13.05.1972
Neðri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. sagði í hinum almennu stjórnmálaumræðum í gærkvöld, að andrúmsloftið væri breytt á Íslandi. Hann valdi sér síðan haganleg lýsingarorð til þess að gera hlustendum sínum grein fyrir, með hvaða hætti andrúmsloftið væri breytt. Hann sagði, að nú ríkti stórhugur og djörfung og framkvæmdavilji á Íslandi og nú ætti þjóðin von á því að verða leyst úr ánauð erlends herveldis. Nú loksins gætum við farið að lifa sem frjálsir menn í frjálsu landi.

Þessi ræða hæstv. iðnrh. var mjög eftirtektarverð, ekki vegna þess, sem ráðh. sagði, heldur fyrir hitt, til hvaða hlustenda hann talaði og fyrir þá pólitísku sálfræði, sem ráðh. augsýnilega notaði. Það er öllum ljóst, hverjir það eru, sem nú ráða ferðinni í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar, og kjósendur Framsfl. gera sér nú betur grein fyrir því en áður, að ráðh. og þm. Framsfl. hafa ekkert þar um að segja. Það eru ráðh. Alþb. sem hafa þar nær öll völd. Þess vegna flutti iðnrh. ræðu sína í gærkvöld til kjósenda Framsfl., ef vera mætti, að honum tækist að slá ryki í augu þeirra og með hástemmdum lýsingarorðum sýna þeim fram á, hversu andrúmsloftið á Íslandi hefði gerbreytzt og hversu dásamlegt væri orðið á Íslandi eftir að formaður Framsfl. væri orðinn forsrh. og einn af forustumönnum Framsfl. á fjármálasviðinu orðinn fjmrh. Það er að sjálfsögðu hægt að halda margar ræður um andrúmsloftið á Íslandi, hvort heldur þær verða eðlisfræðilegar eða stjórnmálalegar. Og það er hægt að velja fjölmörg lýsingarorð, sem við getum talið, hver sá sem ræðuna heldur, að viðeigandi séu. Allt verður nú þetta orðagjálfur, sem fellur í gleymsku, en það getur sjálfsagt borið einhvern stundarárangur og sefað óánægða kjósendur, til þess að forustumenn í stjórnmálum geti haldið áfram að sitja í ráðherrastólum enn um sinn.

Hæstv. iðnrh. er enginn viðvaningur í stjórnmálum. Allt sitt líf hefur hann lifað og hrærzt í heimi stjórnmálanna. Hann gerði það hins vegar að hlutskipti sínu að gerast málsvari yfirráðastefnu erlends heimsveldis og því oft orðið að nota fagurgalann í málflutningi sínum, og honum tókst mjög sæmilega upp í gærkvöld, en um eftirtekjuna verður ekki vitað fyrst um sinn. En hæstv. iðnrh. fór ekki með rangt mál í gærkvöld, síður en svo. Andrúmsloftið á Íslandi hefur breytzt. En hvernig munu spjöld sögunnar í framtíðinni segja, að andrúmsloftið hafi breytzt? Skyldi sagan, þegar hún verður skrifuð, verða sammála hæstv. iðnrh. í ræðu hans í gærkvöld? Ég held ekki. En það skiptir miklu, hvað sagan segir, því að hún er hinn hlutlausi dómur, og þar munu tölurnar tala sínu máli. Skýrendur hinnar pólitísku sögu munu fyrst og fremst benda á, að andrúmsloft efnahags- og fjármálalífs á Íslandi muni hafa breytzt. Þeir munu benda á, að í stað skynsamlegrar efnahags- og fjármálastefnu áratugsins 1960–1970, sem byggð var á ákveðinni samræmdri stefnu vegna vaxandi rannsókna á þjóðarbúskapnum, samfara frjálsum athöfnum einstaklingsins, er hafði það í för með sér, að eitt mesta framfaratímabil í sögu íslenzku þjóðarinnar varð til, stefnir nú eftir valdatöku núv. vinstri stjórnar í átt til aukinnar þenslu í efnahagsmálum, meiri halla á viðskiptajöfnuði og meiri verðbólgu en hér hefur átt sér stað í nær 30 ár.

Flestar ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur framkvæmt frá því, að hún kom til valda, hafa stefnt í þessa átt. Frægasta dæmið er afgreiðsla fjárlaga. Á einu ári hækka fjárlög ríkisins úr 11 milljörðum og 500 millj. kr. í 16 milljarða og 900 millj. eða um 5 milljarða og 400 millj., sem er meiri hækkun á útgjöldum en dæmi eru til um. Sú framkvæmda- og fjáröflunaráætlun, sem nú er lögð fram, er með sama markinu brennd og aðrar aðgerðir ríkisstj. Hún felur í sér mikla aukningu útgjalda og ráðstafanir til fjáröflunar innanlands og utan, sem hljóta að auka þann vanda, sem við er að etja, í stað þess að draga úr honum. Í frv. og í framkvæmdaáætluninni er gert ráð fyrir útvegun fjár að upphæð 1700 millj. kr. í stað þess, að á s. l ári var gert ráð fyrir útvegun fjár til framkvæmdaáætlunar að upphæð 155 millj. kr. Þessar 1700 millj. eru þannig fengnar eða þannig er hugsað að fá þær: 500 millj. með útgáfu spariskírteina nú, 200 millj. frá því að spariskírteinaútgáfan var samþ. í des. s. l., 95 millj. með happdrættisláninu, 240 millj. annað innlent lán, sem ekki hefur verið útvegað, og svo 665 millj. útlend lán. Það liggur í augum uppi, að slík framkvæmda- og fjáröflunaráætlun, sem lögð hefur verið fram, stefnir að því, sem ég gat um áðan, að auka á verðbólguna meira en nokkru sinni fyrr. Af sparifé landsmanna var gert ráð fyrir á s. l. ári, að rynnu 75 millj. kr. í þá framkvæmdaáætlun, en hér er gert ráð fyrir 795 millj. kr. eða rúmlega tífalt meira heldur en á s. l. ári. Er nokkur furða, þó að fyrirsvarsmenn viðskiptabankanna, sem verða að sjá atvinnulífinu fyrir rekstrarfé, séu uggandi um hag atvinnurekstrarins? Er nokkur furða, þó að þeir á fundi fjhn. lýsi yfir því, að þeim finnist hér svo langt gengið, að þeir geri sér ekki grein fyrir því, með hvaða hætti eigi að veita atvinnurekstrinum rekstrarfé á þessu ári?

Núv. ríkisstj. hefur látið mjög í veðri vaka, að áætlanagerð skuli aukin og efld og framkvæmdum raðað í forgangsröð, þannig að þær, sem mikilvægari væru, gengju fyrir öðrum. Eins og alkunnugt er, var sett á laggirnar Framkvæmdastofnun ríkisins nú á þessu ári í því skyni að vinna að þessum málum undir yfirstjórn sjö manna þingkjörinnar stjórnar og þriggja manna framkvæmdaráðs stjórnarflokkanna sjálfra, hinna svokölluðu „pólitísku kommissara.“

Sú framkvæmda- og fjáröflunaráætlun, sem nú er lögð fram, er fyrsta áætlunin, sem runnin er undan rifjum hinnar nýju stofnunar. Ekki ber þó þessi áætlun nein merki um bætt vinnubrögð eða eflingu áætlunargerðar frá því, sem áður var, nema síður sé. Jafnframt felur áætlunin ekki í sér neitt skipulegt val á milli framkvæmda og verkefna, sem ætti þó að vera annar megintilgangur slíkrar áætlunar.

Skýrsla fjmrh. er lögð óvenju seint fram. Hún er lögð fram nú í þinglok, 5. maí, en á s. l. ári var hún lögð fram 18. marz. Að formi til fylgir skýrslan nákvæmlega þeim skýrslum, sem fyrrv. fjmrh. hefur gefið um margra ára skeið. Innihald skýrslunnar, áætlunin sjálf og frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972 bera þess hins vegar glögg merki, að hvorki hin nýja stofnun né ríkisstj. sjálf hefur náð neinum tökum á þeim verkefnum, sem fyrir liggja. Verkefnið er að meta framkvæmdagetu í ljósi almenns ástands og þróunar efnahagsmála og velja framkvæmdir innan þess ramma, sem það mat setur. Þetta er vandasamt verkefni, sem samhentri ríkisstj. hefur þó tekizt að leysa á undanförnum árum. Nú bregður hins vegar svo við, að engin alvarleg tilraun er gerð til að finna raunhæfan ramma fyrir framkvæmdagetuna. Á sama tíma sem vinnuaflsskortur er meiri en um langt skeið og ekki eru horfur á, að unnt sé að reka sjávarútveg og iðnað með fullum afköstum af þeim sökum, er stefnt að aukningu framkvæmda, sem að mati fjmrh. kallar á 1000 manna aukningu. En slíkt mundi að sjálfsögðu valda vaxandi erfiðleikum hjá undirstöðuatvinnuvegunum. Á sama tíma sem minnkandi sparnaður í landinu torveldar bönkum að fullnægja þörf atvinnuveganna fyrir rekstrarfé á að tífalda sölu spariskírteina og annarra skuldabréfa og draga þannig miklar fjárhæðir frá bönkum og sparisjóðum. Á sama tíma og viðskiptajöfnuður landsins er með miklum halla er stefnt að auknum framkvæmdum, sem ásamt vaxandi neyzlu munu, samkv. mati fjmrh. sjálfs, leiða til 18–20% aukningar innflutnings á þessu ári, enda þótt gert sé ráð fyrir minni innflutningi skipa og flugvéla en árið áður.

Hvorki skýrsla fjmrh. né frv. um lántökuheimildina bera þess merki, að nokkur alvarleg tilraun hafi heldur verið gerð til þess að velja á milli framkvæmda og viðfangsefna. Enga röksemdafærslu eða skýringar er að finna fyrir þeirri ráðstöfun fjár, sem áætlunin gerir ráð fyrir.

Í útvarpsumræðum í gærkvöld spurði forsrh.: Hvað vildu þeir skera niður? Hvers óskuðu þeir? Hvað vildu þeir láta framkvæma? Og átti hann þá við stjórnarandstöðuna. Svipuðum spurningum var beint til stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu fjárlaga frá hæstv. forsrh., en honum þá bent á, að hann hefði í sínum málflutningi við síðustu kosningar bent á, að þær aðferðir, sem þáv. ríkisstj. og stjórnarflokkar notuðu til vals á framkvæmdum, væru með öllu ómögulegar. Nú þyrfti að breyta um og fela Framsfl. forustu í þessum málum. Þegar hann svo stendur frammi fyrir því, að fram undan er mikil verðbólga, þegar hann stendur frammi fyrir því stjórnleysi í efnahags- og peningamálum, sem núv. ríkisstj. stendur að, þá er hrópað til þeirra, sem áður voru gagnrýndir, og spurt: Hvað viljið þið? Hvað lögðuð þið til?

Af öllum þessum vinnubrögðum er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá, að innan ríkisstj. og Framkvæmdastofnunarinnar hafi í sífellu togazt á mismunandi sjónarmið, án þess að tekizt hafi að ná almennri yfirsýn yfir viðfangsefnið og samræma sjónarmiðin innan marka raunhæfrar framkvæmdagetu. Í samræmi við þetta er sú framkvæmdaáætlun, sem hér hefur verið lögð fram, í rauninni engin áætlun, heldur hrærigrautur alls konar fyrirætlana. Verkið, sem leysa þarf af hendi, hin raunverulega áætlunargerð, er enn þá óunnið, og það er auðsjáanlega ekki á færi ósamstæðrar og forustulausrar ríkisstj. að leysa það af hendi. Enda má sjá, að ráðh. Alþb. notfæra sér forustuleysið og móta þá stefnu, sem hér er farin í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar í dag.

Ég hef haldið því fram, að ráðh. Alþb. mótuðu þessa stefnu, enda er ríkið hvarvetna að yfirtaka peninga og hlaða undir sig völdum. Fjárlögin eru höfð svo há, að skatta einstaklinga og fyrirtækja verður að hækka burtséð frá því, hvort það er réttlátt eða ekki. Ríkisstj. hyggst með framkvæmdaáætluninni taka meira sparifé en nokkru sinni áður auk þess sem byrjað er á nýrri útgáfu, víxlaútgáfu af hálfu ríkissjóðs, sem aldrei hefur þekkzt áður, og með þessu móti rýrna möguleikar lánsfjárstofnananna til þess að sinna atvinnuvegunum. Öll eru þessi vinnubrögð með þeim hætti, að ég læt mér ekki detta í hug, að þau séu runnin undan rifjum hæstv. fjmrh. Ég trúi því ekki, að hæstv. fjmrh., sem m. a. Á undanförnum árum hefur gagnrýnt efnahags- og fjármálastefnu þáv. hæstv. ríkisstj., standi að þeim fjárlögum og þeirri framkvæmdaáætlun, sem hér er til umr.

Skömmu fyrir síðustu kosningar talaði hæstv. fjmrh. til þjóðarinnar og óskapaðist þá mjög yfir því, að fjárlög hefðu hækkað á fjórum árum úr 4 milljörðum og 700 millj. kr. í 11 milljarða og 500 millj. kr. Ég trúi því ekki, að sá maður, sem gagnrýnir hluti með þessum hætti, standi að eða móti stefnu um hækkun fjárlaga úr 11 500 millj. í 16 900 millj. Ég trúi því ekki á ráðh., sem í ræðu á haustþinginu 1970 um stöðugt verðlag og atvinnuöryggi sagði:

„Framsfl. er eini stjórnmálaflokkur landsins, sem látið hefur af völdum, af því að honum tókst ekki að ná samstöðu um leið til baráttu gegn verðbólgunni, sem hann taldi nauðsyn bera til.“

Ég trúi því ekki, að þessi ráðh., sem þarna talaði í stjórnarandstöðu, sé forustumaður fyrir þeirri verðbólgustefnu, sem fjárlög ríkisins fyrir 1972 og sú framkvæmdaáætlun, sem hér er til umr., boðar. Ég trúi því ekki á þennan mann, sem í þessari sömu ræðu sagði: „Framsfl. er ljóst, að ef nú á að ná árangri í baráttunni gegn verðbólgunni, þarf markvissa stefnu og þrotlaust starf. Sýndarmennska og uppþot rétt fyrir kosningar gagnar þá lítið, eins og ljóst er af fyrri vinnubrögðum núverandi valdhafa, svo sem ég mun víkja að síðar.“ Ég trúi því ekki, að sá maður, sem gagnrýndi fráfarandi ríkisstj. með þessum orðum varðandi stefnu hennar í efnahags- og fjármálum, standi nú að því frv., sem hér er til umr., og fjárlagastefnu ríkisstj., sem er meira verðbólguaukandi heldur en nokkur önnur s. l. 30 ár.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja fleiri ummæli hæstv. fjmrh. Hann er búinn að vera lengi þm., hann er búinn að ræða lengi fjármál ríkisins. Hann hefur gagnrýnt þau af hálfu framsóknarmanna og verið einn af þeim, sem hefur talið sig hafa ráð undir rifi hverju, bara ef hann og hans flokkur fengi forustuna í stjórnmálum landsins, og þá ævinlega haft á bak við eyrað, að hann þá tæki við fjármálum ríkisins og þá mundi þetta allt saman verða lagfært.

Ég vil fá að heyra það hjá hæstv. fjmrh., að hann standi að þessari stefnu, en ekki ráðh. Alþb., eins og ég gerði grein fyrir hér í upphafi. Ef hæstv. fjmrh. vill vera forsvarsmaður þeirrar fjármálastefnu, sem rekin er af ríkisstj., og ég skil það mætavel, að hann komi hér upp og telji hana sína, þá um leið gerir hann að engu alla þá gagnrýni, sem hann hefur haft uppi um áratuga skeið á fjármála- og efnahagsstefnu fyrrv. ríkisstj. Öll sú gagnrýni og öll þau orð, sem hann hefur látið falla um þá efnahagsstefnu, verða að skoðast sem áróður, kosningaáróður, aðeins til þess að reyna að villa fyrir kjósendum, reyna að blekkja þá til þess að Framsfl. næði þeirri aðstöðu í íslenzkum stjórnmálum, sem hann hefur náð í dag.

Sá vitnisburður prófessors Ólafs Björnssonar, sem hæstv. ráðh. hefur oft vitnað til, að verðbólgan muni nú verða meiri hér á landi heldur en nokkru sinni síðan 1942, er vitnisburður, sem ég trúi varla, að hæstv. fjmrh. vilji telja vitnisburð fyrir sig. Það skyldi þó ekki vera, eins og ég benti á hér í upphafi, að stefnan sé mótuð af ráðh. Alþb. og það sé aðeins hugsun ráðh. Framsfl., að nú sé gaman að vera Íslendingur, eins og hæstv. forsrh. sagði í útvarpsumræðunum í gær. Maður mátti búast við því að heyra á eftir sönginn „Nú liggur vel á mér“! l. minni hl. fjhn. mun ekki standa að samþykkt þessa frv., með tilvísun til nál. og þess, sem ég hef hér sagt, hvort sem hæstv. fjmrh. viðurkennir að vera forustumaður þessarar stefnu eða ekki. Við flytjum hins vegar ásamt öðrum nm. brtt. við frv. sem sumpart er til þess að leiðrétta og samræma á milli áætlunarinnar. eins og hún hefur verið lögð fram, og frv., og sumpart til þess að koma framkvæmdum af stað, sem frv. ekki gerði ráð fyrir, en nm. telja engu að síður nauðsynlegar og að taka hefði átt meira tillit til við samningu frv.