21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

259. mál, jöfnun á námskostnaði

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég kann ekki við það að hlusta á það án þess að vekja á því athygli, að farið sé hér í d. með hrein öfugmæli, eins og mér virtist hv. 5. þm. Norðurl. v. gera áðan. Hann lét þau orð falla, að það væri óumdeilanlegt, að fyrrv. ríkisstj. hefði haft forustu í því að jafna námskostnað nemenda í strjálbýli og þéttbýli. Það tók nefnilega ekki minna en tvö kjörtímabil að þræla hér í gegnum þingið ályktun um það að taka þessi mál til athugunar. Fyrir því börðust þeir, sem þá voru í stjórnarandstöðu. Og þegar það loksins tókst og málið var tekið til athugunar og það kom í ljós, hve gífurlegur aðstöðumunur þarna var, þá fékkst aðeins 10 millj. kr. fjárveiting í þessu skyni. En nú er áætlað, að til þurfi upp undir 120 millj., svo að verulegt gagn verði að. Og svo á næsta ári gekk hér maður undir manns hönd við að reyna að þoka þessari upphæð, 10 millj. kr., upp um örfáar millj. og komust að því fullkeyptu við að ná 15 millj. kr. Og svo á að láta líta svo út, sem það hafi verið forusta fyrir þessu máli af hálfu fyrrv. ríkisstj. Mér finnst það ekki gefa þessum hv. þm. neinn rétt til þess að segja slík öfugmæli hér í d., þó að ég efist ekki um það, að hann hefur tekið þátt í því og barizt fyrir því öfluglega innan stjórnarliðsins, að sá litli árangur náðist þó, sem fólst í aðgerðum fyrrv. ríkisstj. í þessu máli.