24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

89. mál, orlof

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að draga umr. á langinn. Ég á ekki von á því, að það verði eins miklar umr. um þetta frv. og það, sem var síðast rætt hér í hv, þd., og vil í því sambandi vekja athygli á því, að hér er um að ræða frv. um málefni, sem hefur verið skipað með lögum í senn þrjá áratugi hér á landi. Í þessu frv. felast ýmsar breyt. frá gildandi lögum um orlof, og það er rakið í grg., hverjar þær eru. Auk þess hefur hæstv. félmrh. skýrt þær ítarlega. Ég held, að það sé óhætt að segja, að hvað sjálft frv. snertir sé aðalbreytingin sú, að orlof skuli lengjast úr 21 í 24 daga og um leið hækka sú prósentutala af launum, sem orlof er miðað við. Það kemur fram í grg. með frv., að hliðsjón hefur verið höfð af gildandi reglum um orlof í okkar nágrannalöndum, nánar tiltekið Norðurlöndunum, sem ekki er óeðlilegt að gert sé, eftir því sem við á.

Í niðurlagi grg. segir, að það hafi verið fullt samkomulag um frv., sem samið er annars vegar af fulltrúum frá vinnuveitendum og hins vegar af fulltrúum frá launþegasamtökum, — það væri fullt samkomulag um frv. að öðru leyti en um örfá atriði, sem þar greinir frá, og hæstv. félmrh. hefur látið í ljós vilja sinn um það, hvernig n. afgreiddi þau ágreiningsmál. Þau eru út af fyrir sig ekki stórvægileg, og ég held, að það sé ekki hægt að segja um neitt af þessum ágreiningsatriðum, sem talin eru upp þarna í niðurlagi grg., að þau séu stórvægileg.

Mér sýnist, að það séu allar horfur á því, að ekki verði erfitt að ná samkomulagi um afgreiðslu á frv. í þeirri n., sem það fær til meðferðar. Ég á sæti í þeirri n. Það eru að vísu ýmsar upplýsingar, sem ég mun óska eftir að fá við yfirlestur frv., og mér gefst þá tækifæri til þess í n. og sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. við þessa umr.