13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

238. mál, höfundalög

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv., sem hér er lagt fyrir og komið er frá Nd., þskj. 505, á sér langan aðdraganda. Langt er síðan, að samþ. var 1959 í Nd. rökst. dagskrá, þar sem látin var í ljós sú von, að ríkisstj. léti fara fram endurskoðun á löggjöf um höfundarétt. Þá þegar var dr. Þórði Eyjólfssyni, þáv. hæstaréttardómara, falið að annast endurskoðun gildandi laga og undirbúa nýtt frv. til höfundalaga. Það frv. var lagt fyrir Alþ. árið 1962, en hlaut ekki afgreiðslu. Eftir 1962 urðu ýmsar breytingar á alþjóðlegum höfundarétti með breytingum á hinum alþjóðlega sáttmála, sem um hann gildir, Bernarsáttmálanum svonefnda. Honum var breytt í Stokkhólmi 1967 og síðar í París sumarið 1971.

Á árinu 1970 fól þáv. menntmrh. Knúti Hallssyni deildarstjóra, Sigurði Reyni Péturssyni hæstaréttarlögmanni og dr. Þórði Eyjólfssyni að taka frv. frá 1962 til endurskoðunar og breyta því, eins og hæfa þætti, m. a. til samræmis við breytingarnar á Bernarsáttmálanum. Þeir gerðu allvíðtækar breytingar á frv. frá 1962. Var það lagt fyrir Alþ. 1970, en hlaut ekki afgreiðslu. Nú hafa sömu menn enn á ný athugað frv. og breytt því nokkuð, og er það flutt, eins og þeir gengu frá því. Eins og menn sjá, er þetta mikill lagabálkur og margbrotinn, og sé ég ekki ástæðu til að rekja einstök atriði, sem þar er um fjallað. Málið er komið hingað frá Nd., og vil ég leyfa mér að láta í ljós eindregna ósk um, að hv. d. sjái sér fært að afgreiða það sem lög á þessu þingi.

Ég vil að svo mæltu leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.