10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

238. mál, höfundalög

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Íslendingar búa enn við höfundalög frá árinu 1905 og eru að sögn kunnugra nú ein hin elztu í heimi. Þessi 1. hafa tekið sáralitlum breytingum hér á landi, enda þótt þróun þessara mála hafi verið mjög ör erlendis, og er þetta varla talið samboðið listelskri bókmenntaþjóð.

Frv. það, sem hér er til 2. umr., hefur verið til athugunar og endurskoðunar í rúman áratug frá því, að fyrstu drög að því lágu fyrir. Með lögfestingu þessa frv. mundi höfundaréttarmálum komið í nútímahorf á Íslandi, svo að nálgast það, sem ríkir í næstu löndum. Réttur höfunda mundi aukast nokkuð og verða betur tryggður að ýmsu leyti en áður. Margvísleg ákvæði mundu verða samræmd aðstæðum samtíðarinnar, og loks mundi flytjendum listanna verða tryggður réttur til þóknunar í fyrsta sinn.

Meginástæðan til þess, að frv. hefur ekki náð fram að ganga fyrr, þótt það hafi verið til meðferðar í áratug, hefur verið ótti Ríkisútvarpsins við stóraukin útgjöld vegna mikillar notkunar þess á hljómplötum. Af þessum sökum er farinn í frv. sá meðalvegur að veita aðeins íslenzkum flytjendum rétt til þóknunar, en erlendum flytjendum er ekki veittur sá réttur hér á landi fyrst um sinn. Á þennan hátt hefur náðst samkomulag þeirra aðila, sem málið snertir mest, en höfundar og flytjendur mæla að sjálfsögðu með samþykkt frv.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að greiðslur til höfunda eru veigamikill þáttur í fjárhag Ríkisútvarpsins. Á árinu, sem leið, mun Ríkisútvarpið hafa greitt bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp um 12 millj. kr. í greiðslur til höfunda. Þetta er eðlilegt og sjálfsagt, en engu að síður mikill þáttur í rekstri stofnunar, sem fámenn þjóð verður að standa undir. Hefur þegar náðst samkomulag um, að Ríkisútvarpið greiði íslenzkum flytjendum, — en þar munu fyrst og fremst koma til tónlistarmenn, hljóðfæraleikarar og söngvara — 500 þús. kr. fyrsta árið, en síðan hækkar greiðslan um 100 þús. kr. á ári upp í 800 þús. kr. Ríkisútvarpinu hefur aðallega staðið stuggur af greiðslum fyrir notkun á erlendum hljómplötum. Miðað við þann taxta á íslenzkum hljómplötum, sem hér um ræðir, er það ágizkun mín, að greiðslur fyrir flutningsrétt til útlendinga mundu nema 4–6 millj. kr. Þetta mundi að sjálfsögðu leggjast á íslenzka útvarpsnotendur í auknum gjöldum á einn eða annan hátt. Það er eingöngu af þessari ástæðu, sem Ríkisútvarpið hefur sýnt nokkra tregðu í þessu máli, en ekki af því, að skort hafi hjá forráðamönnum útvarpsins skilning á því, að listamenn, bæði höfundar og flytjendur, eigi fullkominn rétt á eðlilegum greiðslum fyrir verk sín og þá sérstaklega fyrir endurnotkun, þegar hljómplata er notuð aftur og aftur.

Í viðræðum, sem menntmn. átti við höfunda þessa frv., var upplýst, að réttur höfunda samkv. frv. gangi hvergi, svo að umtalsvert sé, lengra en réttur höfunda er annars staðar á Norðurlöndum, en í sumum atriðum gengur réttur höfunda hér á landi samkv. þessu frv. skemmra. Sérstaklega hygg ég, að íslenzkir höfundar muni una illa því ákvæði, að náist ekki samkomulag við þá, hefur Ríkisútvarpið rétt til að flytja verk þeirra áfram og greiða síðan eftir á fyrir það samkv. þeim taxta, sem um kann að semjast. Við þetta er samningsaðstaða listamanna veikt, og segja má með orðum, sem eru skiljanlegri fyrir allan þorra manna, að þessi ákvæði þýði, að þeir listamenn, sem selja vinnu sina til Ríkisútvarpsins, sem nú veltir 2–300 millj. kr. á ári og lifir á verkum þessa fólks, hafi þar ekki verkfallsrétt. Slíkur réttur er til annars staðar á Norðurlöndum, og ég hygg, að hann muni koma hér, en samtök höfunda og flytjenda hafa gengið inn á að láta þetta atriði bíða með tilliti til þess, að frv. flytur þeim að öðru leyti mjög margvíslegar kjara- og réttarbætur.

Í lagabálki sem þessum eru að sjálfsögðu mörg atriði, stór og smá, sem skoðanir kunna að vera og eru skiptar um. Menntmn. hefur þó talið meira virði að tryggja framgang frv. en að stofna til deilna um einstök atriði og mælir því einróma með samþykkt þess án breytinga. Þetta þýðir, að þeir menntmnm., sem viðstaddir voru afgreiðslu málsins, hafa ákveðið að sitja á ýmsum hugmyndum, sem þeim kynni að þykja freistandi að flytja, í þeirri von, að það verði sem minnstur ágreiningur um frv. og það fáist afgr. á þessu þingi, enda er það ljóst af reynslu, að lagabálkur sem þessi hlýtur að koma aftur til nýrrar endurskoðunar 2–3 árum eftir að hann hefur gengið í gildi, þegar reynsla hefur fengizt af þeim ákvæðum, sem eru ný og sett í íslenzk l. í fyrsta skipti. Má því búast fastlega við, að tækifæri gefist til að hefla þetta verk innan fárra ára. Þess vegna hefur menntmn. lagt aðaláherzlu á, að meginatriði málsins nái fram að ganga, enda ekki skammlaust fyrir Alþ. og þjóðina, að mál sem þetta skuli hafa strandað hvað eftir annað og setið fast í rúmlega áratug og þessi þjóð bókmennta og listamanna skuli búa við höfundalög, sem erti frá því um aldamót.

Ein brtt. hefur verið lögð fram á þskj. 724 frá hv. 2. þm. Norðurl. v. Hún er við 21. gr. og er um, að 4. tölul. falli niður. Þessi tölul. er um það, að opinber flutningur bókmenntaverks eða tónverks, sem út hefur verið gefið og ekki er leiksviðsverk, sé heimill eins og þar segir, þ. e. að heimilt sé að flytja verkin án þess að biðja um sérstakt leyfi hverju sinni: „Við guðsþjónustu og aðrar kirkjulegar embættisathafnir.“ Síðan er það, sem á að falla niður: „Höfundur á rétt til þóknunar samkvæmt þessum tölulið eftir reglum, sem menntamálaráðherra setur.“

Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að þeir höfundar, sem fást við að semja texta við sálmalög, njóti sama réttar og allir aðrir höfundar, ef verk þeirra eru notuð. Það mun vera meginhugsunin á bak við þetta atriði í 21. gr., og virðist ekki óeðlilegt, að sálmahöfundar njóti nákvæmlega sama réttar og aðrir höfundar, hvað þetta snertir. Hins vegar er þetta nokkuð óvenjulegt og mun ekki vera bundið í norrænum lögum. Ég vil ekki leggja á þetta atriði áherzlu. Hæstv. þd. getur ráðið því, ef hún vill, og mun það ekki breyta neinu um meginreglur eða megintilgang þessa frv., hvort hún samþykkir þessa till. eða ekki. Þetta mál var rætt í n. og rætt við höfunda frv., og n. tók, eins og ég áður sagði, þá afstöðu að flytja engar brtt. hvorki við þetta né annað. Í þessu sambandi má benda á, að nú er allathyglisverð og — að því er margir telja — mjög lofsverð þróun í gangi á þá lund, að æskan hneigist meira til guðsþjónustu og kirkjulegra athafna en hún hefur gert um langa hríð. Þessari þróun hefur fylgt það, að farið er að nota við guðsþjónustur og kirkjulegar embættisathafnir ýmsa tónlist aðra en þar hefur verið notuð undanfarnar aldir, þ. á m. svokallaða popptónlist og tónlist, sem er tekin beint úr söngleikjum, sem sýndir eru við metaðsókn í næstu löndum.

Ég vil taka það fram að lokum, að nm. spurðu höfunda frv., sem eru þessum málum kunnugir, hvernig slíkt atriði sem þetta yrði framkvæmt. Kom í ljós, að sennilega mundu samtök, sem semja fyrir höfunda og flytjendur, gera í einu lagi samkomulag við þjóðkirkjuna um, að greidd yrði einhver upphæð fyrir not á tónlist og textum og öðru, sem höfundaréttur nær til við guðsþjónustur og kirkjulegar embættisathafnir. Þessi eina upphæð yrði síðan færð sem útgjöld kirkjunnar og væntanlega greidd af ríkissjóði, á meðan þjóðkirkjan er ríkiskirkja. Ætti þetta ákvæði því ekki að þurfa að valda hinum minnstu áhyggjum þeim, sem hafa með að gera eða taka einn eða annan þátt í guðsþjónustum eða kirkjulegum embættisathöfnum í landinu. Ég vil að lokum endurtaka, að ég tel það ekki skipta meginmáli, hvort till. á þskj. 724 verður samþ. eða ekki.