10.05.1972
Efri deild: 78. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

259. mál, jöfnun á námskostnaði

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði hér, sem mig langaði til að drepa á, þó að hæstv. ráðh. hafi fylgt frv. rækilega úr hlaði. Það er aðeins af því, að ég átti sæti í þeirri nefnd, sem undirbjó þetta lagafrv., og vildi örlítið ræða það, hvernig nefndin vann þetta verk sitt. Hlutverk þessarar nefndar, sem ráðh. skipaði, var allákveðið og afmarkað, eins og reyndar vera bar. Frv. skyldi ná til þess fólks, sem sækja þarf nám fjarri heimili sínu, og skyldi reynt að jafna aðstöðu þess fólks sem allra mest til að geta notið skólagöngu til jafns við þá nemendur, sem búa heima hjá sér og hafa skólahúsið svo að segja við húsvegginn alla tíð. Það námsfólk, eins og áður hefur verið tekið fram, sem nefndin átti um að fjalla, er sá stóri hópur, sem þarf að sækja nám sitt fjarri sínu heima allt frá skyldunámi og til þess náms, þar sem Lánasjóður ísl. námsmanna veitir sína aðstoð. Ég legg áherzlu á búsetusjónarmiðið, sem nefndin átti fyrst og fremst að taka tillit til, einmitt vegna þess að okkur var fyllilega ljóst, að um erfiðleika getur verið að ræða varðandi skólagöngu unglinga þrátt fyrir það, að skólinn sé nærri, einkum þó efnalegar ástæður, sem því miður eru víðar fyrir hendi en marga grunar. Nefndin sá sér vitanlega ekki fært að fara að ráði út fyrir þann ramma, sem henni var settur, en tók þó upp heimildarákvæði að vísu, þar sem námsstyrkjanefnd hefur möguleika á annars vegar að veita efnalitlum nemendum aðstoð utan við aðalákvæðin og hins vegar einnig að hjálpa sérstaklega, þar sem svo stendur á, að margir nemendur eru frá sama heimili samtímis í framhaldsnámi.

Ég þykist þess fullviss, að það komi að því, að nauðsynlegt reynist að koma upp kerfi námslauna eða námsstyrkja einmitt til að tryggja það, að fjárhagslega hliðin þurfi engan að hindra í námi, ef vilji og hæfileikar eru fyrir hendi, en aðalhlutverk sitt og hið mest knýjandi reyndi nefndin að rækja eftir beztu föngum. Þó að í smáum stíl hafi verið, þá veit ég þó, að sú fjárhagsaðstoð, sem nemendur á þessum skólastigum hafa notið síðustu tvö árin, hefur mörgum komið að gagni, og einmitt það hefur sýnt betur en nokkuð annað, hver þörf var hér á, að raunhæft og stórt átak yrði gert til að jafna aðstöðu þessa fólks og gera hana sem bezta í samanburði við þá, sem námið sækja heiman að frá sér daglega.

Eins og áður hefur verið tekið fram, eru höfuðþættir þessarar aðstoðar tveir, annars vegar aðstoð vegna dvalarkostnaðar og hins vegar vegna ferðakostnaðar,og nefndin lagði það til, eins og hér hefur komið fram, að sem raunhæfastur samanburður verði gerður í því skyni að bæta nemendum að fullu þann mismun, sem verður, þegar sækja þarf námið fjarri heimilinu. Um það má vafalaust deila, á hvern veg megi þar ná sem mestu réttlæti, og eins hitt, hvort nokkurn tíma verði fundin algild regla til að fara hér eftir. Án efa kunna einhverjir erfiðleikar að koma fram varðandi einstaka framkvæmdaliði — ekki sízt varðandi þann mismun, sem 5. gr. frv. kveður á um, að reyna eigi að leiðrétta. Eins var það skoðun nefndarmanna, að ferðakostnaður nemenda hlyti að miðast við jólaleyfi einnig, en ekki aðeins við ferðir til og frá skóla vor og haust.

Einni meginbreytingu hefur frv. þetta tekið í Nd., en það snertir þá nemendur, sem taka fast eða samningsbundið kaup á námstímabilinu. Nefndin hafði ekki séð sér fært að leggja til, að þessir nemendur fengju sams konar styrki og aðrir nemendur. Hins vegar skal það fúslega játað, að ég tel breytinguna til bóta með þeim takmörkunum, sem hún er háð. Ég held, að við höfum hreinlega ekki gert okkur ljóst, hvað hér getur verið um lág og bágborin launakjör að ræða, og ég sjálfur hef sannfærzt æ betur um það, að þessir nemendur eiga fyllilega rétt á styrkjum að vissu marki. Það er reyndar allmikill ágalli, að ekki skuli vera mögulegt að taka tillit til þess, hverjir fjáröflunarmöguleikar hvers nemanda hafa verið og hver fjárhagsaðstaða hans er í raun réttri. En að okkar dómi — og ég hygg flestra — er hér um nær óframkvæmanlegan hlut að ræða og auk þess svo umdeildan, þar sem aðeins er um að ræða jafnrétti til náms án tillits til búsetu.

Einn er sá hópur nemenda, sem ég hef óttazt, að yrðu kannske hér út undan. Það eru nemendur, sem að einhverju leyti eru utan skóla, en þurfa þó af ýmsum ástæðum að vera fjarri heimilum sínum við nám. Um þetta náðist ekki samkomulag, enda er það erfitt við að ráða, og eins hygg ég, að þessir nemendur geti náð rétti sínum, að því er styrk varðar, samkv. heimild í 5. gr., c-lið. Vona ég a. m. k., að þar verði sá skilningur fyrir hendi, er nægi til að tryggja þessu fólki styrki, ef það telst eiga þar rétt á að öðru leyti.

Á eitt atriði hefur mér verið bent alveg sérstaklega nokkrum sinnum, eftir að ég skilaði frumvarpsdrögunum frá mér, en það er 3. gr., þ. e. um skipun námsstyrkjanefndar. Á það hefur verið bent, að hlutur nemenda sé fyrir borð borinn með aðeins einum fulltrúa. Nú má á það benda, að ráðh. getur hæglega úr þessu bætt, ef honum þykir til ástæða, þar sem tveir nefndarmenn eru skipaðir án tilnefningar, og hygg ég, að vel mætti hugsa sér það frjálslyndi af hálfu ráðh. að bæta þar inn í nefndina öðrum fulltrúa nemenda eða þeim, sem nákominn væri þeirra högum. Ég held hins vegar, ef frv. þetta verður að l. og eins rösklega verður tekið til hendi og það ákveður, þá sé ótti nemenda sumra hverra ástæðulaus með öllu. Svo stórkostleg úrbót hlýtur lagasetning þessi að vera fyrir þá.

Ég tel ástæðu til þess að lokum að minna á það, hversu stórt það skref er, sem lagt er til, að tekið verði fram á við til aðstoðar því unga fólki, sem er á framhaldsskólastiginu svokallaða og ekki á þess kost að stunda nám í heimabyggð sinni. Það kann að vera, að einhverjum vaxi í augum, hve háar fjárhæðir hér er um að ræða, en sé litið til Lánasjóðs ísl. námsmanna með framlagi ríkisins upp á nær 300 millj. kr. á þessu ári sést glögglega, að miðað við þann fjölda, sem áætlað er, að aðstoðarinnar komi til með að njóta, er upphæðin hvergi nærri svimandi, þó að hún sé að vísu miklu hærri — margfalt hærri en sú upphæð, sem nú er varið til þessara mála. Ég hef þá trú, að eftir þessum peningum þurfi ekki að sjá, þeir muni ávaxta sig vel og rækilega. Ég vil aðeins óska þess, að landsbyggðin muni njóta sem bezt og mest þessa fólks að námi loknu, að þessi aðstoð, sem hér er lagt til, að tekin verði upp, megi verða til þess að efla hag fólksins í hinum dreifðu byggðum, eins og til er ætlazt, og skila sér aftur heim í byggðarlögin með vel menntuðu fólki, sem vissulega er aldrei nógu mikið af.