15.05.1972
Efri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

251. mál, getraunir

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem lagt var fram á þskj. 548 og hér er komið til hv. d. frá Nd. með áorðnum breyt. á þskj. 768, miðar að því að koma á traustan lagagrundvöll mjög árangursríkri fjáröflunarstarfsemi íþróttahreyfingarinnar. Mjög árangursríkri segi ég, og gildir það tvímælalaust um það skeið í sögu getraunastarfsemi hér á landi, sem nú stendur yfir, en því var ekki að heilsa frá öndverðu. Gerðar voru tvær árangurslausar tilraunir til að koma getraunastarfsemi á rekspöl, en þær ultu um sjálfar sig. Það var ekki fyrr en sú leið var fundin að byggja sölustarf og útbreiðslustarf getraunanna á frjálsu sjálfboðaframtaki félaganna í íþróttafélögunum, að verulegur árangur fór að nást. Hann er líka svo mikill, að um munar. Á 101 söluviku, frá því að núverandi getraunastarfsemi hófst 3. maí 1969 til 1. jan. 1972, hafði heildarsala numið 70 millj. kr. Þar af fengu ungmenna- og íþróttafélögin fyrir sölustarf félagsmanna sinna 17.4 millj. kr., Íþróttabandalag Reykjavíkur og héraðasambönd tæpar 2 millj. kr., Knattspyrnusamband Íslands 1 millj. kr., Íþróttasamband Íslands 4.2 millj. kr. og Ungmennafélag Íslands 960 þús. kr., þannig að af heildarsölunni runnu 36.4% til íþróttafélaga og íþróttasambandanna.

En þessi blómlega starfsemi hyllir á lagagrundvelli, sem er bæði gamall og ótraustur, og því voru forráðamenn íþróttahreyfingarinnar og stjórnvöld sammála um það, að sjálfsagt væri að setja ítarlegri lagaákvæði í samráði við fengna reynslu. Þar er áfram haldið þeirri stefnu að fela framkvæmd getraunastarfseminnar íþróttahreyfingunni sjálfri, og sömuleiðis eru tekin upp ákvæði um traust eftirlit með þeirri starfsemi af hálfu dómsmrn. eins og með annarri happdrættisstarfsemi. Þær breyt., sem gerðar voru á frv. í Nd., miða fyrst og fremst að því að treysta þetta eftirlit af hálfu dómsmrn., en framkvæmdin verður áfram hjá íþróttahreyfingunni í umboði menntmrn. Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta mál að sinni, en leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og menntmn.