05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að lengja þessar umr. mikið, en ég get þó ekki látið hjá líða að fara hér upp í ræðustólinn til þess að lýsa ánægju minni og raunar þakklæti til hæstv. fjmrh. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér áðan, þegar hann lýsti yfir því, að fjárveiting til Hafnarfjarðarvegar gegnum Kópavog væri til frekari athugunar og meðferðar hjá honum. Fljótlega eftir að frv. um lántökuheimildir vegna framkvæmdaáætlunar 1972 var lagt fram og ég hafði séð, að sú fjárveiting, sem ætluð var til þessarar framkvæmdar, gerði lítið meira en greiða áfallandi vexti og afborganir af lánum vegarins, þá átti ég samtal og hef átt fleiri en eitt samtal, við hæstv. ráðh. um afleiðingar þess, ef ómögulegt yrði að vinna að neinum framkvæmdum við veginn á þessu ári. Framkvæmdum er þannig komið, að ef þær ætti að stöðva nú um eitthvert skeið, þá mundi það verða til mjög mikilla vandræða fyrir kaupstaðinn vegna þess einfaldlega, að þeim er ekki lengra komið en svo, að öll innanbæjarumferð um kaupstaðinn líður stórlega fyrir það, ef framkvæmdum verður ekki hægt að halda lengra áfram og framkvæma nauðsynlegan lágmarksáfanga í vegagerðinni, er gerir það mögulegt að tengja innanbæjarumferðina við þá vegagerð, sem þarna fer fram.

Ég skal ekki tefja tíma hv. d. með því að lýsa því hér, í hverju þessir erfiðleikar eru fólgnir. Geta þess aðeins, að mörg fyrirtæki, sem setzt hafa að í Kópavogskaupstað á undanförnum árum, hafa með undirskriftum lýst yfir verulegum áhyggjum sínum af því, að það kunni að leiða til þess, að þau þurfi að flytja sína starfsemi úr kaupstaðnum, ef ekki fáist greiðfærari innanbæjarumferð en nú er. Það gleður mig því sérstaklega að heyra þessa yfirlýsingu hæstv. fjmrh., og í fullu trausti þess, að hann muni finna leiðir til þess að fjármagna frekari framkvæmdir en mögulegt væri að gera innan þess ramma, sem áætlunin heimilar nú, þá mun ég að sjálfsögðu styðja framgang þessa frv.