10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

238. mál, höfundalög

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að láta í ljós ánægju yfir því, að þetta frv. skuli nú flutt og lýsa yfir stuðningi við framgang þess. Það sætir eflaust engum tíðindum, að ég skuli lýsa ánægju yfir flutningi frv., því að ég hef áður flutt það í meginatriðum eins og það nú er flutt í tvö skipti, meðan ég veitti menntmrn. forstöðu, eins og kom fram hjá hæstv. menntmrh., fyrst 1962 og svo aftur á síðasta þingi. Ástæðan til þess, að það hlaut ekki afgreiðslu í fyrra skiptið, 1962, voru fyrst og fremst ýmsar eðlilegar aths. á þeim tíma af hálfu Ríkisútvarpsins, sem m. a. benti á það, að höfundalög væru einmitt um það leyti í mjög örri þróun og víðtækar breytingar stæðu fyrir dyrum í öðrum löndum, eins og einnig hefur komið á daginn. Í endurskoðun, sem fram fór á málinu 1970, eins og hæstv. ráðh. gat um í framsöguræðu sinni, var tekið tillit til þeirra breytinga, sem orðið höfðu á erlendri höfundaréttarlöggjöf, og til þeirra tæknilegu aths., sem Ríkisútvarpið hafði áður fært fram og voru eðlilegar. Ástæðan til þess, að málið náði hins vegar ekki fram að ganga, þegar það var flutt 1970 eða á síðasta þingi, mun fyrst og fremst hafa verið sú, að Ríkisútvarpið taldi sig tæplega geta staðið undir þeim fjárhagslegu byrðum, sem frv. legði því á herðar. Þar yrði um mjög mikinn útgjaldaauka að ræða, sem Ríkisútvarpið var ekki á því stigi tilbúið til þess að takast á hendur, og óskaði það því eftir nánari athugun á frv., eins og hæstv. ráðh. raunar gat um í ræðu sinni og vikið er að í grg. frv., þar sem segir, að á frv., eins og það var flutt síðast, hafi verið gerðar nokkrar breytingar m. a. samkv. tillögum frá Ríkisútvarpinu.

Þess vegna langar mig til þess að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh. — það hlýtur að skipta verulegu máli í sambandi við það, hverjar horfur eru á því, að frv. nái fram að ganga núna — hvort Ríkisútvarpið hafi formlega samþykkt fyrir sitt leyti, að frv. nái fram að ganga nú á þessu þingi. Auðvitað geri ég mér það ljóst, að það er Alþ., sem hefur löggjafarvald, en ekki Ríkisútvarpið, en hins vegar skiptir það að sjálfsögðu mjög miklu máli, að sú stofnun, sem nýmæli þessa frv. snerta fyrst og fremst, er Ríkisútvarpið. Nýmælin snerta fyrst og fremst íslenzka Ríkisútvarpið og starfsemi þess. Þessi stofnun þarf að vera sátt við frv., eins og það nú er, og þarf að geta mælt með framgangi þess. Það lá ekki fyrir í fyrra. Þess vegna náði frv. ekki fram að ganga á því þingi. Ég mundi mjög fagna því, ef það lægi nú fyrir, að Ríkisútvarpið væri málinu samþykkt, því að þá efast ég ekki um, að hv. menntmn. og þingheimur yfirleitt væri reiðubúinn til þess að veita þessu mikla nauðsynjamáli íslenzkra höfunda á öllum sviðum og íslenzkra mennta yfir höfuð að tala brautargengi. Þetta kemur ekki, að því er ég fæ bezt séð, alveg skýrt fram í grg., hvort um slíkt samþykki af hálfu Ríkisútvarpsins er þegar að ræða eða ekki.

Í þessu sambandi langar mig til þess að fara fáeinum orðum um fjármál Ríkisútvarpsins eða fjárhag Ríkisútvarpsins í framhaldi af blaðaummælum nú fyrir skömmu, en í blöðum hefur þess verið getið, að Ríkisútvarpið teldi fjárhag sinn nú vera mjög þröngan — svo þröngan, að til vandræða horfði. Í einhverju blaðanna var þess jafnvel getið, að fjárhagur Ríkisútvarpsins væri nú á þessu ári þannig, að verið gæti, að grípa þyrfti til samdráttar í dagskrá bæði sjónvarps og hljóðvarps.

Nú ber auðvitað að treysta blaðafregnum um efni sem þessi varlega, og þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. menntmrh., hvort eitthvað sé til í þessu, hvort fjármál Ríkisútvarpsins séu nú þannig, að hætta sé á því, að það telji sig verða að draga saman seglin. Ef svo væri, bæri að harma það mjög, og á það bæði við um sjónvarp og hljóðvarp, því að enginn vafi er á því, að þessi stofnun, báðir þættir hennar, gegna mjög miklu menningarhlutverki í íslenzku þjóðfélagi. Það var á döfinni í Ríkisútvarpinu að auka starfsemi sjónvarpsins að því leyti að hætta við það að fella niður sjónvarp á fimmtudögum, svo sem verið hefur frá því, að sjónvarpið tók til starfa. Það var stefna, held ég, að ég megi segja, fyrrv. útvarpsráðs að vinna að því sem fyrst, að enginn dagur þyrfti að vera sjónvarpslaus, þ. e. hægt væri að sjónvarpa einnig á fimmtudögum. Ef þessar blaðafregnir, sem birzt hafa, eru réttar, þá virðist svo sem á því sé ekki von, heldur jafnvel hinu, að úr sendingum sjónvarpsins dragi að einhverju leyti. Það mundi ég og ábyggilega allir aðrir, sem gagn og gaman hafa bæði af sjónvarpi og hljóðvarpi, harma mjög mikið, og ég vona, að þessar blaðafregnir séu ekki á rökum reistar. En mig fýsir að heyra frásögn hæstv. menntmrh. varðandi þetta atriði.