05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hafði orð á því við mig fyrr í þessari viku, að hann hefði mikinn hug á því, að 1. umr. þessa máls gæti lokið í þessari viku og það kæmist til n., sérstaklega með hliðsjón af því, að ríkisstj. legði áherzlu á að ljúka þinghaldinu fyrir hvítasunnu. Nú er það svo, að það hefur ekki staðið á, álít ég, þm. Sjálfstfl. að afgreiða mál hér í þinginu. Hins vegar er að vissu leyti álitamál, hversu langt má ganga í því að reyna á þolinmæði þm. að afgreiða mál á mjög skömmum tíma. Við höfum t. d. vegáætlun, sem lögð var fram hér í þinginu í dag, og það er mál sem út af fyrir sig þarf mjög vandlegrar athugunar við. Eins og ég segi, þá munum við eins og fært er gera okkar til þess að verða ekki til hindrunar því, að þinghaldi geti lokið á þeim tíma sem stjórnin óskar í dag, þó að hins vegar gætu þau atvik komið fyrir á þeim tveim vikum, sem eftir eru, að öllum sýndist eðlilegt, að eitthvað þyrfti lengra þinghald, en um það skal ég ekki spá og er það fyrst og fremst í höndum hæstv. ríkisstj.

Ég mun ekki lengja mál mitt við þessa umr. og einkum og sér í lagi vegna þess, að sú skýrsla, sem hæstv. fjmrh. vitnaði til um framkvæmd á fjáröflunaráætluninni, sem samin er núna af áætlunardeild Framkvæmdastofnunarinnar, felur að sjálfsögðu í sér mjög miklar upplýsingar. Hún gat nú ekki borizt í hendur okkar fyrr en í dag, rétt fyrir hádegi, og ég hef ekki getað lesið hana neitt, aðeins kannske litið á nokkrar blaðsíður meðan hæstv. ráðh. var að tala, sem er náttúrlega ekki góður tími til þeirra hluta. Ég get ekki varizt því að segja, að það er ekki nema eðlilegt að það setji nokkuð mikinn ugg að mönnum, er þeir sjá þá geysilegu fjárvöntun, sem virðist vera, og þá miklu þörf á fjáröflun, sem hæstv. ríkisstj. telur óhjákvæmilega. Við skulum aðeins líta á 1. gr. frv. Þar er verið að biðja um heimild til þess að gefa út til sölu innanlands ríkisskuldabréf eða spariskírteini að fjárhæð allt að 500 millj. kr. og í grg. er svo vikið að því, að þetta hafi nú ekki verið á undanförnum árum nema árlega um 75 millj. kr. en þess er svo að minnast í þessu sambandi og að því er vikið síðar, að fyrir áramótin fékk ríkisstj. heimild til að afla 200 millj. kr. með spariskírteinum á þennan hátt. Enn fremur kemur fram, ef ég skil greinina rétt, að hugsunin sé að endurselja 300 millj. af spariskírteinum, eldri spariskírteinum, sem innleyst hafa verið, þannig að hér sé í raun og veru um 1000 millj. kr. að ræða, sbr. 6. gr., en þar er einmitt talið upp, að verja eigi 1000 millj. kr. til tiltekinna opinberra framkvæmda, 640 millj. til opinberra framkvæmda plús 360 til Framkvæmdasjóðs Íslands. Síðan er einnig í 5. gr. talað um viðbótarfjáröflun og gerð grein fyrir því í grg., að sökum mikilla opinberra framkvæmda og fjárþarfa fjárfestingarsjóða er séð, að ekki verður unnt að afla alls nauðsynlegs fjármagns innanlands og því verður að freista að afla lánsfjár á erlendum mörkuðum, samtals að jafnvirði allt að 467 millj. kr. og hugsanlega 60 millj. kr. til stofnlína á Norðurlandi. Þá er þetta komið yfir 500 millj. kr. Og sjálfur greindi hæstv. fjmrh. frá því, að hér væri um 2000 millj. kr. fjárvöntun að ræða, sem mér sýnist, að sé í samræmi við það, sem kemur fram í innganginum að skýrslunni á 1. síðu, sem ég leit á, að lánsfjáröflun innan ramma áætlunarinnar til opinberra framkvæmda nemi 816 millj. kr. og svo lánsfjáröflun til Framkvæmdasjóðs til þess að sinna þörfum fjárfestingarlánasjóðanna nemi 1206 millj. kr., — þarna séu þessar 2000 millj. kr., sem þurfi að afla. Ég sé nú ekki alveg, að það sé gert ráð fyrir þessari lánsfjáröflun til hlítar í þessu frv., en það getur verið, að mér sjáist yfir það, og þarf að athuga það nánar, enda kannske hægt að fá nánari upplýsingar um það, hvernig mismunurinn er, því að mér sýnist samkv. 6. gr., að sé um 1000 millj. kr. fjáröflun að ræða og samkv. 5. gr. geti hún verið rúmlega 500 millj. kr. Þetta er nú á þeim tíma, sem mikið góðæri er í landinu og mikil þensla, og þó að ég dragi ekki í efa nytsemi allra þessara opinberu framkvæmda og einnig það, sem sjóðirnir hafa með að gera eða þurfa að lána til þá er auðvitað vafamál og spurning, hversu mikið ríkissjóður með opinberum framkvæmdum á að auka á þá þenslu, sem fyrir er í þjóðfélaginu, og hvort það getur ekki alveg eins farið svo, að það hefni sín að spenna bogann til hins ýtrasta. Ég skal ekkert fara út í það, hvernig horfurnar eru núna almennt í efnahagsmálunum. Okkur gefst tækifæri til þess. En það segir m. a. í 3. gr. skýrslunnar, að þótt nokkur slaki hafi verið á nýtingu framleiðsluafla við upphaf þessarar framvindu eftir erfiðleikaárin á sínum tíma, 1967 og 1968, megi fastlega gera ráð fyrir því, að allt þanþol sé á þrotum. Það er þá allt þanþol á þrotum. Þá er nú vel að verið.

Þá kemur einnig þetta, að þegar talað er um aðspara og reyna að koma á góðum sparnaði hjá þjóðinni, þá getum við allir verið sammála um það, en þegar útvegað er svo gífurlegt fjármagn sem með sparifjárskírteinunum er gert, 200 millj. fyrir áramót. 300 millj. endursala og 500 millj. eða sem sagt 1000 millj. kr., þá hlýtur auðvitað meginhlutinn af þessu fé að fara beint úr sparisjóðum og bönkum landsins og þá verða menn að gera upp við sig, eins og ég sagði áðan, hvort leggja skal svona mikla áherzlu á fjárfestingarframkvæmdir, því að það getur engum dulizt, að þetta hlýtur að koma niður á atvinnuvegunum í minnkuðu rekstrarfé þeirra, þar sem bankar og sparisjóðir munu fá minni aðstöðu til þess, sérstaklega bankarnir, heldur en áður að veita atvinnuvegunum rekstrarfé. Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. sagði réttilega, að gangur atvinnulífsins væri auðvitað það, sem skipti máli, en ef við sækjum fé til þeirra aðila, sem nota að miklu leyti hið almenna sparifé landsmanna til þess að fullnægja rekstrarþörf atvinnuveganna, eftir því sem hægt er, þá getum við lent í því, að þenslan verði svo mikil í fjárfestingarmálunum, að rekstur atvinnuveganna lamist í stórum stíl. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál, og ég skal ekki fullyrða meira um það heldur en ég nú hef gert og vil þá áskilja mér og mínum flokki rétt til þess við síðari meðferð málsins að gera frekari athuganir og hugleiðingar við það, á hvaða leið við erum með þessu móti. Mér skildist, að þegar gerð var grein fyrir Iðnlánasjóði, þá væri áætluð útlánaþörf 151 millj. Mér leikur nokkur forvitni á að vita, hvort tekið er tillit til 10 millj. kr. aukins framlags úr ríkissjóði samkv. frv., sem ég hef flutt og er til meðferðar í þinginu um að auka ríkisframlagið úr 15 millj. í 25 millj.

Svo skildi ég það einnig á máli hæstv. ráðh„ að fyrir verulegri endurskipulagningu í fiskiðnaðinum, þ. e. endurbyggingu og nýbyggingu hraðfrystihúsanna væri í raun og veru ekki séð nema að sáralitlu leyti í þeirri fjáröflun, sem hér er um að ræða, og það er alvarlegt mál, ef ég hef skilið það rétt. En eins og ég sagði áðan, þá verður vissulega að hafa fyrirvara á því, sem maður við fyrstu sýn festir sjónir á í sambandi við svona mál og það er eðlilegra og hefur kannske verið svo á undanförnum árum líka, að það sé frekar ætlazt til þess, að stjórnarandstaðan gefi sér tóm til þess að athuga það undir meðferðinni í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, þegar um jafnyfirgripsmiklar skýrslur er að ræða eins og þá, sem nú hefur verið afhent í dag.

Ég sé hér á bls. 4 í grg. með frv., að í síðasta liðnum er talað um halla á framkvæmdaáætlun 1971, sem talinn er hafa verið eitthvað 76 millj. kr. og skiptir ekki miklu máli. Svo segir enn fremur:

„Enda þótt æskilegt hefði verið að jafna hallann að fullu á þessu ári, þá var horfið að því ráði að skipta hallanum á tvö ár með tilliti til þess, að fjáröflunarmöguleikana verður að telja fullnýtta.“

Það verður að skipta halla frá fyrra ári, 76 millj., á tvö ár, þar sem telja verður fjáröflunarmöguleikana fullnýtta. En nú spyr ég: Ef flugbrautin í Keflavík hefði ekki komið til með þeirri afgreiðslu, sem varð, hvar átti þá að ná í þessar 500–1000 millj. kr., sem til þeirra framkvæmda var ætlað, því að okkur var sagt á sínum tíma, að það hefði verið gert ráð fyrir að afla fjár til þess í framkvæmdaáætlun? En ég skil auðvitað, að hún er ekki í framkvæmdaáætluninni núna, því að eitthvað hefur þá þurft að víkja, úr því að þessi áætlun um fjáröflun er túlkuð þannig, að það er ekki einu sinni hægt að jafna 76 millj. kr. halla nema á tveimur árum, af því að fjáröflunarmöguleikarnir verða að teljast fullnýttir. Þetta er út af fyrir sig fróðlegt að fá upplýsingar um.

Ég vil svo áskilja mér og þm. Sjálfstfl. rétt til þess að koma fram með frekari aths. um þetta mál, eftir að þeir hafa fengið tækifæri til þess að kynna sér það í fjhn., sem fær það til meðferðar, en við leggjum ekki stein í götu þess, að 1. umr., eins og hæstv. fjmrh. hefur óskað eftir, geti okkar vegna lokið í dag og málinu verði vísað til hv. n.