12.05.1972
Neðri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

238. mál, höfundalög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Mér þykir það leiðinlegt, að hv. 4. landsk. þm. vill ekki — á sama tíma og hann tekur þátt í baráttu rithöfunda fyrir viðurkenningu á rétti þeirra til verka sinna og til fulls gjalds af notkun þessara verka — viðurkenna þessa baráttu rithöfundanna í verki og lokar augunum fyrir því, að þetta er vissulega barátta fyrir því að fá viðurkenndan rétt sinn, eignarrétt viðkomandi af sínum verkum, og í eðli sínu er sú barátta sú sama og háð er fyrir séreignarrétti á öðrum sviðum. Hins vegar þykir mér það, miður, ef þessi ágæti þm. telur það frekar vera í sínum verkahring að taka upp hanzkann fyrir Marx gamla í slíkum umr. Ég veit ekki, hvort ég á að skilja þm. svo, að hann vilji gera ummæli lögfræðings þess, sem hún vitnar til, að sínum, þegar hún vitnar til ummæla, þar sem sagt er um þetta frv„ að það sé óverulegur áfangi. Þó var það því miður svo að skilja með upplestri á þessari tilvitnun, að þar væri tekið undir þessi ummæli. Ég get ekki fallizt á það, þegar verið er að breyta 50 ára gömlum lögum, úreltum lögum, koma á margvíslegum hótum og endurskoðun á þessum viðamiklu málum, setja mjög vandvirknislega unna löggjöf og kanna málið ítarlega, sem er til mikilla hagsbóta fyrir höfunda almennt, að það sé kallaður óverulegur áfangi. Ég sagði, að þetta væri mjög mikilsvert frv. og ég styddi það af heilum hug, en teldi hins vegar, að það væri einungis áfangi að því marki, að full viðurkenning fengist á eignarrétti höfunda, en ég tel það langt frá því að vera óverulegan áfanga.