10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

238. mál, höfundalög

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Það er fyllilega eðlilegt, að hv. 7. þm. Reykv. skuli sérstaklega spyrja eftir því, hversu háttað sé afstöðu stjórnenda Ríkisútvarpsins til tiltekinna ákvæða þessa frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess, eins og hann réttilega skýrði frá, að framgangur málsins mun tvisvar hafa stöðvazt á því, að ráðamenn Ríkisútvarpsins töldu sig ekki geta búið við þau ákvæði, sem þá var þar að finna. Eins og ég drap á í þeim orðum, sem ég flutti hér til framsögu fyrir málinu, hefur verið lögð á það áherzla að komast að niðurstöðu, sem bæði fullnægði ákvæðum núgildandi alþjóðasamninga um höfundarétt og gætti eðlilegra hagsmuna ríkisstofnunar eins og Ríkisútvarpsins, sem mjög þarf að nota höfundaréttarverndaðar upptökur frá ýmsum aðilum til að halda uppi dagskrá sinni, en hefur, eins og allir vita, miklu rýrari tekjugrundvöll til að starfa á en sambærilegar stofnanir í öðrum löndum. Það er mitt álit, að með ákvæðum þess frv., sem hér er lagt fram, hafi þetta tekizt, og mér er tjáð, að Ríkisútvarpið telji sig fyrir sitt leyti geta búið við þau ákvæði, sem frv. gerir ráð fyrir, svo að ég vona sannarlega með hv. þm., að þetta atriði verði ekki til að tefja framgang málsins að þessu sinni.

En svo er það allt annað mál hvernig fjárhagur Ríkisútvarpsins er almennt, en að því vék hv. þm. Það er alveg rétt, að við ákvörðun afnotagjalds Ríkisútvarps var hvergi nærri fullnægt óskum forráðamanna stofnunarinnar um þá hækkun, sem þeir óskuðu eftir, og eins og hjá öðrum fyrirtækjum, hvort sem þau eru ríkisfyrirtæki eða einkafyrirtæki, hlýtur það auðvitað að hafa áhrif á starfsáætlanir, en ég hef enga ástæðu til að ætla, að af þessu munu leiða samdrátt t. d. í dagskrá útvarps eða sjónvarps, sem mér skildist hv. þm. telja, að skýrt hefði verið frá opinberlega. Allt annað mál er það, hvort fresta eigi lengur eða skemur lengingu dagskrár, eins og t. d. sjöunda sjónvarpsdeginum í vikunni. Mér er ekki kunnugt um, hversu langt fyrirætlanir um að taka upp sjöunda sjónvarpsdaginn hafa verið komnar, þegar skipt var um útvarpsráð. En hins þykist ég hafa orðið var bæði fyrr og síðar, að mjög eru skiptar skoðanir meðal sjónvarpsnotenda um, hvort þeir kæri sig um að fá sjöunda sjónvarpsdaginn.