26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

3. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það lá ekki fyrir hér á Alþ. — og reyndar þótt víðar væri leitað — sú staðreynd, að við undirritun nýrra kjarasamninga milli útvegsmanna og sjómanna 31. des. s. l. var undirrituð yfirlýsing, sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Samninganefnd L. Í. Ú. hefur fallizt á að draga til baka till. sína um, að frádráttur frá brúttósöluverði afla, sem seldur er erlendis, verði aukinn í 25%, þegar seld er síld, og í 30%, þegar seldur er ísfiskur, gegn því, að ekki verði felld niður ákvæði um 16% framlag í Stofnfjársjóð. Samninganefnd Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands er kunnugt um þetta skilyrði samninganefndar L. Í. Ú. fyrir samþykkt á samkomulaginu um nýja kjarasamninga. Sjútvrh. er einnig kunnugt um þessi skilyrði.“

Undir þetta rituðu fulltrúar samninganefndar þessara tveggja sambanda stéttarfélaga ásamt formanni L. Í. Ú. og hæstv. sjútvrh., sem tók þátt í síðustu átökum þessara samninga. Þar sem hér er um bæði beint og óbeint samkomulag að ræða, þá hef ég ákveðið að draga þessa brtt. mína til baka, enda óskað eftir því af sumum þeim aðilum, sem undir þetta samkomulag skrifuðu. Brtt. mín á þskj. 228 er því dregin til baka.