10.05.1972
Efri deild: 78. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

10. mál, erfðafjárskattur

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Frv. um erfðafjárskatt hefur verið til meðferðar í hv. Nd. og afgreitt þaðan. Ástæðan til þess, að frv. er fram borið, er, að erfðafjárlögin hafa lengi verið óbreytt og flestar tölur og viðmiðanir í þeim eru miðaðar við allt annað verðlag en nú gildir. Hámark í 1. erfð var t. d. komið við 40 þús. kr. upphæð, en nú veltur allt á margfalt fleiri krónum og þess vegna eru öll þrep í erfðastigunum þremur önnur í þessu frv. En hámarkið í hverri erfð fyrir sig er það sama og áður var. Það er í 1. erfð ekki farið yfir 10% arftöku, í 2. erfð ekki yfir 25% og í 3. erfð er hámarkið 50%. Þetta eru sömu hámörkin og gilt hafa í okkar erfðalöggjöf. Ísland mun vera í tölu þeirra ríkja, sem einna skemmst ganga í arftöku samkv. lögum, og er okkur helzt að jafna við nágrannaþjóð okkar Dani að þessu leyti, en þeir hafa mjög hófsamlega erfðalöggjöf.

Í 1. erfð, sem nær til þess hjóna, sem lifir hitt, til kjörniðja, niðja, fósturbarna og svo að þriðjungshluta, ef ráðstafað hefur verið með erfðaskrá til annarra, skal svara arfi, sem nemur aðeins 5% af fyrstu 200 þús., 6% af næstu 200 þús., 7% af þriðju 200 þús., 8% af þeim fjórðu og þegar kemur upp í millj., þá er komið í 10% arftöku og hækkar ekki prósentutalan úr því.

Erfðafé hverfur í 2. erfð til foreldra hins látna eða niðja þeirra, sem ekki heyra undir staflið A, og skal svara af arfi hvers erfingja um sig. Þar eru prósentutölurnar orðnar mun hærri eins og eðlilegt er, byrja á 15% af fyrstu 200 þús. og enda í 25%, þegar komið er upp í milljón eða þar yfir.

Þá er það, þegar komið er til útarfanna í 3. erfð. Þar er um að ræða afa og ömmu hins látna eða niðja þeirra, sem ekki heyra undir stafliðina A og B, eða fjarskyldari erfingja eða óskylda, og skal þar svara af fyrstu 200 þús. 30% og síðan stighækkandi þar til komið er upp í milljón og þar yfir, þá er hámarkið 50% í 3. erfð til fjarskyldra erfingja og útarfa.

Þetta er meginefni frv. og vænti ég þess, að það fái skjóta afgreiðslu í hv. d. og verði að lögum fyrir þinglok. Erfðafjársjóðurinn hefur mörgum nytsamlegum hlutverkum að gegna. Hans aðalhlutverk er að bera uppi kostnað af endurhæfingarstöðvum í landinu og bjarga þannig starfsgetu þeirra manna, sem fyrir áföllum hafa orðið og þurfa á endurhæfingu að halda til að geta orðið sjálfum sér og þjóðfélaginu að gagni. Þetta er tilgangurinn með erfðafjársjóðnum, hans megintilgangur, og þarf frv. ekki sízt þess vegna að ná afgreiðslu, þar sem löggjöfin, eins og hún nú er, er mjög úrelt orðin. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og félmn.