12.05.1972
Neðri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

238. mál, höfundalög

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Hér hafa farið fram heldur undarlegar hugmyndafræðilegar umræður af hálfu hv. 9. landsk. þm. og hv. 2. þm. Norðurl. v. Ef á að fara að draga Marx inn í umr. um höfundarétt, skulum við aðeins rifja upp, hver er kjarni þess, að við viðurkennum höfundarétt listaverka. Tilgangurinn er tvenns konar. Í fyrsta lagi að tryggja það, að verkamaðurinn fái fjárhagslegan arð af vinnu sinni. Þannig eru kenningar Marx í fyllsta samræmi við höfundaréttinn. Í öðru lagi á höfundarétturinn að tryggja, að enginn fái afskræmt eða notað sér verk annars í annarlegum tilgangi eða fyrir eigin fjárhagslegan ábata. Ég læt nú útrætt um þessar djúpu þenkingar manna hér um eignarrétt og marxisma í sambandi við höfundarétt.

En það var algjör misskilningur hjá hv. 9. landsk. þm., að þetta frv. væri stórt spor í þá átt að tryggja höfundum það, sem hann nefndi með mikilli áherzlu eignarrétt. Lögfræðingur Rithöfundasambands Íslands metur þetta frv. svo, að það sé mjög óverulegur bjargar- eða réttarauki fyrir höfunda vegna þess, að gömlu höfundalögin, enda þótt þau væru í úreltum búningi, tryggðu höfundaréttinn miklu betur en af hefur verið látið. Hann lætur þess enn fremur getið, að fjárhagslegur ávinningur rithöfunda sé sáralítill af þessu frv., það séu listflytjendur, sem hafi mestan hagnað af þessu nýja frv. Hann segir hér orðrétt í bréfi, með leyfi hæstv. forseta, og er þá að ræða þetta nýja frv.:

„Við erum sem sagt að fara úr gömlu vaðmálsbrókunum í höfundaréttarlegu tilliti og taka upp nýtízkulegri klæðnað. Við þau fataskipti verður þó vandlega að gæta þess, að hinn nýi búningur sé a. m. k. jafnskjólgóður og helzt skjólbetri höfundum en sá eldri.“

Það er einn alvarlegur ágalli á þessu frv., sem ég hefði haldið, að hv. 9. landsk: þm. hefði fremur átt að nefna hér en nokkuð annað, því að það er atriði, sem er ekki samboðið lýðræðisþjóðfélagi. Það hefur ekki náð fram að ganga, að rithöfundar eða höfundar hugverka ættu frjálsan samningsrétt, þegar um er að ræða flutning verka þeirra í útvarp. Alls staðar á Norðurlöndum hafa rithöfundar þessi réttindi, og þess er skemmst að minnast, að norskir rithöfundar náðu mikilvægum áfanga í kjarabaráttu sinni með því að leggja bann við flutningi verka sinna, meðan á samningum stóð. Hér á Íslandi og í þessu nýja frv. er hins vegar gert ráð fyrir því, að Ríkisútvarpið megi halda áfram að leika og flytja verk höfunda, enda þótt samtök höfunda hafi sagt upp samningum. Ríkisútvarpið verður að vísu að greiða gjald fyrir — gjald, sem væntanlega yrði samið um, en með því að rithöfundar eru sviptir því valdi að banna flutning verka sinna, þá segir sig sjálft, að við samningsgerð eru hendur þeirra mjög bundnar. Auk þess verða þeir að hlíta gerðardómi, sem engin önnur samtök höfunda á Norðurlöndum verða að hlíta. Nauðsynlegt er fyrir samtök höfunda að vinna að því, að frjáls samningsréttur þeirra sé viðurkenndur eins og annarra vinnandi stétta. En hins vegar er af mörgum ástæðum talið mjög mikilvægt, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi, og hafa höfundar því talið réttara að láta þetta fara að svo stöddu.