17.05.1972
Efri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

238. mál, höfundalög

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til athugunar frv. til höfundalaga, sem komið er frá hv. Ed. Eins og kunnugt er, eru íslenzk höfundalög orðin mjög aldin að árum eða meira en 60 ára gömul og þarfnast tvímælalaust endurskoðunar, en þau hafa ekki verið endurskoðuð allan þennan tíma nema að því leyti, sem snertir aðild Íslands að Bernarsáttmálanum. Hér er tvímælalaust um mikið nauðsynjamál að ræða, sem náðst hefur góð samstaða og samkomulag um, og ber brýna nauðsyn til, að þetta frv. geti orðið að lögum.

Ég sagði, að gott samkomulag væri um efni frv., og á því er ekki vafi, að allir aðilar telja til mikilla bóta, að það geti orðið að lögum, en hitt er annað mál, að til eru þeir aðilar, sem telja, að viss atriði frv. hefðu gjarnan mátt vera með öðrum hætti, og það eru þá einkum rithöfundar, sem ekki eru alls kostar ánægðir með þau ákvæði, sem snerta viðskipti rithöfunda við Ríkisútvarpið. Rithöfundar hafa ekki samkv. frv. raunverulegan stöðvunarrétt gagnvart Ríkisútvarpinu, þ. e. rétt til þess að banna, að efni, sem þeir eru höfundar að, sé flutt í Ríkisútvarpinu, en slíkar heimildir og slík ákvæði eru í lögum nágrannaþjóða okkar. Og ég held, að slíkar heimildir og slík réttindi verði hreinlega að teljast til almennra mannréttinda nú á dögum, þ. e. að menn hafi samningsrétt um það, sem telst þeirra réttmæt eign. En um þetta hefur sem sé ekki orðið samkomulag, og þar af leiðir, að þetta er á þennan veg í frv., að rithöfundar hafa ekki þennan rétt. Ég vildi hins vegar undirstrika það, að ég tel, að brýna nauðsyn beri til þess, að úr þessu verði hætt og um það takist samkomulag, að þeir öðlist þennan rétt. En þar sem mér er kunnugt um það, að rithöfundar eru þess fýsandi eins og allir aðrir aðilar þessa máls, að frv. verði að lögum, og þar sem vænta má þess, að ef farið væri að breyta ákvæðum frv. að þessu leyti, þá væri það samkomulag rofið og það mundi kosta það, að frv. næði ekki fram að ganga, þá hef ég talið og fleiri, sem hefðu kannske viljað gera aths. við þetta atriði, að til þess sé ekki ástæða, eins og málin standa nú, en þetta atriði verður að taka til athugunar síðar meir.

Með þessari aths. læt ég það koma hér fram, að menntmn. mælir eindregið með því, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Nd.