13.05.1972
Neðri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Öllum Íslendingum mun ljóst, að þjóðin býr nú við betri aðstæður í efnahagsmálum en nokkru sinni fyrr á síðari áratugum a. m. k. Enginn getur hins vegar látið sér hugkvæmast þá skýringu á þessu, að ástæðan sé sú, að Íslendingar fengu nýja ríkisstj. á miðju s. l ári. Síðasta heimildin, sem við höfum um efnahagsafkomu þjóðarinnar, er einmitt um s. l. ár, en núv. ríkisstj. var við völd aðeins um helming þess árs. Afkoma undanfarins árs, hvað þá áranna 1970 og 1969, gæti með engu móti hafa orðið slík sem hún varð fyrir tilverknað núv. ríkisstj. Ef við skoðum þjóðarframleiðsluna undanfarin þrjú ár, 1969, 1970 og 1971, þá kemur í ljós, að hún hefur vaxið um 18.5%, og er það meiri vöxtur en nokkurn tíma hefur áður átt sér stað á þriggja ára tímabili. Vegna hagstæðra og batnandi viðskiptakjara hefur það fé, sem þjóðin hefur haft til raunverulegrar ráðstöfunar, verið meira en þau verðmæti, sem hún framleiddi sjálf. Þjóðartekjur hafa m. ö. o. verið meiri en þjóðarframleiðsla. Og það fé, sem þjóðin hefur ráðstafað, hefur verið miklu mest, því að til viðbótar því sem góð viðskiptakjör auka þjóðarframleiðslu og gera þjóðartekjur meiri en þjóðarframleiðslu þá hefur þjóðin enn fremur haft erlent lánsfé til ráðstöfunar, svo að verðmætaráðstöfun hefur verið miklu mest, enn meiri en þjóðarframleiðsla og enn meiri en þjóðartekjur. Á undanförnum þremur árum hefur verðmætaráðstöfunin aukizt um hvorki meira né minna en 48% og er þá talin saman verðmætaráðstöfun til einkaneyzlu og til hvers konar fjárfestingar. Það er ómótmælanleg staðreynd, að eftir að Íslendingar yfirunnu hina miklu efnahagsörðugleika, sem á þeim dundu á árunum 1967–1968, — það tókst með markvissum ráðstöfunum á sínum tíma, sem komu illa við almenning, eins og hlaut að verða, en hefur hins vegar leitt í ljós, að voru nauðsynlegar, vegna þess að í kjölfar þeirra erfiðleika, sem þá dundu á, hefur komið afturbati og meira að segja sívaxandi afturbati, sem náði hámarki á s. l ári, á árinu 1971, — í framhaldi af þessum öra afturbata þriggja s. l. ára, hefur nú á allra síðustu mánuðum. einmitt nú á allra síðustu mánuðum dregið alvarlegar blikur á loft. Einmitt á þeim tíma eða síðan núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda eða þó öllu frekar síðan á s. l. hausti hefur efnahagsástandið á Íslandi mótazt af sívaxandi þenslu. Það hefur komið í ljós, að mikill þrýstingur hefur verið á verðlag. Peningatekjur í landinu hafa af mörgum ástæðum farið mjög vaxandi og stuðlað að hækkun verðlags. Jafnframt hefur í vaxandi mæli borið á skorti á vinnuafli. Það hefur verið áberandi, að innflutningur hefur á undanförnum mánuðum aukizt mjög hröðum skrefum. Jafnframt sýnir athugun á reikningum eða skýrslum bankakerfisins það, að sparnaður fer minnkandi. Þegar slíkt gerist, að í kjölfar mjög batnandi efnahags, stóraukinnar þjóðarframleiðslu og sívaxandi þjóðartekna fer að bera á vaxandi þenslu, skorti á vinnuafli, hækkandi verðlagi, rýrnandi gjaldeyrisstöðu, þá er einmitt tími til kominn fyrir ábyrga ríkisstj. að huga að gangi mála og grípa í taumana, gera ráðstafanir til þess að samræma eftir því sem frekast er unnt innlenda eftirspurn annars vegar raunverulegum vexti þjóðarteknanna hins vegar. Það er undir þessum kringumstæðum, sem gildi áætlunargerðar er sérstaklega mikið. Það er einmitt undir þessum kringumstæðum sem raunhæf áætlunargerð getur sýnt, hvers hún er megnug sem hagstjórnartæki, ef henni er vel og skynsamlega beitt. Þess vegna var það í sjálfu sér fagnaðarefni, að ríkisstj. skyldi láta þess getið í stjórnarsáttmála sínum á s. l. sumri og staðfesta það í frv. sínu um Framkvæmdastofnun ríkisins, að hún hugsaði sér að beita áætlunargerð eða halda áfram að beita áætlunargerð í vaxandi mæli sem hagstjórnartæki. En á undanförnum áratug hafði verið tekin upp hér á Íslandi víðtæk áætlanagerð, sem fór vaxandi ár frá ári og sýndi stöðugt aukið gildi sitt fyrir skynsamlega hagstjórn. Einmitt þess vegna var þess að vænta, að hæstv. ríkisstj. með tilliti til skoðunar á þeirri þróun, sem þarna er að bera á í íslenzkum efnahagsmálum, mundi leggja á það sérstaka áherzlu að vanda nú vel til framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1972 og hafa að grundvallarsjónarmiði þeirrar áætlunargerðar að hamla gegn vaxandi þenslu, að beita henni til þess að koma í veg fyrir verðbólgu og tryggja þannig kaupmátt launa og áframhaldandi batnandi hag með heilbrigðum hætti.

Því frv., sem hér liggur fyrir, er ætlað að veita ríkisstj. nauðsynlegar lántökuheimildir til að standa undir þeirri framkvæmdaáætlun, sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fyrir hið háa Alþ. En skoðun á þeirri framkvæmdaáætlun og því frv., sem hér liggur fyrir, hlýtur að leiða til þess harða dóms, að bókstaflega ekkert tillit sé tekið, hvorki í framkvæmdaáætluninni né heldur í fjáröflunarfrv., til þeirra raunverulegu hættumerkja, sem fram undan eru í íslenzku efnahagslífi. Þegar þannig háttar, eins og nú á sér stað, að í kjölfar mjög vaxandi þjóðarframleiðslu og mjög vaxandi þjóðartekna fer að bera jafngreinilega á ofþenslueinkennum eins og átt hefur sér stað hér síðasta misserið, þá er það skylda ábyrgrar og skynsamrar ríkisstj. að grípa í taumana og einmitt að beita áætlanagerð til þess að samræma hina einstöku þætti þjóðarbúsins, þannig að ofþenslunni linni og heildarframþróun geti átt sér stað með samræmdum hætti. En sú framkvæmdaáætlun, sem hér er raunverulega til umr., og tekjuöflunarfrv. til hennar bera þess engan veginn vott, að ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir því, hverjar hættur eru hér á ferð, né heldur að hún hafi vilja til þess að grípa til þeirra ráðstafana, sem þarf til þess að hamla hér á móti.

Við þær aðstæður, sem nú eru í íslenzku efnahagslífi, þegar um mikið hágengi er að ræða og hættu á stórkostlegri þenslu, þarf ríkisvaldið að hafa forustu um heilbrigt aðhald í efnahagsmálum. Þá ber ríkisstj. að hafa forustu um það, að eftirspurn í peningum sé samræmd raunverulegri framboðsgetu í þjóðarbúinu, að eftirspurn í peningum sé samræmd hinni raunverulegu gjaldeyrisöflun, sem á sér stað. En því er nú verr og miður, að því er ekki að heilsa í framkvæmdaáætluninni eða þessu frv., sem hér er um að ræða. Hér er enn fylgt þeirri sömu stefnu, sem mótaði fjárlagaafgreiðsluna, þegar útgjöld fjárlaga voru stóraukin. Hér er enn um það að ræða, að gert er ráð fyrir stórauknum framkvæmdum af hálfu hins opinbera í öllu mögulegu skyni. Ef bornar eru saman framkvæmdaáætlun síðastliðins árs og framkvæmdaáætlun núna, þá kemur í ljós, að heildarframkvæmdir á framkvæmdaáætluninni í fyrra voru 778 millj., en eru nú 2022 millj. eða næstum þrisvar sinnum meiri. Í framkvæmdaáætluninni í fyrra var gert ráð fyrir að afla fjár til framkvæmdanna þannig, að ráðstöfunarfé Framkvæmdabankans og spariskírteinalán voru áætluð samtals 623 millj. kr., heildarframkvæmdirnar voru fyrir 778 millj. kr. Þess, sem á vantaði, átti að afla með hagnýtingu á vörukaupalánum í Bandaríkjunum og útgáfu viðbótarskírteina, 75 millj. kr. Raunveruleg fjárvöntun, þegar framkvæmdaáætlun í fyrra var lögð fram, var því 155 millj. kr. af 778 millj. kr. og það bil átti að brúa með þeim hætti, sem ég gat um áðan, og var brúað með þeim hætti. En þegar þessi framkvæmdaáætlun er skoðuð út frá sama sjónarmiði, kemur í ljós, að með hliðstæðum hætti og í fyrra var aflað 623 millj. kr. af 778 millj. kr. fjárþörf er nú aflað 595 millj. kr. af 2022 millj. kr. fjárþörf. Bilið, sem þarf að brúa með sérstökum hætti og var í fyrra 155 millj. kr., er því nú rúmar 1400 millj. kr. eða næstum tíföld sú upphæð, sem um var að ræða í fyrra, og þetta bil á nú að brúa fyrst og fremst með stóraukinni skuldabréfaútgáfu ríkisins. Í stað þeirra 75 millj. kr. í skuldabréfum, sem útgefin voru undir árslokin til að standa undir framkvæmdaáætluninni í fyrra, og í stað þeirra 75 millj. kr. í nýjum skuldabréfum, sem gefin voru út til að brúa bilið á framkvæmdaáætluninni 1971, á nú að gefa út ný bréf að upphæð 500 millj. kr., eða allt að sjö sinnum hærri upphæð, auk 200 millj. kr., sem eru til ráðstöfunar frá fyrra ári, og 95 millj. í bréfum, sem þegar hafa verið gefin út vegna vegagerðar á Skeiðarársandi. Heildarskuldabréfaútgáfan í ár verður því um tíföld á við það, sem gefið var út af nýjum skuldabréfum í fyrra, og er það í fullu samræmi við það, sem ég sagði áðan, — hafði fengið þá niðurstöðu með öðrum hætti, — að hin sérstaka fjáröflun, sem verður í ár nauðsynleg, er um það bil tíföld á við það, sem hún var í fyrra. Það gefur auga leið, að jafn stórfelld aukning á framkvæmdamagni og skuldabréfaútgáfu getur ekki orðið án nýs þrýstings á verðlagið, og þar með er hún orðin orsök að aukningu þeirrar verðbólgu, sem að öðru leyti er þörf á að draga úr.

Þá er og þess að geta, að skuldabréfaútgáfa dugar ekki til að brúa allt bilið á milli hinnar eðlilegu fjáröflunar, sem ég vildi kalla svo, og heildarmagns framkvæmdanna. Þó að skuldabréfaútgáfa sé tífölduð, dugar það ekki að öllu leyti til. Það verður einnig að auka erlendar lántökur. Þær munu í ár verða 632 millj. kr. til ýmissa framkvæmda og opinberra sjóða, samanborið við 80 millj. kr. í fyrra, og er þar líka um varhugaverða þróun að ræða. Erlendar lántökur verða í ár næstum átta sinnum meiri en þær voru í fyrra. Þetta mun að vísu hjálpa upp á greiðslujöfnuðinn, en heilbrigt er það ekki, þegar haft er í huga, að heildarupphæðin lánuð til langs tíma er nú orðin 17 milljarðar kr. og greiðslubyrðin mun í ár nema um 300 millj. kr. Þetta eru þær tölur, sem voru í framkvæmdaáætluninni, og 1000 millj. kr. — ég biðst afsökunar auðvitað. Þessar tölur eru miðaðar við það, sem stendur í framkvæmdaáætluninni og því frv., sem hér er um að ræða.

Það er rétt að vekja athygli á því, þó að ég geri ekki neitt sérstakt veður út af því, að það hefur ekki einu sinni tekizt að hafa fullt samræmi á milli framkvæmdaáætlunarinnar og frv., þar ber nokkuð á milli, en úr því skal ég samt ekki gera mikið. Á hitt tel ég mig ekki komast hjá að minnast, að þó að fæðingartími framkvæmdaáætlunarinnar og frv. hafi verið lengri en nokkru sinni áður, þá tókst samt ekki að koma öllum fyrirætlunum ríkisstj. inn í framkvæmdaáætlunina og frv. og þess vegna varð hæstv. ríkisstj. að biðja fjhn. þessarar hv. d. á síðustu stundu, eftir að frv. og áætlunin höfðu verið lögð fram, að flytja brtt. um verulegar hækkanir, um hækkanir, sem nema hvorki meira né minna en 286 millj. kr. á lánsheimildunum. M. ö. o.: þegar frv. er lagt fram, eftir að framkvæmdaáætlunin hefur verið í smíðum í marga mánuði, þá er ríkisstj. ekki enn búin að koma sér saman um, hvaða heimildir hún vill raunverulega biðja hið háa Alþ. um, og nú fyrir tveim dögum aðeins er lögð fram við fjhn. beiðni um að auka enn heimildir ríkisstj. um 286 millj. kr. Þetta er eitt dæmi af mörgum, sem taka af öll tvímæli um það, að því fer víðs fjarri, að þessi framkvæmdaáætlun eða þetta frv. sé eins rækilega og vel undirbúið og nauðsynlegt væri.

Undir þessum kringumstæðum, þegar samþ. eru hæstu fjárlög í sögu landsins í mesta góðæri, sem yfir landið hefur gengið, en þegar farið er að bera verulega á hættumerkjum ofþenslu og vaxandi verðbólgu, hefði það átt að vera skylda ríkisstj. að gera samræmt átak í íslenzkum efnahagsmálum til að stemma stigu við ofþenslunni, til að stemma stigu við verðbólguaukningu. Ég þykist vita, að það sé sagt af hálfu hæstv. ríkisstj., að í þessum orðum mínum felist andmæli við þeirri aukningu opinberra framkvæmda, sem hér er um að ræða. En orð mín má samt ekki skilja þannig. Það, sem er mergur málsins, það, sem ég vil leggja megináherzlu á, er það, að það er skylda ríkisstj. að gera sér grein fyrir því, hvaða heildarframkvæmdamagn opinberra aðila og einkaaðila er samrýmanlegt þjóðarframleiðslunni eins og hún er núna, heilbrigðum sparnaði og þeirri aðstöðu, sem við búum við gagnvart öðrum þjóðum. Af þessu má ekki draga þá ályktun, að endilega þetta opinbera framkvæmdamagn sé í sjálfu sér óframkvæmanlegt, óæskilegt eða jafnvel óeðlilegt, en ef menn vilja þetta magn opinberra framkvæmda, þá verða menn að gera sér grein fyrir því, að það getur þýtt að draga verði úr einkaframkvæmdum sem þessu svarar. Ég skal engan dóm um það fella hér á þessu stigi og hef raunar ekki aðstöðu til þess, — ég hef ekki nægilegt yfirlit yfir heildarefnahagsástandið eins og það er núna og er það varla von, það hefur ríkisstj. ein, — það, sem ég legg megináherzlu á, er það, að skylda ríkisstj. er að gera sér grein fyrir því, hvert hlutfall er eðlilegt og hæfilegt milli opinberra framkvæmda annars vegar og einkaframkvæmda hins vegar, því að það, sem nauðsynlegt er að samræma, eru heildarframkvæmdirnar annars vegar og heildarfjárhagsgetan m. a. að því er snertir gjaldeyrisstöðuna hins vegar. Ef það er skoðun ríkisstj., að allar þær opinberar framkvæmdir, sem hér er um að ræða, séu nauðsynlegar, þá ber ég ekki á móti því, en vek aðeins athygli á því, að þá er það skylda ríkisstj. að taka í sínar hendur stjórn einkaframkvæmdanna í svo ríkum mæli og til þess hefur hún Framkvæmdastofnunina, að heildarframkvæmdamagn verði ekki of mikið og stuðli ekki að greinilegri áframhaldandi ofþenslu og beinni verðbólgu. Það er þetta, sem hæstv. ríkisstj. hefur algjörlega látið undir höfuð leggjast. Þetta plagg, þessi skýrsla ríkisstj, ber ekki vott um, að hún hafi yfir höfuð nokkurt heildaryfirlit um, hvert líklegt sé heildarframkvæmdamagn þjóðarinnar á þessu ári. Það eina, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, er að safna saman óskum úr öllum mögulegum áttum um opinberar framkvæmdir, í þessu kjördæmi í hinu kjördæminu, á þessu sviðinu á hinu sviðinu, tína þær saman í framkvæmdaáætlunina og lánsfjáröflunarfrv. og óska eftir lánsheimild til að framkvæma þetta allt saman, án þess að hafa hugmynd um. hvort hún getur framkvæmt það eða ekki, og án þess að hafa gert nokkra tilraun til að hafa nokkra heildarstjórn á þjóðarbúinu, sem hún sagðist þó ætla að reyna að hafa með aðstoð Framkvæmdastofnunarinnar. Þess vegna andmæli ég því algjörlega, að þessi viðvörunarorð mín um ofþenslu og vaxandi verðbólgu séu í sjálfu sér túlkuð sem andstaða við þær framkvæmdir, sem hér er rætt um að efna til. Ég endurtek það og segi aðeins: Gott og vel, ef ríkisstj. vill framkvæma allt þetta, sem hér er um að ræða, og heldur að það sé heilbrigt að taka til þess lán með þeim hætti, sem hún hyggst fyrir, þá verður hún að hafa þess konar heildarstjórn á einkaframkvæmdunum, að heildarframkvæmdamagnið fari ekki fram úr því marki, sem telja má samrýmanlegt fjárhagsgetunni og gjaldeyrisstöðunni, en það er það, sem er vanrækt.

Með hliðsjón af þessari vanrækslu hæstv. ríkisstj. verður því miður ekki sagt, að horfurnar fram undan séu bjartar í íslenzku efnahagslífi. Þær eru bjartar að því er snertir afkomu þjóðarbúsins. Það er ekkert, sem bendir til þess á erlendum mörkuðum enn þá, að verðlag þar fari lækkandi, og þjóðarframleiðslan mun í ár, 1972, án efa vaxa eitthvað umfram það sem hún var 1971, þó að ekki sé líklegt, að hún vaxi jafnmikið og s. l. ár eða í fyrra miðað við árið þar áður. En hún mun halda áfram að vaxa, og meðan verðlagið erlendis er jafnhagstætt og það er núna eru afkomuhorfur þjóðarbúsins sem heildar án efa góðar og þess vegna þarf almenningur í landinu án efa ekki að óttast það, að kjör hans fari í heild versnandi á þessu ári, en þeim mun meir ber að harma það, að ríkisstj. skuli láta sem hún sjái ekki þær blikur, sem hafizt hafa á loft, sérstaklega á undanförnu misseri, og koma fram í síhækkandi verðlagi neyzluvöru, koma fram í síhækkandi verðlagi fasteigna, koma fram í stórauknum innflutningi og þar með aukinni gjaldeyriseyðslu, koma fram í stórauknum skorti á vinnuafli, koma fram í stórauknum rekstrarfjárskorti atvinnuveganna. Allt þetta eru þess konar tákn í augum allra manna, sem þekkingu hafa á, að það ætti að hvetja ábyrga og skynsama ríkisstj. til gagnráðstafana, til aðgerða. Sú verðlagshækkun og sú eftirspurnarþensla, sem nú á sér stað, mun án efa snúa hagstæðum viðskiptajöfnuði þjóðarinnar á árunum 1970–1971 í óhagstæðan viðskiptajöfnuð á þessu ári. Það er of snemmt að taka ábyrgð á ákveðinni spá í þeim efnum, en heyrt hef ég sérfræðinga áætla, að viðskiptajöfnuðurinn muni í ár rýrna um um það bil 2000 millj. kr., þar sem Íslendingar muni á þessu ári tapa um það bil helmingi þess gjaldeyrisforða, sem tekizt hefur að safna á undanförnum árum eða síðan sigrazt var á gjaldeyriserfiðleikunum árin 1967 og 1968. Það verður líka að gera sér algjörlega ljóst, hvaða þýðingu það mun hafa fyrir starfsmöguleika bankanna, að ríkissjóður hefur nú fyrirætlanir um að tífalda skuldabréfaútgáfu sína, tífalda það sparifé, sem ríkisstj. tekur beint til sín frá sparifjáreigendum í formi skuldabréfalána. Það er auðvitað mesti barnaskapur að láta sér detta í hug, að fjárhagsráðstöfun eins og útgáfa nýrra skuldabréfa, spariskuldabréfa ríkissjóðs, beinlínis auki sparnað, sparnaður hefur farið minnkandi, fór minnkandi á síðastliðnu ári. Venjulegur sparnaður á undanförnum árum hefur verið um 25 til 26% af þjóðartekjum. Á síðastliðnu ári hefur hann minnkað ofan í 23%. (Gripið fram í.) Er það spáin á þessu ári? Ég biðst afsökunar, ég sagði þetta eftir minni. Þá eru það sérfræðingar, sem spá því, að á þessu ári muni sparnaður minnka ofan í 23% miðað við 26% sem venjulegan sparnað á undanförnum árum. Auðvitað að árinu 1971 meðtöldu, því að skýrsla er til um það. Ég sé þetta núna, þetta er alveg augljóslega svona. M. ö. o.: sérfræðingar reikna með því, að sparnaður fari minnkandi frá því, sem tölur sýna að hafi verið undanfarin ár. En hitt er áreiðanlega misskilningur, að aukin spariskírteinaútgáfa sé rétta ráðið til að auka sparnað. Það hefur reynsla undanfarinna ára og áratuga sýnt, sparnaðurinn eykst þá aðeins þegar menn öðlast aukna trú á gjaldmiðilinn, þegar menn öðlast aukna trú á stöðugt verðlag. Sparnaður minnkar ávallt, þegar trú almennings minnkar, þegar ótti við hækkandi verðlag gerir vart við sig. Þess vegna er mjög skiljanlegt, að sparnaður skuli einmitt fara minnkandi á þessu ári, að það skuli einmitt vera spáð minnkandi sparnaði á þessu ári af sérfræðingum, af því að allir vita, að verðlag fer mjög hækkandi og mun fara mjög hækkandi það sem eftir er af árinu. Það eina, sem við má búast, er það, að sparnaður minnki, enda spá sérfræðingar minnkandi sparnaði á þessu ári. Ráðið við þessu er ekki það að gefa út spariskírteini ríkisins, ráðið við þessu er það að gera þær ráðstafanir, sem stöðva verðlagshækkanirnar, gefa fólki aukna trú, nýja trú á stöðugt verðlag og nýja trú á stöðugt gildi gjaldmiðils. Allt annað er prjál og árangurslaust. Hins vegar hlýtur svo gífurlega aukin útgáfa spariskírteina eins og hér er um að ræða, allt að því tíföldun, að hafa áhrif á starfsmöguleika bankanna, enda hafa þeir bankastjórar viðskiptabankanna, sem á fund fjhn. komu, allir lýst yfir því, að þeir óttuðust mjög, að þessi aukna ríkisskuldabréfaútgáfa muni þrengja kosti bankanna. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að rekstrarfé atvinnuveganna fer einmitt nú þessa mánuði mjög vaxandi vegna hækkaðs framleiðslukostnaðar og hækkaðs verðlags. Það væri því fyllsta þörf á því, ef atvinnuvegirnir og sérstaklega útflutningsatvinnuvegirnir eiga að hafa óskertan starfsgrundvöll, að bankarnir gætu aukið fyrirgreiðslu sína við þá, en þessi aukna ásókn ríkissjóðs í sparifjármyndunina hlýtur, það er augljóst mál hún hlýtur að minnka getu bankanna til þess að sinna lánsfjárbeiðnum atvinnuveganna. Samfara hækkandi framleiðslukostnaði og þess vegna aukinni rekstrarfjárþörf atvinnuveganna munu því bankarnir hegða sér þannig að æ fleiri munu fara þaðan bónleiðir til búðar, þegar þeir koma og biðja um aukið rekstrarfé vegna aukins rekstrarkostnaðar. Það er því ekki aðeins, að ríkið keppi við atvinnuvegina á vinnumarkaðinum með því að margfalda framkvæmdir sínar svo mjög sem raun ber vitni um, heldur keppir það einnig við atvinnuvegina um lánsfé í bönkum, og það gefur auga leið, að þetta er ekki ráðið til að draga úr verðbólgu og ofþenslu, þetta er vísasti vegurinn til að auka verðbólgu og auka verðþenslu.

Ég verð því að segja sem niðurstöðu bollalegginga minna um framkvæmdaáætlunina og fjáröflunarfrv., að mér er hvort tveggja vonbrigði, mikil vonbrigði. Hæstv. ríkisstj. hefur betri aðstæður en nokkur ríkisstj. hefur haft um langt skeið undanfarið til þess að hegða sér skynsamlega, hafa heilbrigða og skynsamlega heildarstjórn á atvinnulífinu, vegna þess að bæði er framleiðsluaukning mikil og viðskiptakjörin óvenjulega góð. Hún lýsti því m. a. s. yfir, að hún hefði fullan skilning á því að hagnýta þessar góðu aðstæður með því að beita áætlanagerð í enn ríkara mæli en gert hefur verið á undanförnum árum. Þessi tækifæri hefur hún látið ónotuð. Þessi framkvæmdaáætlun her ekki vott um altæka skynsamlega áætlunargerð, og hvað fjáröflunarheimildirnar snertir virðist vera um tilviljunarkenndan samtíning á óskum um framkvæmdir og fé úr öllum mögulegum áttum að ræða án grundvallaðrar heildarstefnu.

Um þetta ber t. d. vott 286 millj. kr. óskin, sem fram var borin á síðustu stundu eða fyrir tveim dögum og er að því er virðist ekki í nokkru minnsta samhengi við heildarframkvæmdaáætlunina né heildarfjáröflunaráætlunina. Ríkisstj. hæstv. hefur því að mínu viti ekki reynzt þeim vanda vaxin, sem öllum ríkisstj. hlýtur að mæta. Það er um vanda að ræða fyrir núv. hæstv. ríkisstj. eins og fyrir allar ríkisstj. á öllum tímum, vegna þess að það er raunverulega ekki auðveldara að stjórna landi á góðum tímum en á erfiðum tímum. Ýmsum kann að finnast þetta undarlegt. Það held ég þó, að sé sannmæli og viðurkennt af þeim, sem um það mál hugsa. Það þarf engu að síður ábyrgðartilfinningu og skilning á nauðsyn aðhalds á góðum tímum en erfiðum tímum. Það má jafnvel segja, að það þurfi meiri styrk, meiri viljafestu, meiri samheldni til þess að láta ekki leiða sig í freistni í góðæri en í hallæri. En hæstv. ríkisstj. hefur, — af ástæðum, sem ég skal ekki fjölyrða um að þessu sinni, því að hér er fyrst og fremst um efnahagsmál að ræða, eins og ég sagði áðan, — annaðhvort ekki reynzt hafa skilning á þeim vanda, sem henni er búinn, eða þá ekki reynzt nógu samhent til þess að taka með heilbrigðum hætti á honum, og það her að harma. Sú venja hefur hins vegar skapazt, að stjórnarandstöðuflokkar beiti sér ekki gegn því, að hæstv. ríkisstj. fái þær heimildir til lántöku, sem hún telur sér nauðsynlegar vegna þeirra framkvæmda, sem hún vill leggja í. Þess vegna hefur það orðið niðurstaðan í hv. fjhn., að n. öll hefur orðið við óskum hæstv. fjmrh. um að flytja brtt. um nýjar heimildir við þetta, án þess að taka nokkuð efnislega afstöðu til brtt. eða framkvæmdanna í heild eða beita sér gegn því, að ríkisstj. fái þær heimildir, lánsheimildir, sem hún óskar eftir, og hef ég látið þess getið í niðurstöðu eða í lokaorðum nál., að Alþfl. mun ekki beita sér gegn því, að ríkisstj. fái þær heimildir, sem hún telur sér nauðsynlegar til þess að annast þær framkvæmdir, sem hún hefur tekið ákvörðun um að framkvæma.