26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

10. mál, erfðafjárskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Í hv. heilbr.- og félmn. náðist ekki samstaða um frv. það, sem hér er til 2. umr., um breyt. á l. um erfðafjárskatt. Við fulltrúar Sjálfstfl. í n. höfum því skilað sérstöku nál. á þskj. 542 og flytjum brtt. á þskj. 543. Áður en ég vík að brtt. og frv. yfirleitt, þá vil ég fara nokkrum almennum orðum um erfðafjárskatt.

Segja má, að erfitt sé að ræða um erfðafjárskatt, án þess að athuga nokkuð spurninguna um það, hvort yfirleitt sé réttmætt, að fjármunir gangi í arf. Það er þó ljóst, að þær umr. eiga vart heima hér nú og verður því aðeins tæpt á þessu efni. Það er háð þeim efnahagslegu aðstæðum, sem menn búa við, hvort eðlilegt er talið, að fjármunir erfist frá einni kynslóð til annarrar. Í dreifbýli eða landbúnaðarhéruðum, þar sem ein kynslóð tekur hægt og hægt við af annarri eftir því sem fyrri kynslóð eldist, þá hljóta erfðir að teljast sjálfsagðar og sanngjarnar. Á ættaróðali, þar sem litið er á eignarrétt heimilisföður nánast sem formsatriði meðan raunin er sú, að fjölskyldan öll býr og vinnur á jörðinni, þá gerist í sjálfu sér ekkert sérstakt í efnahagslegu tilliti, þegar eigandinn eða heimilisfaðirinn andast. Vinnan heldur áfram sem áður. Hin nýja kynslóð finnur ekki, að hún sé komin í nokkra betri stöðu en áður. Í slíku tilfelli sýnist erfðafjárskattur óréttlátur, því að í sjálfu sér hefur engin ný eignamyndun átt sér stað hjá þeim, sem erfir. Það kann svo að vera, að í raun hafi hann tekið allar ákvarðanir viðvíkjandi eigninni í mörg ár áður. Nokkuð annað er uppi á teningnum í nútíma borgarþjóðfélagi, einkum þegar það, sem fellur í arf, er svo kallað „passivt kapítal“. Sá, sem hlýtur arfinn, er hér í raun betur settur en hann var áður, þar sem um er að ræða aukningu fjármuna, sem erfingi hefur ekki haft mikið fyrir að vinna fyrir og hefur ekki haft kannske nein afskipti af áður. Og með hliðsjón af því er ekki óeðlilegt, að sú eignaaukning verði skattlögð að einhverju marki.

Í nútímaþjóðfélagi koma svo fram hugleiðingar um það, hvort arfur sé ekki óeðlilegur yfirleitt og leggja eigi því á þunga erfðafjárskatta. Skoðanamyndun í þessa átt að takmarka verulega þann hlut, sem fellur í arf, hefur að nokkru átt sér stað vegna þeirrar „demókratíseringar“, sem pólitískt og efnahagslega hefur átt sér stað í hinum ýmsu þjóðfélögum. Hugsunin um það, að allir eigi að hefja sitt lífshlaup jafnir, helzt eignalausir. Háir erfðafjárskattar eru ein leiðin og e. t. v. hin áhrifaríkasta til þess að ná þessu marki. Sem málamiðlun milli þeirra aðila, sem vilja, að arfur sé ekki viðurkenndur, og þeirra, sem vilja vernda erfðaréttinn, hafa menn hallazt að erfðafjárskatti sem heppilegri lausn. Ríkið verður þá á sinn hátt meðerfingi. Rökin fyrir erfðafjárskatti fyrir utan það, sem nefnt hefur verið, hljóta að vera þau, hverja möguleika erfingi hefur til þess að greiða skattinn. Það er hinn auðfengni hagnaður, sem menn vilja skattleggja. En samtímis verða menn að gera sér ljóst, að möguleikinn til þess að greiða skattinn er mjög mismunandi eftir innbyrðis sambandi milli arfláta og erfingja.

Þar sem sonur erfir bújörð eftir föður, kann að reynast erfitt að greiða skattinn. Við slíkan arf losnar ekkert reiðufé úr læðingi, eins og ég sagði hér áðan. Auk þess kunna að vera aðrir erfingjar, sem þurfa að fá sitt. En nokkuð annað er, þegar skatturinn á að greiðast af fjármunum, sem erfinginn hefur ekkert haft af að segja áður. Erfinginn verður þá betur settur og því í sjálfu sér ekki í neinum vandræðum með að greiða skattinn. Ef við föllumst á þessi rök, þ. e. að erfðafjárskattur verði lagður á eftir hæfi manna til að greiða hann, þá hljótum við að hafna í þeirri reglu, að skatturinn fari eftir stærð erfðahlutans. Og það er hæfi viðtakandans eða erfingjans, sem við leggjum mælistiku á. Fyrir hann skiptir það öllu máli, hver hlutur hans verður. Ef skatturinn væri hins vegar ákveðinn eftir þeirri heild, sem erfist, þ. e. til margra erfingja, þá færi matið eftir hæfi þess látna til þess að greiða skattinn, en slíkt hljómar nokkuð undarlega, enda hefur þeirri reglu yfirleitt verið hafnað. Reglan um hæfnina til að greiða skattinn leiðir eftir almennum skilningi til þess, að stighækkun skattsins eftir stærð erfðahlutans hefur verið tekin upp. Sú spurning vaknar, hvort ekki væri raunhæfara að meta skattinn eftir þeirri aukningu á heildareignum erfingjans, sem verður vegna arfsins, fremur en meta hann eftir erfðahlutanum einum. Segja má, að arfur, sem fellur í hlut þess, sem á fyrir miklar eignir, geri honum léttara að greiða skatta yfirleitt, léttara en þeim, sem engar eða litlar eignir á fyrir. Því mætti hugsa sér, að erfðafjárskattur yrði ekki aðeins metinn eða ákveðinn eftir stærð erfðahluta heldur einnig eftir eignum þeim, sem erfingi á fyrir, þegar arfurinn fellur. Hin venjulega regla í löggjöf flestra þjóða er hins vegar sú, að það er látið duga, að erfðafjárskattur sé stighækkandi eftir stærð arfsins.

Þetta, sem ég hef hér sagt, eru hugleiðingar um það, hver rök megi færa fram fyrir réttmæti erfðafjárskatta. Það eru hins vegar engin rök fyrir réttmæti erfðafjárskatts, að því fé, sem þannig kemur í ríkissjóð eða erfðafjársjóð, sé varið til hinna gagnlegustu málaflokka eins og t. d. til þess að byggja endurhæfingarstöðvar. Slíkum rökum hafna ég algerlega. En hversu háir eiga þá erfðafjárskattar að vera? Þar getur menn greint á, og sú hefur orðið raunin hér.

Ein röksemdin fyrir því, að erfðafjárskattar skuli vera hóflegir, er sú, að þá muni ekki dregið úr áhuga manna á því að spara, en óhófleg skattlagning á sparnað er í grundvallaratriðum röng. Þessi röksemd byggir á því, að sparnaður manna eigi sér m. a. stað vegna þeirrar löngunar að láta eftirkomendum sínum eitthvað eftir. Auðvitað á sparnaðarlöngun manna sér ýmsar aðrar forsendur, og það er heldur ekki hægt að fullyrða, að menn hætti að spara, þótt ein forsenda fyrir þeirri ákvörðun falli brott. Sá, sem sparar til þess að auka atvinnurekstur sinn, fær samtímis fullnægt þeim óskum sínum að geta leyst vissar þarfir eftirkomenda sinna. En þótt það síðara geti ekki orðið, t. d. vegna þess að niðjar hans deyi á undan, þá má vel hugsa sér, að hann spari samt til þess að auka rekstur sinn. Þá er það einnig fært fram gegn háum erfðafjársköttum, að þeir hafi skaðleg áhrif á efnahagslífið. Menn hafa áhyggjur af því, að hækkaðir erfðafjárskattar geri erfingjum erfiðara fyrir að taka við bújörðum, eins og ég hef nefnt, geri syni ómögulegt að taka við rekstri fyrirtækis að föður látnum o. s. frv. Þetta eru staðreyndir, en þeir, sem eru fylgjandi hækkun erfðafjárskatta, vilja einmitt hindra, að slíkt framhald á rekstri eigi sér stað. Þeir telja það hlutverk hins opinbera að sjá svo um, að allir hafi jafna möguleika í byrjun síns starfsferils. Það fyrirtæki eða bújörð, sem barn fær ekki haldið fyrir háum erfðafjárskatti, verður þá selt í annarra hendur. Þetta er einmitt sú lausn, sem þeir óska, sem eru á móti erfðarétti.

Ég ætla ekki að hafa þessar hugleiðingar öllu lengri um það, sem liggur til grundvallar álagningu erfðafjárskatts, þótt margt mætti hér vissulega segja fleira. Ég ætla því ekki að ræða hér, hvers vegna við höfum hafnað í þeirri reglu að hafa erfðirnar þrjár og miða skattþrepin annars vegar við þessa erfðaflokka og hins vegar við stærð erfðahlutans. Þessi regla hefur gilt hér, og það er gert ráð fyrir, að hún gildi áfram. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga. Okkar löggjöf er að þessu leyti líkust því, sem nú gildir í Danmörku. Segja má, að það sé höfuðregla í þeim löndum, þar sem eignarskattar eru notaðir, að þar séu erfðafjárskattar hóflegir. Þetta á t. d. við um Danmörku, Þýzkaland og Noreg. Aftur á móti eru erfðafjárskattar mjög háir í Englandi. Þar er bæði miðað við stærð erfðahlutans og alls þess, sem arfláti lætur eftir sig. En í Englandi þekkjast hins vegar ekki eignarskattar. Þar þekkjast fasteignaskattar, og þeir eru mjög svipaðir því sem þeir eru nú hér hjá okkur. En eiginlegir eignarskattar þekkjast ekki þar.

Ég sný mér þá að því að gera grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt ásamt hv. 12. þm. Reykv. á þskj. 543. Ég tek undir það, sem hv. 3. landsk. þm. sagði hér áðan, að það kemur fram grundvallarmunur, pólitískur munur á þessum till. okkar og frv. En þá er það komið fram, að rökin fyrir hækkun erfðafjárskatta, sem færð eru fram með frv., eru ekkert aðalatriði. Þar eru aðalrökin þau, að erfðafjársjóð þurfi að efla til þess að hann geti staðið betur undir sínu hlutverki, en hér er það komið frá hv. 3. landsk. þm., að þetta er þeirra pólitíska mat, að erfðafjárskattar skuli vera hærri heldur en þeir hafa verið.

Við 1. gr. gildandi laga gerum við till. um þá breytingu, að eftirlifandi maki greiði ekki erfðafjárskatt af erfðahluta sínum. Það er því ekki rétt hjá hv. 3. landsk. þm. að þetta sé ekki efnisbreyting. Þetta er grundvallarbreyting frá því, sem verið hefur. Í fyrsta lagi eru þau rök fyrir þessari till., að það verður að teljast í fyllsta máta óréttlátt, að eftirlifandi maki skuli þurfa að greiða sérstakan skatt af eignum, sem hjónin hafa í sameiningu aflað á lífsleiðinni. Nóg er áfallið að missa maka sinn, þótt skattheimtan komi þar ekki til. Í öðru lagi er hér um hreina tvísköttun að ræða, en af slíku höfum við nóg í ýmsum ákvæðum skattalaga. Ef eftirlifandi maki þarf að skipta búinu til þess að niðjar fái sinn erfðahlut, þá greiðir hann skattinn af 1/3 úr hluta hins látna. Þegar svo hinn langlífari fellur frá, greiða niðjarnir aftur skattinn af sama hluta. Satt að segja þykir mér alveg furðulegt, að þessi regla skuli hafa verið í lögum allt frá árinu 1921. Raunar hafði hv. heilbr.- og félmn. fallizt á þessa till. En síðan var kippt í spottann, ég veit ekki af hverjum, kallaður saman fundur á ný, samþykkt gerð þannig, að frv. var fært í sitt upprunalega horf.

Við 2. gr. gerum við till. um önnur skattþrep og aðrar prósentur í hverju skattþrepi og þær eru þessar, að af fyrstu 500 þús. kr., sem falla í arf, greiðist 3%, af næstu 500 þús. 4%, af þar næstu 5%, af þar næstu 6% og því, sem þar er yfir, 7%. Við 2. erfð gerum við einnig brtt. og miðum skattþrepin við 500 þús. kr. mörk og erum með aðrar prósentur, 6% af fyrstu 500 þús., 8% af næstu, 10% af þar næstu, síðan 12 og loks 14% af því, sem þar er fram yfir. Við 3. erfð erum við með sömu skattþrepin, 500 þús. kr., 15% af fyrstu 500 þús., þá 20, 25, 30 og hæst fari það í 35%, þegar komið er yfir 2 millj.

Við 3. gr. gerum við brtt. í samræmi við brtt. við 1. gr. laganna, þ. e. að undanþeginn skatti verði erfðahluti eftirlifandi maka.

Við 6. gr. gerum við þá till., að við síðasta málslið bætist orðin „að frádregnum áhvílandi skuldum“. Þetta kann að vera óþarft, en þetta er gert til þess að taka af öll tvímæli um, að skatturinn reiknist af nettóeign. Málsliðurinn verður þá: Fasteignir skal telja á fasteignamati að frádregnum áhvílandi skuldum.

Þá vil ég geta þess, að ég mæli með samþykkt brtt. á þskj. 544, sem flutt er af hv. 10. þm. Reykv.

Ég skal svo aðeins nefna dæmi um skattinn, eins og hann yrði samkv. þeim brtt., sem ég hef hér gert grein fyrir, og bera það saman við dæmin, sem nefnd eru í fskj. II með frv. Arfurinn er íbúð, nýtt fasteignamat 1 millj. 50 þús. kr., eins og er í dæminu á fskj. II. Arfurinn fellur til eftirlifandi maka og tveggja barna. Þá yrði hrein eign til skipta 350 þús. kr. í staðinn fyrir 525 þús., þar sem niður er fallinn skattur eftirlifandi maka. Hlutur einstakra erfingja er hinn sami, 175 þús. kr. og skattur á hlut 5250 kr. í staðinn fyrir 8750 og skattur samtals 10500 í stað 26250.

Í öðru lagi, arfurinn fellur til þriggja barna. Þá er hlutur einstakra erfingja sá sami, 350 þús. kr., skattur á hlut 10500 kr. í stað 19000 og skattur samtals 31500 í stað 57 þús.

Í þriðja lagi, ef arfur fellur til þriggja systkina. Hlutur einstakra erfingja er hinn sami, 350 þús., skattur á hlut 21 þús. kr. í stað 55500 og skattur samtals 63 þús. kr. í stað 166500. Ég hef ekki lagt vinnu í það að áætla, hverjar tekjur erfðafjársjóðs kunna að verða miðað við þessar brtt., enda skiptir það engu máli. Eins og ég hef áður sagt, hafna ég þeirri röksemd, að erfðafjárskatt þurfi að hækka til þess að erfðafjársjóður geti betur gegnt hlutverki sínu, sem er að kosta að nokkru byggingu endurhæfingarstöðva. Til þeirra mála þarf að veita það fé, sem þarf, og þörfin er vafalaust mikil. Og við heitum stuðningi okkar í því máli. En markaður tekjustofn sem þessi er alls ekki hafinn yfir alla gagnrýni, og menn hafa frekar verið að hverfa frá slíkri skipan mála, þ. á m. núv. hæstv. ríkisstj. Því er rétt að hreyfa því hér í umr., hvort ekki væri skynsamlegra að leggja erfðafjársjóð niður sem slíkan, en erfðafjárskattur rynni þá í ríkissjóð. Ríkissjóður mundi síðan fjármagna byggingu endurhæfingarstöðva eins og aðra þætti heilbrigðis- og félagsmála. Um þetta er þó ekki gerð till. núna, enda er þegar gengið frá fjárlögum yfirstandandi árs.

Ég fer nú að stytta mál mitt, herra forseti. Mönnum kann að sýnast, að hér sé ekki neitt stórmál á ferðinni, þar sem áætluð upphæð erfðafjárskatts samkv. frv. er 36.1 millj. kr. Það þykir mönnum víst ekki há upphæð í dag miðað við þær þúsundir milljóna, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að innheimta af þegnum þessa lands á þessu ári. En mér sýnist kominn tími til að staldra við og reynt verði að stöðva þessa gegndarlausu skattheimtu auk þess sem í þessu tilfelli er gengið gegn grundvallarhugsun meiri hluta þjóðarinnar. Það fullyrði ég. Það er, að einstaklingurinn megi ráðstafa eignum sínum eins og hann vill, án þess að ríkið hirði bróðurpartinn af þeim eignum úr hendi viðtakanda eða erfingja.

Hv. 3. landsk. þm. fann hér póesíu áðan í okkar nál. Má ég kannske að lokum koma með aðeins meiri póesiu. Tómas segir í kvæði sínu Hótel Jörð: „Því alls, sem lífið lánaði, dauðinn krefst.“ Það lán þurfa allir að greiða. En ríkið á hins vegar ekkert inni hjá okkur, þegar við hverfum héðan. Við höfum þegar greitt skatta af tekjum okkar, þ. á m. þeim tekjum, sem farið hafa til eignamyndunar. Því er raunverulega ekkert að greiða til ríkisins af því, sem niðjar okkar og venzlamenn hljóta að okkur horfnum.