15.05.1972
Efri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. um framkvæmdaáætlun fyrir árið 1972 var lagt fram í hv. Nd. og hefur verið afgr. þaðan til þessarar hv. d. Það er nauðsynlegt, og ég vil leyfa mér að taka það fram um leið og ég fylgi þessu frv. úr hlaði hér í hv. d., að breytt verði um vinnubrögð í sambandi við framkvæmda- og fjáröflunaráætlunina, þannig að hún fylgi afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. Að vísu var það svo, að hún var farin að verða fylgirit með fjárlagafrv. undanfarinna ára, sem skýrði að nokkru í hvaða átt hún mundi ganga, en afgreiðsla hennar var svo síðar. Hins vegar, þegar fjárlagafrv. var lagt fram hér á hv. Alþ. á s. l. hausti, fylgdi framkvæmdaáætlunin ekki, en ég gerði þá grein fyrir því, að það væri af þeim ástæðum, að gert væri ráð fyrir breytingum á störfum Efnahagsstofnunarinnar og hin nýja Framkvæmdastofnun mundi hafa áhrif á gerð áætlunarinnar. Ég vil samt undirstrika það, að ég tel að nauðsyn beri til, að afgreiðsla á framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fari fram um leið og afgreiðsla fjárlaga.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 806 eftir afgreiðslu í Nd., er svipað að uppbyggingu og verið hefur um framkvæmdaáætlun, og sú skýrsla um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun, sem lögð var fram, þegar málið var tekið til umr., er með svipaðri uppsetningu og áður hefur verið. Í skýrslunni er í fyrsta lagi að finna almennt viðhorf í efnahagsmálum og sýnt er fram á ört vaxandi framleiðslu og þjóðartekjur, aukningu ráðstöfunartekna og auknar framkvæmdir. Það er tekið fram í skýrslunni, að almenn eftirspurn eftir vörum og þjónustu og vinnuafli hefur aukizt verulega og það meira en framleiðslan. Þá er gerð grein fyrir fjármunamyndun á árinu 1971 með samanburði við fyrri ár. Einnig er gerð skrá yfir þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur og fjármunamyndun á þessu ári, sömuleiðis um þróun sparnaðar, gjaldeyrisstöðu og horfur á vinnumarkaðnum. Grg. er um framkvæmdir og fjáröflun fyrir árið 1972 og er hún allítarleg. Eins og hv. þm. er ljóst, er hér um tvenns konar efni að ræða. Í fyrsta lagi er hér um að ræða fjáröflun til opinberra lánasjóða og í öðru lagi skýrslu um væntanlegar opinberar framkvæmdir og fjáröflun til þeirra.

Fjáröflun til framkvæmdasjóðanna á þessu ári er verulega mikil, þar sem útlit er fyrir, að framkvæmdir verði miklar á þessu ári, og ásókn í það hefur vaxið verulega og eru yfirleitt þessar áætlanir byggðar á drögum þeim, sem þessar lánastofnanir gerðu sjálfar.

Helztu framkvæmdaliðir í opinberum framkvæmdum á árinu 1972 eru raflagnir, en þar er um að ræða fjáröflun, sem er á þriðja hundrað millj. fyrir utan Laxárvirkjun, en þar er gert ráð fyrir fjárútvegun um 150 millj. kr., svo að það er á fjórða hundrað millj. kr. vegna rafmagnsframkvæmda. Þá er líka á þriðja hundrað millj. kr. vegna framkvæmda í vegagerð, ef með eru taldar afborganir af lánum vegna Reykjanesbrautar og Kópavogsvegar. Aðrir liðir í þessum áætlunum eru smærri. Þar kemur næst hafnargerð upp á 28 millj. kr. og flugöryggismál upp á 16 millj. kr. Orku- og jarðhitarannsóknir og jarðhitaveitur eru rúmar 30 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því að fjármagna þessa framkvæmda- og fjáröflunaráætlun að verulegu leyti með sölu á smærri skírteinum innanlands, um 200 millj. kr., og að öðru leyti með endurkaupum á eldri spariskírteinalánum og svo ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs. Að öðru leyti en þessu er gert ráð fyrir að taka erlend lán til þeirra framkvæmda, sem hér er verið að fjármagna, og er þar um að ræða 467 millj. kr.

Þar sem ég gerði ítarlega grein fyrir þessu máli í hv. Nd., sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í það að þessu sinni, en legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.