15.05.1972
Efri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þótt ég að vísu eigi sæti í þeirri n., sem fær mál þetta til meðferðar, þá þykir mér rétt að víkja nokkuð að því þegar við þessa umr., og verða aths. mínar fyrst og fremst almenns eðlis og e. t. v. ekki óeðlilegt, að þær aths. komi fram og séu nokkuð á víðari grundvelli heldur en framkvæmdaáætlunin sjálf, þar sem nú liggja fyrir fyrstu staðreyndir, ef svo má segja, um efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. Fjárlögin hafa verið afgreidd, skattamál hafa verið afgreidd, kjarasamningum er lokið og fyrsta framkvæmdaáætlunin er hér lögð fram. Mér sýnist því, að nokkurn veginn séu komin þau tímamörk, að það sé hægt að átta sig á því, hvaða stefnubreyting það sé, sem ætla hefði mátt að yrði í fjármálum þjóðarinnar og sem í rauninni var eitt grundvallaratriðið í stefnuskrá ríkisstj., þegar hún tók við völdum, að það yrði að gjörbreyta um stefnu í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Því miður er þessi skýrsla nú svo seint á ferðinni, að ekki gefst kostur að ræða málið eins ítarlega og skyldi, og ég skal því með hliðsjón af þeirri staðreynd, að Sjálfstfl. vill fyrir sitt leyti stuðla að því, að þetta mál fái sem skjótasta afgreiðslu og þingi geti lokið fyrir hvítasunnu, reyna að stytta mál mitt svo sem mér er frekast auðið, en vona, að mér verði ekki lagt það til lasts, þó að ég viki hér að nokkrum almennum staðreyndum, sem framkvæmda- og fjáröflunaráætlunin gefur tilefni til.

Sú skýrsla fjmrh., sem hér hefur verið lögð fram, er fyrsta skýrslan af því tagi, sem hæstv: núv. fjmrh. leggur hér fyrir þingið. Eins og ég gat um áðan, hefur verið lögð á það áherzla undanfarin ár og ekki sízt af núv. hæstv. fjmrh., að fjármálastefnan væri fráleit í mörgum greinum og það þyrfti að fara inn á algjörlega nýjar brautir til þess að koma efnahagskerfinu og fjármálastjórninni í eðlilegt og viðunandi horf. Ég mun nú víkja að því nokkru nánar, hvernig þetta blasir við miðað við afgreiðslu þeirra mála, sem ég gat um og sem eru grundvallaratriði varðandi efnahagsstefnuna hverju sinni. En skýrsla sú, sem hér liggur fyrir frá hæstv. ráðh., er að mörgu leyti athyglisverð, og ég skal segja honum það til lofs, að það er ekki gerð tilraun þar til þess að draga fjöður yfir það ástand, sem ríkjandi er með þjóðinni í efnahagsmálum hennar, og það hefði því mátt ætla, að hann fyrst og fremst sem leiðtogi í þeim efnum og ríkisstj. í heild hefði þá miðað framkvæmdaáætlunina nú og aðrar aðgerðir sinar í efnahagsmálum við það mat, sem ráðh. sjálfur leggur á ástandið. Á bls. 3 í skýrslu fjmrh. segir m. a., að það megi fastlega gera ráð fyrir því, að allt þanþol sé á þrotum, sem merkir það, að stefnan í efnahagsmálum, sem komið er að annars staðar í skýrslunni, sé orðin það alvarleg, að lengra verði ekki gengið. Og á bls. 7 í skýrslunni er sagt, að það, sem þjóðin hafi tekið til sinna þarfa fyrir nútíð og framtíð samanlagt, hafi aukizt um 34% á tveimur árum og væntanlega nærri 48% á þremur árum, og mun það því nær einstætt. Síðan segir í framhaldi af þessu: „er ljóst, að hér keyrir nokkuð úr hófi fram, en þótt vel ætti með þessu að vera séð fyrir öllum þörfum, er eigi að síður örðugt að lækka seglin nokkuð“, sem virðist nú vera nokkur uppgjafartónn um leið. Víðar í skýrslunni er að finna aðvörunarorð í þessa átt og raunar er að því vikið á einum stað, að það verði að una þessu í von um að slakni á síðar. Spurningin verður þá sú, sem menn verða að svara við afgreiðslu framkvæmdaáætlunar og annarra stefnumarkandi frv. ríkisstj. um efnahagsmál, hvort horfur séu á með þeim aðgerðum, að það sé stefnt að þeim slaka á efnahagskerfinu, sem skýrslan víkur að.

Í skýrslunni er lauslega að því vikið, aðeins lauslega, að stefnt sé nú að og í rauninni hafi þegar verið unnið með nokkuð nýjum hætti að áætlanagerð. Að nafninu til mun hin svo kallaða nýja Framkvæmdastofnun hafa gengið frá framkvæmdaáætlun fyrir sjóðakaflann í skýrslunni, en eins og áður er framkvæmdaáætlunin í tveimur þáttum, annars vegar ríkisframkvæmdir og hins vegar fjáröflun til framkvæmdasjóða. Vitanlega hefur hér ekki orðið nem breyting á. Það eru sömu aðilar og áður, sem að þessari skýrslu hafa unnið. Fjárlaga- og hagsýslustofnunin hefur unnið að áætluninni varðandi ríkisframkvæmdir og áætlanadeild svo kölluð í Framkvæmdastofnuninni, sem er Efnahagsstofnunin gamla, hefur unnið að þeim kafla, sem snertir sjóðina. Framkvæmdastofnunin sem slík, sem ég m. a. á sæti í, hefur ekkert með það mál að gera, en á að fá það til yfirlestrar á síðustu stundu. Ég lýsti þar yfir því, að ég tæki ekki þátt í afgreiðslu málsins, ekki vegna þess að ég væri andvígur þeim áætlunum út af fyrir sig eða þörf þeirra sjóða, heldur vegna þess að ég hefði ekki haft neina aðstöðu til þess eða stjórnin í heild, hvort sem meiri hluti hennar hefur haft það eða ekki, að hafa nokkra heildaryfirsýn yfir það vandamál. sem við var að glíma.

En það, sem verið hefur kenningin í sambandi við efnahagsstefnu ríkisstj. og átti að vera frábrugðið vinnubrögðum fyrrv. stjórnar, var annar undirbúningur, m. a. framkvæmdaáætlunar, þar sem lagt væri kapp á að raða verkefnum innan þess ramma, sem þanþol atvinnulífsins hverju sinni leyfði. Enn sem komið er hefur ekki verið um neina slíka röðun að ræða. Nú er ég ekki þar með að segja, að ekki verði stefnt að því á næsta ári, ég veit ekkert um það, fyrir liggur ekkert í því efni, en það er a. m. k. ljóst nú, að það hefur ekki verið um neina röðun framkvæmda að ræða, heldur hefur verið reynt að mæta sem flestum þörfum með fjáröflun, þ. e. í framhaldi af þeirri stefnu, sem fylgt var við afgreiðslu fjárlaga, þar sem þau votu hækkuð meira en nokkru sinni áður hefur þekkzt eða um nær 50%. Þó að að vísu sé hluti af því millifærsla, þá er þar um hækkun að ræða, sem jafngilti næstum því samtals hækkun fjárlaga undanfarin fjögur ár, en slík aukning var af núv. stjórnarflokkum mjög harðlega fordæmd þá og talin vera óreiða í fjármálum. Í framkvæmdaáætluninni er haldið áfram sömu stefnu með stórkostlegar hækkanir, þar sem reynt er að mæta sem allra flestum óskum og þörfum, þó að auðvitað sé aldrei hægt að fullnægja öllum óskum og þörfum. Það vitum við, að þó að fjárlög hafi verið hækkuð um 100% og þó að framkvæmdaáætlun væri enn hækkuð um 50–100%, þá eru auðvitað, eins og menn hljóta að gera sér grein fyrir, alltaf til ómettaðar þarfir. Þess vegna eru spurningar um það, sem ég býst við að komi fram hér og hafa áður komið fram, hvað hafi átt að skera niður í fjárlögum og hvað hafi átt að skera niður í framkvæmdaáætlun, auðvitað spurningar út í hött, vegna þess að eins og hæstv. núv. fjmrh. réttilega hefur sagt undanfarin ár oft og tíðum, þegar við höfum deilt, að það hlýtur að vera heildarstefnan, sem ræður ferðinni, og lítið tjóar fyrir þá, sem ekki ráða málum, að fara að flytja till. um að skera niður einstaka liði. Það er grundvallarefnahagsstefnan, sem hlýtur að ráða úrslitum, og það verður ríkisstj. hverju sinni, sem hlýtur að marka þá stefnu. Þetta held ég, að sé alveg í samræmi við þá skoðun, sem hæstv. núv. fjmrh. hefur áður oftlega látið í ljós og ég verð að játa, að er rétt, að ríkisstj. hverju sinni verður að taka á sig þann vanda að velja og hafna og tjóar ekki að vísa því á stjórnarandstöðuna að létta ríkisstj. þetta grundvallarvandamál, sem er einn helzti þáttur stjórnsýslunnar og það, sem ríkisstj. á hverjum tíma er kosin til að gera. En það er ljóst af þeirri framkvæmdaáætlun, sem liggur fyrir hér, að engin röðun hefur átt sér stað. Það er leitazt við að fullnægja svo sem verða má þörfum hinna einstöku sjóða fyrir fé til útlána og mæta því, sem talið er þarfir ríkisvaldsins sjálfs og ríkisaðila til framkvæmda á þessu ári. Og það hefur komið í ljós, eins og ég sagði áðan um fjárlögin, að framkvæmdaáætlunin hefur hér sprengt alla þá ramma, sem slíkri áætlun hafa áður verið settir. Hún hefur í senn sprengt rammana og auk þess er ekki í rauninni að finna neinar nýjar leiðir, sem farnar eru í sambandi við þessa áætlun nú.

Ég hef áður vikið að því, að skýrslan sjálf og fjárskiptingin er unnin eftir sömu reglum og af sömu aðilum og áður hafa unnið að þeim málum, og er ég ekki að lasta þau vinnubrögð, síður en svo. Það sannar aðeins það, að þarflaust var að setja upp það bákn, sem sett hefur verið á laggirnar, Framkvæmdastofnun ríkisins, og á vafalaust eftir að sýna sig betur síðar, að þar hefur ekki verið skynsamlega á málum haldið. En sleppum því, það er ekki til umr. hér, nema að svo miklu leyti sem það snertir undirbúning þessarar væntanlegu löggjafar um framkvæmdaáætlunina. Úrræðin í efnahagsmálum, sem fylgt hefur verið í sambandi við efnahagsstefnuna og þessa áætlun, eru í meginefnum algjörlega troðnar slóðir. Það eina, sem skilur á milli, er, að flestallir hemlar eru á brottu, sem áður hefur þó verið reynt að taka í í sambandi við fjáröflun og fjárkröfur hins opinbera. Ég hef áður vikið að fjárlagahækkuninni, sem nam á sjötta milljarð kr. eða um 50% á fjárlögum síðasta árs. Í annan stað er það enn við lýði og í tilefni af fsp. frá mér fyrir nokkru síðan var því svarað af hæstv. viðskrh., að ekki stæði til nokkur breyting í því efni, að Seðlabankinn bindi 20% af innlánsfé innlánsstofnana, en það var eins og menn muna eitt af því, svo kölluð frysting sparifjár, sem var talið með því vítaverðasta, sem fyrrv. ríkisstj. hefði gert og sem stefndi að því að lama getu lánastofnana til þess að veita atvinnulífinu nauðsynleg lán. Ég er ekkert að deila á þetta, vegna þess að þetta er stefna, sem við fylgdum sjálfir, en ég vek aðeins athygli á þessari staðreynd til þess að sýna, að hér virðist sannarlega hafa verið um þarfa og gagnlega ráðstöfun að ræða, úr því að hæstv. núv. ríkisstj. telur, að það sé fjarri lagi að hverfa frá þeirri bindingu.

Þá var tvennt gagnrýnt mjög. Á undanförnum árum sérstaklega í sambandi við framkvæmdaáætlun, raunar árlega, var að því vikið, að óhæfilega langt væri gengið í erlendum lántökum og raunar einnig innlendum lán tökum. Og það var orðað svo, að það væri verið að binda bagga varðandi framtíðina. En hvað er nú að gerast í þessum efnum? Framkvæmdaáætlunin sjálf eða fjáröflun til hennar er um það bil þrefalt hærri en var á s. l ári. Það eru samkv. skýrslu fjmrh. og grg., sem þar fylgir með, svo að ég vitni í heimildir, sem væntanlega verða ekki vefengdar, gert ráð fyrir eftir breytingar, sem urðu í hv. Nd., að framkvæmdaáætlunin, báðir sektorar hennar, sjóðasektorinn og ríkissektorinn, nemi samtals um 2.3 milljörðum kr. til samanburðar við 778 millj. á árinu 1971. Ég þykist að vísu vita það, að hæstv. ráðh. muni svara því til, að hún hafi orðið nokkru hærri á árinu 1971, en mér leikur grunur á, að það muni einnig verða um hækkun að ræða á þessu ári og m. a. í sambandi við þann sjóð, sem ég heyrði að hann vék að í Nd., að hefði þurft að fullnægja betur þörfum hjá en gert hafði verið ráð fyrir þá, þ. e. Stofnlánadeild landbúnaðarins. Gert er ráð fyrir, að fjárvöntun nú í þessari áætlun til þeirrar deildar verði áfram álíka mikil og þurfti að bæta við á s. l. ári, og einhvern veginn verður að afla þess fjár, að ég hygg.

Samkv. skýrslunni hækkar heildarlánsfjáröflun vegna áætlunarinnar í reynd, eins og segir í grg., um 25% eða úr 2888 millj. í 3605 millj., sem eru reyndar 3.9 milljarðar, þannig að hér mun hækkunin raunverulega vera nálægt 30% eftir breytinguna í Nd. Innlend fjáröflun í heild er núna áformuð um 1390 millj. kr. og er þar um að ræða tvöföldun innlendrar fjáröflunar, er á heildina er litið, en erlend fjáröflun hækkar um hvorki meira né minna samkv. áætlun eins og hún var lögð fram en 632 millj. kr., sem mun þó nú vera á níunda hundrað millj. miðað við þær lántökuheimildir, sem samþ. voru í Nd., en í fyrra var aðeins gert ráð fyrir 80 millj. kr. erlendu lánsfé. Hér er því sýnilegt, að menn óttast ekki eins og áður virðist verið hafa, að erlendar lántökur séu alvarlegur baggi á þjóðinni, en fyrir tveimur árum fóru hér fram mjög harðar umr. á Alþ., þar sem deilt var mjög á fyrrv. ríkisstj. fyrir það, að búið væri að binda framtíðinni slíka skuldabagga með lántökum erlendis og skuldasöfnun á erlendum vettvangi, að það væri í rauninni óbærilegt. Þá námu heildarskuldirnar miðað við núv. gengi milli 12 og 13 milljörðum kr. Nú segir í skýrslu hæstv. fjmrh., að skuldirnar hafi verið um síðustu áramót 17 milljarðar, og virðist eiga enn að halda áfram af fullum krafti án alls ótta við það, sem af slíku mundi leiða, og gefið í skyn í skýrslunni og beinlínis tekið þar fram, þar sem rætt er um væntanlegan viðskiptahalla, sem ég mun víkja að síðar, að það verði að gera ráð fyrir því, að sá viðskiptahalli, ef þörf krefur, verði jafnaður með erlendum lántökum eins og hafi verið gert á s. l ári, en þá var um stórkostlegar lántökur og innflutning á erlendu fjármagni að ræða.

Ég skal síðan víkja að einstökum atriðum innlendrar lántöku. En í framhaldi af þessu, — raunar má þegar að því víkja, — vil ég minnast á það úrræði að biðja bankana um að leggja fram 10% af sparifjáraukningu sinni, sem er nákvæmlega það sama og gert hefur verið undanfarin ár. Það var t. d. síðast hér í hv. d. af einum núv. hæstv. ráðh., og reyndar oft áður, mjög að þessu fundið og talið, að það mundi skerða ráðstöfunarfé bankakerfisins óhæfilega. Og þó að mjög mildilega væri í þetta farið á s. l. ári, svo mildilega, að varla var hægt að hugsa sér vægar í sakirnar farið, 75 millj. kr. útgáfu spariskírteina, sem ég hygg að gagni lítið eins og sakir standa núna, þá spurði þessi hv. þm., núv. hæstv. ráðh., að því, hvort það væri ekki hægt að sleppa bönkunum við það að binda þessi 10% af sparifénu. Það var ekki talið mögulegt, enda er það sjáanlegt, að hæstv. núv. ríkisstj. telur það heldur ekki auðið.

Svo er fjáröflun, sem slær öll met, en það er spariskírteinaútgáfan, þar sem gert er ráð fyrir, að útgáfa spariskírteina, sem falla til framkvæmda í þessari áætlun, þ. e. ný spariskírteini, — endursala skírteina er svipuð og var í fyrra, — að þessi útgáfa tífaldist. Þegar hafa verið seldar í spariskírteinum 200 millj. fyrir áramót og eru geymdar til ráðstöfunar á þessu ári. Og til viðbótar þessu á að selja í nýjum spariskírteinum 500 millj. samkv. þessum heimildarlið og 100 millj. hafa sérstaklega verið seldar sem happdrættislán, sem eru í öðru formi, og ég skal játa, að það lánsútboð hefur haft hollari áhrif á fjármálakerfið í landinu en spariskírteinin að því leyti til, að ég hygg, að að allverulegu leyti hafi komið þar til nýr sparnaður. Skírteinin eða bréfin voru smá og eftir því sem ég bezt þekki til var þar um almenn kaup að ræða en ekki í stórum stíl, þannig að ekki er líklegt, að hafi gengið á innistæður í bönkum af þeim sökum.

Síðasta atriðið, sem ekki snertir sérstaklega þessa áætlun hér en er einn þátturinn í því að krækja í ráðstöfunarfé viðskiptabanka, er útgáfa svo kallaðra ríkissjóðsvíxla, sem eru töluvert fýsilegt form fyrir viðskiptabankana, vegna þess að hæstv. ráðh. ætlar að vera það rausnarlegur að borga af þeim 12% vexti og þess vegna má segja það, að bankarnir, sem flestir hverjir eru mjög hart keyrðir með afkomu sína, ættu að verja ráðstöfunarfé sínu, ef þeir hafa nokkurt ráðstöfunarfé laust, til þess að kaupa slíka víxla, því að það er, á lélegu máli, töluvert góður „bissness“. Það eru sem sagt þarna kannaðar allar leiðir, sem hugsanlegar eru til þess að krækja í sparifé frá hinu almenna viðskiptalífi í landinu með aðferðum, sem einstaklingunum er ekki mögulegt eða leyfilegt að hafa, jafnvel þó að þeir vildu, því að þeir mega hvorki gefa út veðbréf, spariskírteini né heldur borga hærri vexti af lánsfé sínu, þó að þeir gjarnan vildu gera það og keppa þannig við ríkisstj.

Þetta eru úrræðin, sem valin eru til þess að afla þess geysilega fjármagns, sem hér þarf í framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir yfirstandandi ár. Það er sem sagt keyrt á fullri ferð. Það eru notaðar allar þær leiðir, sem undanfarið hafa verið farnar til fjáröflunar, og nýjum bætt við. Og það er gengið það langt í þessum fjáröflunum, að uggvænlegt má þykja fyrir viðskiptalífið í landinu. Hitt skal ég játa, að séð frá öðrum sjónarhóli, þ. e. almennt frá sjónarmiði þeirrar nauðsynjar að draga inn sem mest fjármagn, þá má rökstyðja það, að rétt sé að gefa fólki kost á að verðtryggja sitt sparifé. E. t. v. er ekki vanþörf á því miðað við þá óðaverðbólgu, sem nú er að skella yfir og sem fróðir menn segja, að jafnvel séu verstu horfur, sem verið hafa í 30 ár, og það jafnmætur maður og sá, sem stjórnarliðar hafa nú oftast vitnað í, þegar talað er um hrollvekjuna. Þetta er síðasta mat hans á þeirri hrollvekju, sem nú blasir við augum. En sleppum því. Það má segja, að rétt sé að reyna að fullnægja þeim þörfum, sem hér er um að ræða, með þessum hætti, ef það er hagfræðilega skoðað niður í kjölinn. En við stöndum andspænis þeirri staðreynd engu að síður, að þó að fjármagn hinna ýmsu sjóða renni að vísu til uppbyggingar almennt í efnahagslífinu og komi til góða atvinnuvegunum í ýmsum greinum, þá hefur ríkissektorinn þanizt svo geysilega út, að það er ekki í neinu hófi. Eins og ég áðan gat um, þá merkir það ekki, að allar þessar framkvæmdir séu ekki nauðsynlegar, og það er vafalaust hægt að benda á álíka margar framkvæmdir, sem nauðsynlegt væri einnig að fullnægja. En þetta er það mat, sem við hverju sinni stöndum andspænis, eins í okkar persónulega lífi og í stjórn ríkisfjármála ekki síður, að kunna eða þora að skilja eftir nauðsynlegar ófullnægðar þarfir til þess að eiga ekki á hættu að kollsigla okkur. Við verðum gjaldþrota sjálf persónulega. Það er hægt vissan tíma að safna skuldum. eins og hér virtist ætlunin að gera til að fullnægja framkvæmdaþörfinni og framkvæmdaþránni, en að lokum verður einnig sá möguleiki tæmdur, og þá horfir ekki annað við en fjárhrun og þrot. Þetta gildir jafnt um einstakling sem þjóðfélag, og það er því ekki að undra, þótt hæstv. fjmrh. samtímis því sem hann lætur undan öllum þessum kröfum úr öllum áttum sé uggandi og finnist margvíslegar blikur á lofti, eins og hvað eftir annað er að vikið í þeirri skýrslu, sem hann lætur fylgja frv. sinu. Ég sakna þess mjög í fyrsta lagi, að frv. er í engu samræmi við skýrsluna og þær hættur, sem þar er bent á, eða a. m. k. til vara, að þar skuli ekki vera gert ráð fyrir eða bent á nein sérstök úrræði til þess að sporna við þeim hættum, sem fjmrh. bendir á í skýrslu sinni en talar aðeins um. að verði að bíða síns tíma, í von um, að einhver bjargráð finnist.

Ég kann því nú hálf illa, herra forseti, að þurfa að ávarpa fjmrh. að honum fjarverandi, en hann er kannske upptekinn í Nd., ég veit það ekki. Mér finnst það dálítið óviðkunnanlegt, af því að þetta er nú ávarp til hans fyrst og fremst. Ég bið hæstv. ráðh. að afsaka. Ég stöðvaði ræðu mína, af því að ég kunni betur við, að hann heyrði þær aths., sem ég hef að gera, þó að þetta séu meira hugleiðingar en sérstakar ádeilur, eins og ég hef áður sagt. Þetta er aðeins nauðsynlegt til að átta sig á því ástandi, sem ríkjandi er og hlýtur illa að fara, ef menn ekki horfast í augu við þær staðreyndir og mæta vandanum, eins og raunar hæstv. ráðh. lýsir honum í sinni skýrslu.

Eins og ég var að ljúka við að segja, þá er ekki hægt að gagnrýna út af fyrir sig þær framkvæmdir, sem ætlunin er að verja fé til, hvorki innan ríkissektorsins né sjóðanna, og má jafnvel vera, að þar vanti eitthvað á, eins og kom fram í hv. Nd. og var þar breytt. Ég veit ekki, hvort enn þá er eftir eitthvað af slíku tagi. Mér hugkvæmist ekki og vonandi engum hv. þm., að vefengja, að það sé um mikilvægar framkvæmdir að ræða, en spurningin er aðeins um þanþolið og hvort hér sé ekki gengið of langt, eins og hæstv. ráðh. raunar staðfestir í sinni skýrslu. Það hefði verið æskilegt að þurfa ekki að gera, miðað við ríkjandi ástand.

Ég hef áður vikið að því, að hin almennu launakjör hafi batnað mjög mikið á undanförnum tveimur árum svo sem skýrslan greinir frá. Það mun vera rétt metið, að það eru um 28%, sem þjóðin hefur í rauninni, eins og það er orðað þar, tekið til sín þar samanlagt, um 34% meira á þeim tveimur árum heldur en árin áður, og þessu til viðbótar er gert ráð fyrir því, að ráðstöfunarfé aukist eða tekjuhækkanir miðað við breytingar, sem verða á árinu í ár, muni nema um 15% í viðbót. Það fer þannig á þremur árum að nálgast 50%, sem ráðstöfunarféð vex, og það er mun meira en þjóðartekjurnar. Sérstaklega er þetta ískyggilegt á þessu ári, vegna þess að það er gert ráð fyrir, að þjóðartekjur vaxi minna en áður eða um 7%, en ráðstöfunarfé aukist um 15%. Hafa verður svo einnig í huga í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstj. hefur beinlínis lofað kaupmáttaraukningu á þessum tveimur árum, sem nemi 20%, þannig að hér er um að ræða á fjögurra ára tímabili allt að 50% hækkun tekna hjá almenningi.

Vissulega er þetta gleðiefni út af fyrir sig, en ég efast um. að nokkurt þjóðfélag þoli slíka aukningu eftirspurnar. Það efast ég stórlega um. enda hefur það komið í ljós. Það hefur orðið gjörbylting í sambandi við innflutningsjöfnuðinn. Viðskiptajöfnuðurinn var jákvæður árið 1969 og 1970 um 1 milljarð og 42 millj., en halli varð á s. l. ári um tæpa 4 milljarða á þessu eina ári, og eftir skýrslunni að dæma virðast horfur á, að það verði um mjög mikinn halla einnig að ræða á þessu ári. Það er gizkað á, að það muni verða svipað og árið 1971 eða jafnvel aðrir 4 milljarðar í viðbót, og í rauninni blasir það við augum. þar sem gert er ráð fyrir, að þjóðartekjur vaxi ekki nema um 5–6%, en ráðstöfunartekjurnar aukist um 15%. Slík umframeftirspurn hlýtur að leiða af sér stórfelldan viðskiptahalla og það er reyndar komið að því, að það má gera ráð fyrir að gangi á gjaldeyrisvarasjóðinn, og ég verð nú að segja, að það er með nokkuð miklu vonleysi, sem á því máli er tekið, því að þar segir, eftir að búið er að segja, að viðskiptahallinn verði álíka mikill eða jafnvel nokkru meiri en á síðasta ári, þá er svo komizt að orði: „Verður að sæta því, þó að nokkuð gangi á gjaldeyrisforðann á árinu, í von um, að miði í jafnvægisátt með næsta ári. Er þá gert ráð fyrir töku langra lána erlendis, eftir því sem eðlilegt tilefni gefst til af tegund og tilgangi framkvæmdanna.“ Hamingjan sanna! Mér finnst þetta í rauninni skelfileg setning. Í fyrsta lagi það, að ráðh. segir, að það verði að sæta þessu. Af hverju þarf að sæta því? Er engin leið að gera ráðstafanir til þess að sporna við þessari geigvænlegu hættu, sem þarna er um að ræða? Það á að mæta vandanum í ár með því að taka einhverja óljósa tölu erlendra lána til að forða því, að gjaldeyrisvarasjóðurinn renni algjörlega út í sandinn, sem hann mundi gera að fullu á þessu ári, ef ekki koma til stórfelldar nýjar erlendar lántökur í einhverja óljósa hluti. Væntanlega þá til að jafna gjaldeyrishallann. Ég verð að segja, að það er harla vonleysislega á málum tekið og linlega að láta frá sér fara yfirlýsingu um, að menn viti að allt stefni í óefni, það verði stórfelldur halli, en það verði að sæta því í von um. að eitthvert happ gerist. Og hverjum dettur nú í hug, að þetta happ gerist? Við fáum hámarksverð fyrir útflutningsvörur okkar og því miður ríkir sá kvíði hjá sumum, að verðlag sé að lækka. Hvað á að detta sem manna af himnum ofan yfir hæstv. ríkisstj. og fjmrh. til þess að jafna þann yfirvofandi stórfellda halla, sem annars verður á þjóðarbúskapnum?

Herra forseti. Af því að ég ætlaði nú sérstaklega að víkja að ríkissjóðnum. — Nú, hæstv. ráðh. er kominn. Það er erfitt tveim herrum að þjóna. — Það er auðvitað grundvallaratriði, þegar þensluástand er í þjóðfélaginu, að ríkisbúskapurinn stuðli ekki að aukinni þenslu með hallarekstri. Það getur verið eðlilegt og raunar nauðsynlegt að halda uppi hallarekstri, þegar erfiðlega árar og atvinnuleysi vofir yfir, eins og var á árunum 1967–1969, enda voru þá gerðar ráðstafanir til sérstakrar fjáröflunar af ríkisins hálfu til þess í samráði við verkalýðssamtökin að efla atvinnulíf í landinu og uppræta atvinnuleysið, sem þá varð vegna þess neyðarástands, sem skapaðist í verðlags- og útflutningsmálum. Árið fyrir þessi áföll, 1966, var mjög verulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði, sem var notaður til þess að halda uppi kjörunum 1967 fram eftir ári með stórfelldum niðurgreiðslum úr ríkissjóði, sem tryggðu almenningi kaupmátt launa sinna í rauninni alllöngu eftir að kaupmátturinn var fallinn í reynd. Síðan var halli hjá ríkissjóði í þrjú ár, sem nam um 600 millj. kr. og að hluta til, eða 100 millj. kr., var síðan á árinu 1970 jafnaður með fé, sem lagt hafði verið til hliðar á fyrri góðærum í Jöfnunarsjóð ríkisins, en 500 millj. hafði verið breytt í fast lán og var það lán að mestu greitt á árinu 1971, eftir að ljóst varð, að greiðsluafgangur var hjá ríkissjóði 1970, sem nam nærri 500 millj. kr. Hefði ekki hæstv. fjmrh. sýnt þá miklu rausn, sem hann sýndi á árinu 1971, eftir að ríkisstj. í gleðivímu sinni kom til valda og þurfti að gera ýmislegt fyrir landsfólkið þá þegar, þá hefði einnig orðið allverulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði á árinu 1971, sem hefði miðað við þensluástandið einmitt verið mjög nauðsynlegt. Ég hef áður vikið að því í fjárlagaræðum, að nauðsynlegt væri að koma á rekstrarsjóði fyrir ríkissjóð, svo að hann þyrfti ekki að lifa eingöngu á lánsfé frá Seðlabankanum. Og ég tel að hefði orðið greiðsluafgangur, — það þurfti auðvitað fyrst að borga skuldirnar, — hefði orðið viðbótargreiðsluafgangur á árinu 1971, þá hefði átt að leggja það fé til hliðar, sem hefði orðið upphaf að slíkum sjóði, þannig að ekki þyrfti að öllu leyti að nota Seðlabankann til þess að dæla út því fjármagni, sem ríkissjóður þarf til bráðabirgða að fá á vissum tímum árs, vegna þess að tekjur koma seinna inn heldur en gjöldin falla til. Þetta hefur því miður ekki verið gert að neinu leyti. Það má segja, að hugmyndin með svo kallaða ríkissjóðsvíxla sé þáttur í þessari viðleitni. Ég tel ekki, að sú leið sé hin rétta, heldur eigi að miða við það, að fjárlög séu afgreidd á þenslutímum með allverulegum greiðsluafgangi. Það var t. d. gert fyrir nokkrum árum í Danmörku, þar sem lagðar voru til hliðar mjög stórar fjárhæðir vegna þeirrar þenslu, sem var þar í landi, fjmrh. innheimti í fjárlögum milljónir króna, sem lagðar voru til hliðar til að mæta erfiðleikaárunum, og voru þær teknar hreinlega úr umferð. Eins má segja, að gæti verið rétt, að ríkið hlutaðist til um sölu skuldabréfa, skulum við segja, og það fé yrði tekið úr umferð. Það mundi hafa jákvæð áhrif á efnahagskerfið. Nú er því miður þannig ástatt, að þótt menn vonist til og ég hygg, að fjmrh. geri sér vonir um það, að hann geti jafnað fjárlögin á þessu ári, þá blæs sannarlega ekki byrlega enn sem komið er, það sem af er árinu, í þessu efni. Það hefur hallað þar geysilega á ógæfuhlið frá því á s. l. ári og skal ég nefna þar mjög táknrænt dæmi máli mínu til sönnunar, en það er yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabankanum, sem í rauninni er alltaf dæmi um það, hvernig rekstrarfjárstaða ríkissjóðs er.

Hinn 1. maí 1971 var samkv. skráningu fjmrn. 408 millj. kr. yfirdráttarskuld hjá Seðlabankanum. Ég tek það fram. að þetta er samkv. skráningu rn., vegna þess að það er nokkuð önnur tala, sem kemur fram hjá Seðlabankanum, en það skiptir ekki máli, ef miðað er við sömu tölu í samanburðinum eða beggja vegna. Sem sagt, yfirdrátturinn var 408 millj. 1. maí 1971, en 1. maí 1972 er yfirdrátturinn 1835 millj. Þessi tala ein út af fyrir sig sýnir, hversu óhugnanleg þróunin er og hversu hér er dælt fjármagni út úr Seðlabankanum til þarfa ríkissjóðs, ofan á allt annað.

Á þeim tímum, sem við lifum á, er hallalaus ríkisbúskapur grundvallarnauðsyn — ég tel ekki líklegt, að okkur hæstv. fjmrh. greini á um það, það er grundvallarnauðsyn — og í rauninni það fyrsta, sem ríkisstj. er skylt að gera til að leggja fram að sínu leyti jákvætt til efnahagsþróunarinnar. Það kann að vera, að hæstv. ráðh. geti síðar á árinu jafnað þennan geysilega yfirdrátt, sem nú er hjá Seðlabankanum. Ég geri ráð fyrir, að hann eigi eftir að vaxa nokkuð enn, ef þróunin verður svipuð og undanfarin ár í maí og júní og fram í júlí og jafnvel lengur, því að ég hygg, að skattarnir innheimtist ekki fyrr en seint á árinu, vegna þess að það er allt mjög síðbúið. Þótt það takist nú kannske að leggja skattana á einhvern tíma svona undir jólin, þá skilst mér, að það sé allt á seinni skipunum af eðlilegum ástæðum. En vissulega er þetta sá spotti, sem hæstv. ráðh. þyrfti að taka í föstum tökum, svo að ekki komi til þess, að þessi vandræði verði einnig þess valdandi, að hallarekstur verði hjá ríkissjóði í mesta góðæri, sem yfir landið hefur gengið.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða einstaka þætti framkvæmdaáætlunarinnar. Ég hef engar sérstakar athugasemdir við hana að gera í einstökum atriðum, tel enda rétt að það bíði 2. umr., eftir að málið hefur verið skoðað í n. En ég vil aðeins að lokum leggja áherzlu á það og taka undir það með hæstv. ráðh., sem felst í þeirri grg., sem hann hefur hér lagt fyrir okkur, að efnahagsástandið er uggvænlegt. Það hafa að vísu verið mikil góðæri frá árinu 1969, sérstaklega árin 1970 og 1971, og enn þá má segja, að út úr flói, en það er vissulega að syrta að og hæstv. ráðh. sér það sýnilega greinilega af skýrslu hans að dæma, að það eru uggvekjandi horfur fram undan, ef ekki tekst að spyrna við fótum. Þenslan hefur, eins og ég hef vikið að hér í máli mínu að framan, vaxið geysilega. Ef ráðstöfunartekjur vaxa um 50% á einum þremur árum og jafnvel meira, þá sjá menn hvert stefnir, miðað við það að framleiðslan getur auðvitáð aldrei vaxið með þessum hætti. Og ríkisstj. hefur bundið sér bagga með því loforði, sem hún gefur í stefnuyfirlýsingu sinni, að auka kaupmáttinn um 20% á árunum 1972 og 1973. Þetta er auðvitað mjög alvarlegur og ég vil segja fyrirhyggjulaus baggi að taka á sig, vegna þess að vitanlega fer það eftir afkomu þjóðarbúsins hverju sinni, hvað hægt er að auka kaupmáttinn. Allir eru sammála um að stefna að því að gera það svo sem auðið er hverju sinni, en að slá því föstu, ákveðinni prósentu í því efni, það finnst mér vera með því uggvænlegra, sem nokkur ríkisstj. hefur gert, og sá þyngsti baggi, sem kannske nokkur ríkisstj. hefur bundið sér, því að stéttasamtökin fylgjast áreiðanlega með því, að við þetta sé staðið, þó að það geti reynzt ríkisstj. gersamlega ómögulegt.

Þessi framkvæmdaáætlun, fjárlögin og framkvæmdaáform einstaklinga og samtaka í landinu eru nú með slíkum hætti, að það spennir yfir allt þanþol, eins og fjmrh. réttilega kemst að orði, og það segir hér á bls. 9, að framkvæmdaaukningin, sem gert er ráð fyrir á þessu ári, kalli á 1000 mannára viðbót. Þessi framkvæmdaaukning er tekin þá frá atvinnulífinu, framleiðsluatvinnuvegunum, og hljóta allir að sjá, hvert stefnir í þessu efni. Ég býst ekki við, að nokkrum dyljist það. Hér er talað um, að samtök atvinnurekenda hafi varað mjög alvarlega við þessari framvindu. Það segir í skýrslunni. Það er ekki að undra, því að ég hygg, að okkur sé öllum kunnugt um, hvað er að gerast núna þessa dagana. Ég hef hitt marga atvinnurekendur, sem hafa orðið að sæta því nú þessa dagana, að þeirra starfsmenn koma til þeirra og segja: „Ef þið ekki borgið mér hærra kaup, þá er ég farinn.“ Það er að verða svo geigvænleg spenna. Byggingarkostnaðurinn vex viku frá viku að segja má og nú síðast sjáum við eitt atriði, sem ég held, að sé nú gert ráð fyrir í framkvæmdaáætluninni, það er lenging flugbrautar á Keflavíkurflugvelli, sem mun eiga samtals að kosta 500 millj. Ég veit ekki, hvort á að ljúka því á þessu ári eða ekki. Þar er talað um að vinna dag og nótt og slegið upp í blöðum, og ekki mun það draga úr eftirspurninni. Þar á að vinna verulegur fjöldi manna einnig. Og hvaðan á að taka þetta fólk? Iðnreksturinn vantar í mörgum greinum fólk. Sjávarútveginn vantar fólk. Ég er ekki að segja, að þetta hafi ekki gerzt hér áður, en menn sáu einmitt þegar þenslan var mest á árunum, við skulum segja 1963 og 1964, hvernig þetta varð til þess að spenna upp kaupgjaldið í raun og veru meira en eðlilegt var. Það þurfti að taka á þessum málum með föstum tökum en ekki spenna allar framkvæmdir langt yfir þau mörk, sem nokkru sinni hafa áður þekkzt, þó að ég geri ráð fyrir því, að í bili fái hæstv. ráðh. þakkir fyrir það, að hann ráðstafi, útvegi og úthluti margfalt meira fé en íhaldssamur fyrirrennari hans hafi gert. Það er önnur saga, en það er ekki alltaf til góðs, þegar til lengdar lætur, og ég veit, að hæstv. ráðh. gerir sér fulla grein fyrir því.

Nú stöndum við frammi fyrir nýrri stórkostlegri hækkun kaupgjalds. Núna 1. júní. Það er ekki alveg vitað, hver sú hækkun verður, en það má gera ráð fyrir, að hún verði 10–12%, sennilega nær 12% í einum áfanga. Það eru 4% af umsaminni kauphækkun frá samningunum í haust og það er hækkun vísitölu, sem hefur verið gerð grein fyrir hér á Alþ., að muni verða milli 5 og 6%, en er líklegra að verði um 7%. Og er þá ekki tekið tillit til þeirra vísitölustiga, sem talið hefur verið og raunverulega er staðreynd, að launþegar misstu við það, að nefskattarnir voru felldir niður og álögurnar teknar í beinum sköttum, og var þá reiknað út, að næmu um fjórum stigum eða aðeins tæpt eitt stig af þeirri upphæð hefur verið tekið inn í vísitöluna. Þetta eru horfurnar eins og þær eru í dag.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa mál mitt lengra. Það er þegar orðið ærið langt. En mér fannst ég ekki geta komizt hjá því að benda á þessar staðreyndir við 1. umr. um þessa framkvæmda- og fjáröflunaráætlun. Ég endurtek það, að ég er sammála því, að það sé nauðsynlegt í sambandi við fjárlög að verja fé til þeirra framkvæmda, sem bæði þar og hér er gert ráð fyrir. Og ég geri ráð fyrir, að megi finna framkvæmdir fyrir milljarða króna, sem mætti áætla og segja með sama rétti, að væri æskilegt að koma í framkvæmd. En þetta getur aldrei verið afgerandi, þegar við erum að marka efnahagsmálastefnu, heldur hvað þanþol atvinnulífsins leyfir, hvað þanþol peningakerfisins leyfir án þess að við stefnum öllu í óefni. Og það væri vissulega mjög ömurlegt, ef svo mundi fara, að menn flytu hér sofandi að feigðarósi og gerðu ekki í tæka tíð nægilegar ráðstafanir í peningamálum og fjármálum á hinum ýmsu sviðum, svo að hið góða efnahagsástand, sem er í landinu og hefur verið nú undanfarið tveggja ára skeið, gæti orðið til þeirrar jákvæðu uppbyggingar, sem það getur tvímælalaust orðið, ef rétt og skynsamlega er á málum haldið.