29.11.1971
Efri deild: 19. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

89. mál, orlof

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. sé ljóst, hver eru meginatriði þessa frv., og ætla ég því ekki að fara langt út í þá sálma að skýra þau. En ég nefni þó aðeins, að það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, að orlofstíminn verði lengdur í 4 vikur úr 31/2 viku, sem nú er, þ.e.a.s. úr 21 degi virkum í 24 virka daga, og jafnframt ákveðið, að orlofsfé hækki úr 7% í 81/3%. Þá er lagt til í sambandi við framkvæmdakafla orlofslaganna, að þeim málum sé nú skipað með reglugerð, það sem áður hefur verið bundið í lögum, að póst- og símamálastjórnin sæi um framkvæmdina, og er það gert til þess að opna leið til þess að bæta um ýmis framkvæmdaatriði, sem áfátt hefur verið í sambandi við framkvæmd laganna, eins og hér kom mjög greinilega fram við 1. umr. málsins. Orlofsmerkjafyrirkomulagið hefur reynzt illa að mörgu leyti, og þyrfti þar um að bæta. Hins vegar hefur ekki unnizt tími til þess að rannsaka það mál nægilega gaumgæfilega í sambandi við setningu þessara laga, og hefur því verið horfið að því ráði að skipa framkvæmd laganna með reglugerð, og er það ekkert einsdæmi, að það sé gert hér á landi, því að þannig er þetta í orlofslöggjöf ýmissa grannþjóða okkar, t.d. Dana, þar sem framkvæmdin er ákveðin með reglugerð. Hins vegar er það skilyrði um setningu reglugerðarinnar, að hún sé gerð í samráði við samtök launþega og samtök atvinnurekenda, og ætti það að vera nokkur trygging fyrir því, að setning reglugerðarinnar fari vel úr hendi og að tilætluðum notum komi þær breytingar, sem á þessu kunna að verða gerðar.

Þá er einnig gert ráð fyrir nokkurri lengingu á orlofstímanum, þ.e.a.s. því tímabili, sem lögin takmarka, að orlof sé veítt, en það hefur verið frá 15. maí til 15. sept., en nú er gert ráð fyrir að rýma þennan tíma, þannig að orlof megi taka allt frá 2. maí. Í lagafrv. var gert ráð fyrir því, að orlofstíminn yrði allar götur til 30. sept. Hins vegar varð um það atriði ágreiningur í þeirri n., sem undirbjó málið. Fulltrúar launþega lögðu áherzlu á það, að orlofstíminn næði ekki lengra en til 15. sept., m.a. af þeim ástæðum, að það er erfitt fyrir fjölskyldur að fara í orlof eftir miðjan sept. sökum þess, að þá eru skólar byrjaðir og fjölskyldan er bundin þeim böndum, sem af því leiðir.

Þá eru nokkur minni háttar nýmæli í lögunum, t.d. um það, að þar sem svo er ástatt, að fyrirtæki hætti algerlega starfsemi sinni yfir orlofstímann, eigi menn þó ekki rétt á kaupi fyrir þá daga, sem orlofsstöðvunin stendur, þ.e.a.s. ef þeir hafa ekki unnið til slíks orlofs. Þetta er í samræmi við ákvæði danskra laga um þetta efni. Þá er einnig nýmæli um það, að orlofsfé megi flytja á milli ára, þannig að ef orlofsþegi hefur ekki tekið út orlofsfé innan árs frá lokum orlofsársins, þá rennur það sem aukaiðgjald til lífeyrissjóðs hans, sbr. 13. gr.

Þetta eru helztu atriði frv., og um þessi meginatriði öll varð sú n., sem hafði þetta til meðferðar, heilbr.- og félmn., sammála og mælír með frv. Hins vegar þótti n. nauðsynlegt og rétt að gera nokkrar breyt. á frv., eins og það var lagt hér fyrir, og eru brtt. n. á þskj. 129. Þessar breyt. eru fæstar veigamiklar. Margar þeirra eru nánast orðalagsbreytingar, sem gefa frvgr. ofurlítið annan hlæ, eins og t.d. fyrsta brtt., sem er um það, að í 2. mgr. 1. gr. bætist orðið „hagkvæmari“. Það þótti rétt til þess að leggja áherzlu á, að þarna gætu komið til greina önnur ákvæði en þau, sem beinlínis ákveða lengd orlofs eða orlofsfé eða annað slíkt. Það gætu verið önnur atriði, sem aðilum þættu hagkvæm og stæðu í samningum, og er gert ráð fyrir, að þau ákvæði samkv. þessu haldist eða rýrist ekki þrátt fyrir ákvæði laganna. En lögin eru í heild þannig, að þau eru til þess gerð að tryggja launþegum lágmarksrétt til orlofs, en banna hins vegar ekki, að samið sé um meiri réttindi til handa launþegum heldur en í þeim eru ákveðin, enda er það svo, að í ýmsum tilvikum er það þannig, að gildandi samningar kveða á um meiri rétt en í lögum felst.

Þá er í öðru lagi brtt. við 3. gr. frv. um, að orlofsárið sé frá 1. maí til 30. apríl. Þetta er nánast leiðrétting. Í frv., eins og það var lagt fram, var orlofsárið ákveðið frá 15. maí til 14. maí. Hins vegar segir í 4. gr. frv., að orlof megi taka frá 2. maí til 30. sept., en öllum má auðvitað ljóst vera, að orlof verður naumast tekið fyrr en orlofsárið er úti, þannig að því yrði þá að vera lokið fyrir mánaðamótin apríl–maí, ef það á að vera mögulegt Þessi breyt. er því í raun og veru bein afleiðing af ákvæðum 4. gr., en hins vegar hafði frv.-höfundum láðst að breyta þessu ákvæði 3. gr. til samræmis við ákvæði 4. gr.

Þá eru tvær brtt. við 4. gr. frv. Það er í fyrsta lagi, að í staðinn fyrir, að 18 orlofsdagar hið minnsta skuli veittir á tímabilinu frá 2. maí til 30. sept., eins og segir í frv. eins og það var lagt fram, komi 21 orlofsdagur, og síðan í öðru lagi, að í staðinn fyrir „vinnu við landbúnað, byggingar og samgöngur“ komi: vinnu við landbúnað og síldveiðar. Síðar talda atriðið er þess eðlis, að ástæða er til að vekja athygli á því. Samkv. brtt. eru þessi ákvæði um undantekningar um það, hvenær helmingur af orlofi skuli tekinn, bundinn við nákvæmlega sömu atriði og nú eru í gildi. í núgildandi orlofslöggjöf er ákveðið, að allt að helming orlofs megi veita utan orlofstímans í landbúnaði og sjávarútvegi, og n. flytur till. um að færa þetta í sama horf. En í frv. voru byggingar og samgöngur settar inn að ósk atvinnurekenda, en gegn mjög ákveðnum mótmælum launþega í þessum starfsgreinum, sem telja, að réttur þeirra yrði mjög skertur, ef þeim yrði gert að skyldu eða þeim a.m.k. mjög beint inn á þær brautir að taka allt að helmingi orlofsins utan orlofstíma. Þeir sætu þá ekki við sama borð og aðrir launþegar, og finnst mér sú afstaða þeirra vera mjög skiljanleg. Það hefur ekki heldur þótt fært við nánari athugun að leyfa það, að meira en sú viðbót, sem nú er ákveðin almennt í orlofslögunum, komi á annan tíma árs en var áður veitt. Það yrði raunverulega skerðing á þeim rétti, sem launþegar hafa til þess að taka orlof að sumrinu til, en öllum er auðvitað ljóst, að á það leggur launafólk mikla áherzlu að taka orlof einmitt meðan okkar stutta sumar stendur, þannig að þeir fái notið þess að einhverju leyti.

Loks er svo orðalagsbreyting, sem ekki verður talin efnisbreyting, við 5. gr. frv., en þar segir svo: „Atvinnurekandi ákveður í samráði við launþega, hvenær orlof skuli veitt. Hann skal verða við óskum launþega um, hvenær orlof skuli veitt, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar.“ Síðan kemur í frv.: „Atvinnurekandi skal tilkynna launþega svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs, hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.“

Blærinn á þessari gr., eins og hún nú er í frv., er á þann veg, að það mætti kannske halda, að það væri að einhverju leyti verið að taka aftur í síðari hluta gr. það, sem sagt er í þeim fyrri. En andinn er vitanlega sá, að orlofstíminn, hvenær orlof skuli tekið, sé ákvörðun, sem sé í eins miklu samráði milli launþega og atvinnurekanda og unnt er, og það sé talið sjálfsagt, að atvinnurekandi kynni sér óskir launþegans um þetta efni, eins og raunar má segja, að ákveðið sé í fyrri hluta gr. Þess vegna þykir rétt, að tilkynning frá honum um, hvenær launþegi skuli fara í orlof, sé ekki gefin, fyrr en gengið sé úr skugga um vilja fólksins á vinnustaðnum eða við fyrirtækið, og ætla ég, að þetta sé auðskilið mál.

Það er svo að lokum brtt. við ákvæði til bráðabirgða um það, að 2. liður ákvæðis til bráðabirgða falli úr, en þar segir:

„Ákvæði í kjarasamningum verkalýðsfélaga og vinnuveitenda um, að 21 orlofsdagur skuli veittur á tímabilinu 1. júní til 15. sept., skulu breytast til samræmis við 1. mgr. 4. gr., nema aðilar verði með nýjum samningum ásáttir um annað.“

Þetta ákvæði þykir í fyrsta lagi fremur óviðfelldið, þar sem verið er að ýja í þá átt, að ákvæðum í gildandi kjarasamningum verkalýðsfélaga sé breytt með þessum lögum, og á hinn bóginn er það í raun og veru ástæðulaust, þar sem aðilar hafa eftir sem áður rétt til þess að semja um annað en lögin ákveða um það, hvenær orlofið eða þessi hluti af því sé veittur. Það er algerlega opið og virðist vera ástæðulaust, að í lögunum séu nokkrar leiðbeiningar um það, hvernig um það verði samið milli launþeganna og atvinnurekenda.

Þetta eru sem sagt breyt., sem n. varð ásátt um að gera á frv., og tel ég þá ekki ástæðu til að fara um það öllu fleiri orðum. Ég vil þó aðeins að lokum nefna það, að ég tel a.m.k., að hér sé náð verulegum áfanga í því mikla réttindamáli allra launþega í landinu, sem orlofslöggjöfin er. Með samþykkt þessa frv. stöndum við nú í fyrsta skipti, að ég held, algerlega jafnfætis grannþjóðum okkar um þetta mikla réttindamál, en á Norðurlöndum öllum er nú fjögurra vikna orlof samningsbundið eða lögfest og orlofsfé þó öllu hærra í þeim löndum en það er hjá okkur. Þó eru þau ákvæði að sumu leyti öðruvísi, þannig að munurinn er í því efni ekki heldur ýkjamikill okkur í óhag. Ég tel þess vegna, að það beri sérstaklega að fagna þessu frv., og við erum nú ekki lengur eftirbátar annarra um þennan rétt, sem er svo mikilsverður, ekki aðeins fyrir það líf, sem menn lifa, og þá lífsfyllingu, sem það veitir, að geta tekið sér frí og hvíld frá störfum, heldur einnig að því leyti, að ef framkvæmd orlofslaganna er í lagi og er með þeim hætti, sem beztur getur orðið, þá er líka enginn vafi á því, að í slíkri löggjöf felst í fyrsta lagi heilsuvernd á öllum svíðum mannlegrar heilsu, og einnig ætti það, sem til þessara hluta er lagt, að skila sér að verulegu leyti í betra vinnuafli og glaðari starfandi mönnum.