17.05.1972
Efri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Frsm. 2. minni hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég mun stytta mál mitt með tilvísun til þess, að við 1. umr. um mál þetta í hv. d. flutti 2. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, ítarlega ræðu um afstöðu Sjálfstfl. til máls þessa. Það er einnig svo, að komið er að þingslitum og samkomulag er um það að stuðla að því, að þau geti farið fram eins og ætlazt er til nú fyrir hvítasunnu. Ég get þó ekki stillt mig um að drepa á nokkur höfuðatriði þessa máls, sem raunar koma fram í nál. 1. minni hl. fjhn. í Nd., en þar er m. a. á það bent, að á síðasta ári hafi þjóðartekjur vaxið um 12.5%, sem er óvenju mikið, en á sama ári hafi ráðstöfun þjóðartekna í heild aukizt um 21%. Þetta hafi m. a. haft það í för með sér, að greiðsluhalli hafi orðið að upphæð 4 þús. millj. kr. Þetta er uggvænleg niðurstaða í einu mesta góðæri, sem fyrir íslenzkt efnahagslíf hefur komið, og þótt segja megi, að hluti af þessum halla, sem ég gat um, byggist á sérstökum innflutningi skipa og flugvéla og aukningu útflutningsbirgða, þá er samt sem áður um 1 milljarðs kr. halla að ræða í þessu mesta góðæri, sem sögur fara af jafnvel. Á yfirstandandi ári gerir hæstv. fjmrh. ráð fyrir, að þjóðartekjur vaxi enn um 5–7%, en enn er gert ráð fyrir því, að sú óheillavænlega þróun haldi áfram, að ráðstöfun þjóðartekna aukist um enn hærra hlutfall, eða 10–11% á ári, og hallinn á viðskiptajöfnuðinum mun ekki minnka, heldur verða 4 þús. milljarðar kr., og þá er ekki gert ráð fyrir sérstökum innflutningi skipa eða flugvéla eða sérstakri söfnun útflutningsbirgða. Hér er ljóst mál, að verið er að spenna bogann of hátt, og það er ekki gæfusamleg byrjun á svokölluðum áætlunarbúskap núv. hæstv. ríkisstj. að byggja hann á slíkum grunni.

Það fer heldur ekki á milli mála, að slíkar forsendur framkvæmdaáætlunar eru til einskis annars fallnar en þess að auka á verðbólguna í landinu, auka á þann vanda, sem við er að glíma og allir í raun og veru viðurkenna að fyrir hendi sé, eins og ummæli hæstv. fjmrh. sjálfs í þeirri skýrslu, sem hann hefur lagt fyrir Alþ., bera vitni um. Það hefur verið mjög látið í veðri vaka, að nú ætti að taka efnahagsmálin nýjum og ferskum tökum og byggja á samræmdri áætlunargerð, sem hafi það að markmiði að velja og hafna og láta það mikilvægara ganga fyrir hinu, sem minna máli skiptir. Hér sýnist ekki vera um miklar efndir að ræða, þegar litið er á framkvæmdaáætlun hæstv. ríkisstj. Hér er alls ekki um neina röðun framkvæmda að ræða. Hér er ekki verið að velja eða hafna. Hér ægir öllu saman og ekkert getið um neinn samanburð á einstökum framkvæmdum eða samanburð á valkostum framkvæmda. Það ber að harma, að svo er að hlutunum staðið, því að á undanförnum árum hefur það tekizt sæmilega vel að leggja fram hér á þingi framkvæmdaáætlun, sem er innan þess ramma, sem þjóðarframleiðsla og vöxtur þjóðartekna hefur leyft, eftir að þau ár liðu, þegar við sérstaka erfiðleika var að etja og sérstakar ráðstafanir þurfti að gera í atvinnumálum landsmanna til þess að vinna bug á atvinnuleysi. Hér er aftur á móti borið svo í bakkafullan lækinn, að í senn er gert ráð fyrir því, að vinnuaflsaukningin, sem þessi framkvæmdaáætlun hefur í för með sér, kalli á meira en 1000 menn í fulla vinnu í heilt ár. Raunar er hér um enn meiri vinnuaflsþörf að ræða, þar sem á áætluninni hefur verið gerð breyting frá því hún var lögð fram. Þegar það er hugleitt, að allir framleiðsluatvinnuvegir þjóðarinnar búa við vinnuaflsskort, má gera sér ljósa grein fyrir, hver afleiðing af framkvæmd þessarar áætlunar verður. Á hitt verður líka að benda, að fjármögnun þessarar áætlunar er til þess fallin að auka verðbólguna í landinu og valda framleiðsluatvinnuvegunum miklum erfiðleikum. Þar á ég við annars vegar útgáfu ríkisskuldabréfa, sem nú er tífölduð frá því sem gert var ráð fyrir í framkvæmdaáætlun fyrra árs. Það er að vísu sagt, að útgáfa verðtryggðra spariskírteina auki ekki á dýrtíðina eða verðbólguna eða þensluna í þjóðfélaginu, þar sem verið er um leið að taka fjármagnið úr umferð hér á landi. Það fer samt sem áður ekki hjá því, að það er verið að taka þetta fjármagn frá viðskipta- og atvinnulífinu og það þrengir kosti atvinnufyrirtækjanna og framleiðslunnar, þegar þetta fjármagn er tekið úr hinum venjulega farvegi. Það er borin von að mínu áliti eins og horfir í verðbólgu- og dýrtíðarmálum, að hér verði um nettóaukningu á sparifjármyndun í landinu að ræða, heldur eru allar líkur á því og öll rök, sem til þess benda, að þarna verði um að ræða hreinan frádrátt þess fjármagns, sem ella væri til umráða fyrir atvinnu- og viðskiptalífið í landinu og til umráða fyrir einstaklinga í þeirra búsýslu hvers og eins, eins og t. d. til þess að fá bráðabirgðalán til húsbygginga, svo að dæmi sé nefnt.

Hitt atriðið, sem ég vildi nefna, er margföldun erlendrar lántöku til þess að fjármagna framkvæmdaáætlunina miðað við það, sem gert var ráð fyrir í framkvæmdaáætlun ríkisstj. frá fyrra ári. Þar er einnig um tíföldun að ræða og ljóst er, að innflutningur erlends fjármagns í stórum stíl sem hér er um að ræða á þeim tíma, sem boginn er svo hátt spenntur sem raun ber vitni um, er ekki til neins annars fallinn en að auka á dýrtíðina og verðbólguna í landinu. Það er einnig vert að benda á það, að slíkar erlendar lántökur í slíku góðæri, sem við nú lifum við, spilla fyrir möguleikum okkar og skilyrðum í framtíðinni og á næstu árum til þess að taka erlend lán til stórframkvæmda, sem eðlilegt er að taka erlend lán til og eru mér þá efst í huga fyrirætlanir um virkjanir, eins og t. d. Sigölduvirkjun, þar sem auðvitað hlýtur að verða um erlendar lántökur að ræða, en lántökugeta okkar verður metin þeim mun minni sem greiðslubyrði erlendra lána er meiri þegar að þeirri lántöku kemur. Hér hygg ég, að um sé að ræða mjög alvarlega staðreynd, sem hæstv. ríkisstj. hefur engan veginn tekið tillit til.

Ég gat um það hér í upphafi máls míns, að ég mundi ekki fjölyrða um dagskrármálið, og gat um ástæður fyrir því. Ég vil þó áður en ég lýk máli mínu aðeins drepa á þá ábendingu hv. frsm. meiri hl. fjhn., — sem ég sé reyndar, að virðir framkvæmdaáætlun ríkisstj. ekki meira en svo, að hann er ekki viðstaddur umr., og er hann þó formaður í Framkvæmdastofnun ríkisins, sem á í orði kveðnu að bera veg og vanda af áætlunargerð af þessu tagi, — að gefnu tilefni frá formanni Framkvæmdastofnunar ríkisins, því tilefni, að hann vildi, að við stjórnarandstæðingar gerðum till. um lækkun á einstaka liðum framkvæmdaáætlunarinnar, þá vil ég aðeins geta þess, að hún hefur verið rétt rúma viku, þegar allt er talið með, til meðferðar hér á hv. Alþ. í báðum d. og nú í ár hafa ekki fylgt nein drög að þeirri framkvæmdaáætlun með frv. til fjárl., eins og verið hefur á undanförnum þingum. Þegar af þeirri ástæðu er algjörlega útilokað fyrir stjórnarandstöðuna að gera nokkrar brtt. Það er einnig mjög hæpið, að það sé hlutverk stjórnarandstöðunnar sem slíkrar að gera einstakar brtt. Hún hlýtur í málflutningi sínum og gagnrýni fyrst og fremst að benda á þann heildarramma og meginstefnu, sem að hennar áliti eigi að fylgja í gerð framkvæmdaáætlunar, og ég hygg, að það hafi verið gert með þeirri gagnrýni, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. flutti á þessa framkvæmdaáætlun við 1. umr. í d. og málflutningi okkar sjálfstæðismanna í Nd. Hann vill að það komi skýrt fram, í hverju við teljum, að stefnumörkun framkvæmdaáætlunarinnar eigi að vera fólgin.

Nefnilega þeirri stefnumörkun, að ekki sé gert ráð fyrir meiri ráðstöfun þjóðartekna en vöxtur þeirra á hverjum tíma gefur tilefni til og sízt af öllu ber að gera það á tímum. þegar ofspenna er í efnahagslífinu og vinnuaflsskortur.

Ég hlýt svo áður en ég lýk máli mínu að vekja enn á ný athygli á því, að þótt Framkvæmdastofnun ríkisins hafi að vísu að því er þingkjörna stjórn Framkvæmdastofnunar snertir ekki fjallað um þetta mál eða framkvæmdaáætlunina sem slíka nema í einni sjónhendingu, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. gat um hér í ræðu sinni við 1. umr. málsins, þá má vænta þess, að kommissararnir hafi verið með fingurna í spilinu eða í það minnsta, að stjórnarsinnar í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar hafi fylgzt einkar vel með málinu. Það er eins og þessir menn, stjórnarsinnarnir í stjórn Framkvæmdastofnunar, fyrirverði sig fyrir málið, því að ég tek eftir því, eins og ég gat um áðan, að hv. 4. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, formaður stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar, og hv. 1. þm. Vestf„ varaformaður Framkvæmdastofnunarinnar, Steingrímur Hermannsson, hafa lítið látið sjá sig við umr. um þetta mál í d., en látið hæstv. fjmrh. um það að hlýða á þessar umr. og bera ábyrgð á þeim vanskapnaði, sem hér er um að ræða, og svo sterkt tek ég til orða, þar sem af völdum þessarar framkvæmdaáætlunar mun leiða skaða yfir efnahagslíf þjóðarinnar, eins og á daginn mun koma.