21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

259. mál, jöfnun á námskostnaði

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Frv. það, sem nú er til umr., er flutt með það markmið fyrir augum að ná fram jafnrétti á milli þeirra nemenda, sem búa í strjálbýli, og þeirra, sem í þéttbýli búa, að því er námsaðstöðu snertir. Þetta var og mjög ítarlega fram tekið í ræðu hæstv. menntmrh. nú áðan. Ég vil lýsa því yfir, að ég tel, að þetta frv. sé þýðingarmikið og eðlilegt skref, sem stigið er í beinu framhaldi af því, sem þegar hefur verið unnið í þessu efni. Það er rétt að minna á það, að þessi mál hafa verið á döfinni um alllangan tíma og miklar umr. um þau farið fram. Fyrstu skrefin, sem stigin voru til þess að jafna aðstöðu skólanemenda úr strjálbýli, voru á grundvelli framlags á fjárl. ársins 1970, 10 millj. kr. Síðan var þessi upphæð hækkuð í 15 millj. kr. á árinu 1971. Sú nefnd, sem skipuð var til þess að úthluta þessu fé, komst fljótlega að raun um það, að það fjármagn, sem veitt var í þessu skyni, var ekki fullnægjandi til þess, að fullum jöfnuði yrði náð. Því var það, að hún fór fram, á það á sínum tíma, að þetta fé væri nokkuð hækkað, og á síðasta ári, árinu 1971, voru veittar úr ríkissjóði umfram fjárl. tæplega 3 millj. kr. til þess að fullnægja þeim reglum, sem settar höfðu verið um úthlutun styrkja í þessu skyni, en þær styrkgreiðslur fóru fram úr áætlun vegna þess, að umsóknir urðu mun fleiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Sú lagasetning, sem stefnt er að með þessu frv., er í beinu framhaldi af þeim aðgerðum, sem þegar hafa verið gerðar í þessu efni og þeirri stefnu, sem mörkuð var af fráfarandi ríkisstj., enda kom það fram í ræðu hæstv. ráðh., að grunnurinn að skipun þeirrar nefndar, er samdi þetta frv., var lagður af fráfarandi ríkisstj. Ég sakna þess hins vegar nokkuð, að það frv., sem hér liggur fyrir, skuli ekki vera skýrara að efni en raun er á. Það er í mjög mörgum atriðum ákaflega óljóst, bæði að því er snertir rétt einstakra nemenda til styrkja og eins í því, hvernig á að finna fjárhagslegan grunn styrkjanna og upphæð styrkjanna. Í grg. frv. er ekki að finna neitt, er að því lýtur, hversu há þessi fjárhæð muni verða, að öðru leyti en því, að slegið er fram í lok grg. án nokkurs rökstuðnings, að það fé, sem til þessa þarf, muni nema á næsta skólaári 100–120 millj. kr.

Ég vil geta þess, að í þessu frv. eru nokkur nýmæli umfram það, sem komið hefur fram í þeim reglum, sem gilt hafa um úthlutun námsstyrkja til þessa. Þau nýmæli eru einkum í 5. gr. frv., þar sem rætt er um heimildir fyrir úthlutun til þeirra nemenda í einstökum tilvikum, sem ekki fullnægja þeim reglum, sem settar eru. Það er vissulega rétt, að það getur verið þörf á því að hafa slíkar heimildir, en það mun koma í ljós, þegar á að fara að úthluta styrkjum sem þessum, þar sem ekki eru settar fastar skorður, sem fara á eftir, að erfitt verður fyrir úthlutunarnefnd að setja mörkin. Ég vil þó lýsa því yfir, að þarna getur verið um þýðingarmikil atriði að ræða og einstakir nemendur geta átt siðferðilegan rétt til að njóta styrks, þó að þeir falli ekki nákvæmlega undir þær reglur, sem l. ákveða.

Í 4. gr. þessa frv. er um það rætt, að námsstyrkjanefnd skuli afla sér upplýsinga, sem hún skuli byggja reglur sínar á og úthlutunina í heild. Ég hefði álitið, að eðlilegra væri, að menntmrn. hefði slíka gagnasöfnun með höndum. Ef svo er, sem um er rætt í þessu frv., að það sé úthlutunarnefndin, sem aflar þessara upplýsinga, þá kann það að verða til þess, að starf þeirrar nefndar verði viðamikið og hún þurfi að hlaða sjálf utan á sig starfskröftum, sem eðlilegra væri, að væru bundnir sjálfu menntmrn.

Ég hef þegar um það rætt, að frv. er nokkuð óskýrt að efni og fjarri því að vera jafnskýrt og reglurnar hafa verið, sem úthlutað hefur verið eftir. Það má e. t. v. segja, að eðlilegt sé að setja reglugerð um einstök atriði, sem breytast frá ári til árs, en það er líka sannarlega gert ráð fyrir því í þessu frv., því að í eigi færri en 6 skipti eru gefin fyrirmæli um það, að sett skuli reglugerð eða reglur um einstök atriði, sem fara á eftir, og eru þó frvgr. ekki nema 7 talsins. Það er því augljóst, að það þarf að vinna mikið verk, áður en komið er niður á þær reglur, sem fara á að í þessum málum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar hér. Ég endurtek það, að flutningur þessa frv. er skref á þeirri braut, sem hafin er ganga á, og ég vil vænta þess, að það skref verði þýðingarmikið, því að þörfin er brýn. Þörfin er sú að ná þeim áfanga, að allir þeir, sem æskja skólanáms, geti búið við sama rétt, hvort sem þeir búa í þéttbýli eða strjálbýli. Jöfn menntunaraðstaða er eitt hið mesta réttlætismál og hagsmunamál byggðarinnar í landinu, því að aðstaða til menntunar hefur einnig sitt hagræna gildi — það gildi, að ef menn hafa ekki aðstöðu til þess að hljóta sambærilega menntun á einum stað sem annars staðar, þá mun búsetan raskast. Og ég undirstrika þau orð hæstv. ráðh., að verði fullum jöfnuði náð í þessu efni, þá er þýðingarmiklum áfanga náð, sem ég lýsi fullum stuðningi við, enda þótt ég hefði, eins og ég hef þegar tekið fram, óskað þess, að þetta frv. væri nokkuð skýrar orðað og markaði skýrari stefnu en það gerir í einstökum greinum.