heima hjá sér vegna starfa sinna, eigi að njóta þessara fríðinda umfram allar aðrar stéttir og þau fríðindi hefðu ekki farið inn í verðlagið, það hefði verið ólíkt skynsamlegra. Það hefðu ekki verið neinar „hundakúnstir“ að gera það, eins og þegar ríkisstj. ákvað að afnema söluskatt af smjöri og lækkaði svo niðurgreiðslur á smjörinu um það sama. Það kallar maður „hundakúnstir“. En þetta hefði verið sú leið, sem hefði verið skynsamlegt að fara, og þetta hefði vafalaust orðið niðurstaðan og orðið, samkomulag um hana, ef ríkisstj. hefði ekki tekið ákvörðunina, áður en hún fór að hugsa, eins og hún hefur gert í svo mörgu öðru. Ef hún hefði rætt þessi mál við samtökin. (Gripið fram í.) Ég ætla nú að benda þessum hv. áheyranda á það, að það er alveg bannað að taka hér fram í og þá menn á bara að láta út af þingpöllum, sem geta ekki hlustað á ræður þm. Ég ætlaði að segja það, að það hefði verið ólíkt hyggilegra að fara þessa leið að veita þessi skattfríðindi. Þá hefði sjútvrh. staðið ólíkt betur að vígi, ef hann hefði leitað samstarfs við bæði útvegsmenn og sjómannasamtökin í þessu máli, en með því að taka þessa ákvörðun fyrir fram og flýta sér svo að gefa út þessi brbl.

Eins og ég sagði áðan, ætla ég að geyma mér frekari umr. í þessu máli, þar til sjútvn. hefur skilað áliti um frv.