14.04.1972
Neðri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

251. mál, getraunir

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ætíð ber það við svona tvisvar til þrisvar á ári, að upp skýtur í heimsfréttunum fregnum af því, að fólk í nálægum löndum hafi með skjótum hætti komizt í tölu milljónara og þá gjarnan þeir, sem ólíklegastir mættu þykja til þess að verða auðkýfingar. Þessar fregnir herma frá því, að strætisvagnastjóri í Birmingham eða ellilífeyrisþegi í Örebro í Svíþjóð eða einhver hreppakerling á Írlandi hafi unnið í knattspyrnugetraunum upphæðir, sem nema jafnvel 1–2 millj. sterlingspunda, sem sé hundruðum millj. ísl. kr. Sú gífurlega fjáröflun, sem býr að baki þessum ævintýralegu happdrættisvinningum, er til komin með þeim hætti, að fjöldi fólks um allar jarðir greiðir tiltölulega litlar fjárhæðir fyrir réttinn til að geta sér til á þar til gerðum eyðublöðum um úrslit íþróttaleikja, fyrst og fremst knattspyrnuleikja.

Þessi starfsemi hófst í Bretlandi sem einkaframtak og er það enn. Það eru mjög fjársterk einkafyrirtæki, sem að þessu standa. Fyrir alllöngu kom upp sú hugmynd hjá ýmsum aðilum á Norðurlöndum að virkja þessa happdrættisleið til tekna fyrir íþróttahreyfinguna og einnig aðra menningarstarfsemi, og þær hugmyndir bárust hingað til lands um 1940, þegar verið var að setja íþróttalög. Því var þar tekið inn ákvæði, sem gerði ráð fyrir getraunastarfsemi, og var þó ekki eins nákvæmlega orðað og ákjósanlegt hefði verið, vegna þess að mönnum var ekki nákvæmlega ljóst, hvernig þessi starfsemi fer fram. En þrátt fyrir þetta ákvæði varð töluverð bið á því, að hér á landi væru teknar upp íþróttagetraunir. Það var ekki fyrr en 1951, að íþróttanefnd ríkisins tók málið upp og gerði gangskör að því að kynna sér til hlítar íþróttagetraunastarfsemina á öðrum Norðurlöndum. Sú kynning, sem þá átti sér stað, varð til þess, að hleypt var af stokkunum árið 1952 félagi, sem nefndist Íslenzkar Getraunir og starfaði fram til 1956, en með hverfandi litlum árangri, og var loks gert upp með halla, þegar sýnt þótti, að þessi starfsemi gæti ekki blessazt.

Síðan liðu nokkur ár þannig, að engin getraunastarfsemi fór hér fram. Að vísu áttu sér stað viðræður, bæði við enska einkaaðila og norsku getraunastarfsemina, um að þessi fyrirtæki önnuðust getraunastarfsemi hér í umboði íslenzku íþróttahreyfingarinnar, en góðu heilli, vil ég segja, varð ekkert úr þeim bollaleggingum — góðu heilli, vegna þess að nú var þess skammt að bíða, að getraunastarfsemin væri tekin upp á ný og þá af þeim aðilum, sem höfðu lag á að koma henni á rekspöl og gera hana að fjárhagslegri máttarstoð fyrir íþróttahreyfinguna svo sem ætlunin hafði verið frá upphafi. Það voru í fyrstu knattspyrnufélögin Þróttur og Víkingur frá Reykjavík, sem riðu á vaðið haustið 1968 og höfðu þá aðeins innanfélagsgetraunir, en Knattspyrnufélag Reykjavíkur fylgdi á eftir og tók upp getraunarekstur á opnum markaði. Þegar þessi starfsemi félaganna var komin á nokkurn rekspöl, varð það að ráði hjá forustumönnum íþróttahreyfingarinnar á öndverðu ári 1969 að koma á getraunastarfsemi á ný á landsmælikvarða, og þá var ákveðið að breiða út þá starfshætti, sem reynzt höfðu hjá félögunum í Reykjavik líklegir til að bera góðan árangur. Sem sé, íþróttafélögin og héraðssamböndin fengu söluumboð fyrir getraunirnar, og félagar í íþróttahreyfingunni önnuðust sölustarfið að verulegu leyti af íþróttaáhuga og í sjálfboðavinnu.

Ég fer ekki að rekja hér þá sögu, sem síðan hefur gerzt, en niðurstaðan af þessari starfsemi er sú, að á 101 söluviku, sem liðin var um síðustu áramót frá því, að þetta fyrirkomulag var tekið upp, höfðu selzt um 2 790 354 getraunaseðlar og það sem af er þessa árs hefur salan enn farið vaxandi. Af þessari sölu hafa íþróttafélög haft tekjur, sem nema 17.4 millj. kr., héraðssamböndin 2 millj. kr., Knattspyrnusamband Íslands 1 millj. kr., Íþróttasamband Íslands 4.2 millj. kr. og Ungmennafélag Íslands 906 þús. kr. á þessum tíma. Og þessar tölur leiða glöggt í ljós, hvílík máttarstoð getraunirnar eru orðnar undir starfsemi íslenzkrar íþróttahreyfingar.

Eins og ég gat um áðan, var lagagrundvöllur undir getraunastarfseminni ekki eins traustur og skyldi í öndverðu, og nú, þegar komið er á daginn, hversu umfangsmikil starfsemin er orðin og hversu miklum fjármunum þarna er velt, er öllum aðilum ljóst, að full ástæða er til að treysta þennan lagagrundvöll, og það er höfuðmarkmið þess frv., sem hér er lagt fram. Segja má, að undirbúningur að þessari lagasetningu hafi hafizt þegar á árinu 1970, þegar rætt var um heildarendurskoðun l. um tekjuöflun til Íþróttasjóðs. Það verkefni út af fyrir sig hefur dregizt á langinn, en þegar samningurinn um getraunir var endurnýjaður á síðasta ári, var ákveðið, að leggja skyldi kapp á að koma fram nýjum l. um getraunir, áður en sá samningur á að renna út á miðju þessu ári. Íþróttanefnd ríkisins var falið að beita sér fyrir þessu verkefni, og það hefur hún gert í samráði við forustumenn samtaka íþróttafélaganna, menn frá Ungmennafélagi Íslands, frá Íþróttasambandi Íslands, frá Knattspyrnusambandi Íslands, frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur og auk þess frá stjórn Íslenzkra Getrauna, sem hefur mesta reynslu af þessum starfsvettvangi.

Það frv., sem hér er lagt fram, er einróma niðurstaða af starfi þessara aðila, sem öllum hnútum eru kunnugastir. Þar er, eins og ég hef tekið fram, ákveðið að byggja áfram á þeim grundvelli, sem reynzt hefur traustur og vænlegur til árangurs — á þegnskaparstarfi félaganna í ungmenna- og íþróttafélögunum. Það er ákveðið, að ungmennafélög, íþróttafélög og íþróttasambönd skuli hafa fortakslausan forgangsrétt til að selja getraunaseðlana í umboði Getrauna, og jafnframt er ákveðið, að frá öllum slíkum umboðum skuli gengið með formlegum samningi. Jafnframt er ákveðið, að félag það, sem stofnað verði til að sjá um getraunareksturinn, fái einkaleyfi til slíkrar starfsemi, og enn fremur er lagt til, að því verði veitt einkaleyfi til að reka talnagetraunir svonefndar, sem ekki hafa verið reyndar hér á landi, en ryðja sér nú nokkuð til rúms í ýmsum nágrannalöndum. Hins vegar er í 11. gr. l. ákvæði um, að óheimilt sé að starfrækja veðmálastarfsemi í sambandi við íþróttakeppnirnar sjálfar. Hvað varðar skiptingu teknanna af getraunastarfseminni, er sú eina breyting gerð frá ríkjandi skiptingu, að gert er ráð fyrir, að til Íþróttasjóðs ríkisins renni 10% af hagnaði, og dregst sá skerfur frá hluta Íþróttasambands Íslands, sem verður samkv. lögunum 70%, en hefur verið 80%. Til Ungmennafélags Íslands skulu renna 20% af hagnaðinum, svo sem verið hefur. Sérstök greiðsla er ákveðin til Knattspyrnusambands Íslands, þar sem það eru knattspyrnuleikir, sem eru undirstaða getraunastarfseminnar. Er gert ráð fyrir, að sá háttur sé óbreyttur frá því, sem verið hefur. En það er nýmæli, að til stjórnar héraðssambands skuli renna 3% af heildarsölu í viðkomandi íþróttahéraði — þeirri sölu, sem einstök íþróttafélög kunna að annast, enda á héraðssamband að staðfesta virka félagslega aðild umboðsaðila að þeim samtökum.

Ég mun ekki, herra forseti, hafa miklu fleiri orð um þetta mál en vil að síðustu ítreka, að hér er um svo umfangsmikla starfsemi að ræða og velt það miklum fjármunum, að ég hygg, að allir geti verið á einu máli um, að þörf er að leggja að þessari starfsemi sem traustastan lagagrundvöll, og ég veit, að allir, sem við getraunastarfsemina fást og við íþróttastarfsemi fást og ég hef haft tal af, eru þess mjög hvetjandi, að Alþ. sjái sér fært að lögfesta á þessu þingi ákvæði um getraunastarfsemina, sem orðið geti til frambúðar.

Að svo mæltu vil ég leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.