06.12.1971
Neðri deild: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

89. mál, orlof

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Á s.l. hausti skipaði félmrn. n. til þess að endurskoða lög um orlof. Það varð að samkomulagi, að n. væri skipuð tveimur fulltrúum frá Vinnuveitendasambandi Íslands, einum fulltrúa frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og þremur frá Alþýðusambandi Íslands, en oddamaður í n. og formaður yrði ráðuneytisstjórinn í félmrn. Þessi n. tók þegar til starfa og ræddi hugsanlegar breytingar á orlofslöggjöfinni og þá einkanlega út frá því sjónarmiði, að á henni yrðu gerðar breyt. þannig að orlofsmálum væri skipað með líkum og helzt ekki lakari hætti en í nágrannalöndum okkar, sem við höfðum á vissu tímabili átt samleið með, en dregizt nokkuð aftur úr á seinni árum. Fyrir örskömmu afgreiddi þessi n. frv. að nýjum orlofslögum, og bar þar ekki mikið á milli aðilanna á vinnumarkaðinum, og var málið tekið til umr. í hv. Ed., og þar varð fullt samkomulag um nýja orlofslöggjöf, hún afgreidd út úr d. fyrir nokkru með shlj. atkv.

Meginbreytingarnar í þessu orlofslagafrv. eru þrjár, skulum við segja.

Í fyrsta lagi skal orlof vera tveir dagar fyrir hvern unnin mánuð miðað við siðasta orlofsár, en til þessa hefur þetta verið 11/2 dagur fyrir hvern mánuð.

Önnur breytingin, sem er nokkurn veginn afleiðing af þessari lengingu orlofsins, er sú, að atvinnurekandi skal greiða í orlofsfé 81/3% af launum, en nú er það 7%. Það fer nokkuð eftir því, hvaða forsendur menn gefa sér, hvert orlofsféð á að vera tilsvarandi við tvo daga í mánuði eða 24 virka daga á árí, og gæti þar verið um að ræða 8% eða jafnvel allt upp í 9%. Hjá Dönum er orlofið 4 vikur, en orlofsféð er þar reiknað 9%. Hér deildu menn ekki um annað en það, hvort rétt væri, að orlofsféð yrði 8% eða 81/3%, svo að það var nú ekki mikið, sem þar bar á milli.

Það þriðja, sem ég vil segja, að geti verið nokkuð veigamikil breyt. frá gildandi orlofslögum, er það, að í þessu frv. er ekkert ákvæði um orlofsmerki eða það kerfi, að orlofsþegar skuli fá orlofið greitt í merkjum. Það kerfi hefur ekki gefizt að öllu leyti vel. Það hefur sýnt sig, að bæði atvinnurekendur og verkafólk hafa komizt fram hjá þessum ákvæðum, sem áttu þó að vera til þess að tryggja, að orlofsfjárgreiðslunum væri ekki blandað saman við almennar launagreiðslur, og gallar því sýnilega komið fram á þessu kerfi, auk þess sem það er anzi mikil skriffinnska, sem því fylgir. Öll ákvæði varðandi orlofsféð og það fyrirkomulag allt saman varðandi orlofsmerki er tekið út úr frv. og gert ráð fyrir, að um það verði sett ákvæði í reglugerð. Ef mönnum sýnist ekki fært að finna annað kerfi, sem betur henti og betur tryggi rétt orlofsþeganna, þá verða sjálfsagt reglugerðarákvæðin svipuð og í gildandi löggjöf. En í athugun er, hvort ekki sé hægt í gegnum gírókerfið að tryggja þennan rétt orlofsþeganna öllu betur en gamla kerfið gerir og jafnframt að losna við skriffinnsku í sambandi við það. Þetta er í athugun, en henni ekki fulllokið, og mun þó ekki áframhaldandi athugun á þessu máli verða látin tefja það, að reglugerð verði þegar tilbúin og sett, þegar þetta frv. hefur fengið staðfestingu sem lög. En þá yrðu sem sé ákvæðin svipuð í reglugerð og hingað til hafa verið í gildandi lögum, ef ekki þættu sýnilegir kostir við það að taka upp nýtt kerfi í sambandi við gírókerfið.

Það er einnig breyting á orlofstímanum, og heimiluð er skipting á orlofi vegna lengingarinnar, þó þannig, að 21 orlofsdagur sé veittur á tímabilinu 2. maí til 15. sept., en heimilt að geyma þá þrjá daga til annars hluta ársins eftir samkomulagi. Það er atvinnurekandinn, sem ákveður í samráði við launþega, hvenær orlof skuli veitt, en hann á að verða við óskum launþega um orlofstímann, orlofstökuna, þegar unnt er vegna starfseminnar að taka tillit til óska orlofsþeganna. Það er þó sem sé að verulegu leyti samkomulagsatriði.

Ég held, að þetta séu þau atriði, sem helzt víkja frá gildandi löggjöf um orlof. Að öðru leyti höfum við haft reynslu af orlofslöggjöf hér um langan tíma, svo að við getum ekki um það deilt, að þetta er eitt af þeim réttindaatriðum vinnandi fólks, sem samkomulag hefur verið um, að skipað skuli með löggjöf, þó að ýmis atriði varðandi orlof hafi einnig verið og upphaflega verið ákveðin með samningum atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, enda er í öllum okkar nágrannalöndum þessum málum skipað með löggjöf.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn. og 2. umr.