17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

249. mál, Bjargráðasjóður

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. um Bjargráðasjóð byggist á heildarendurskoðun þessara laga. Því fylgja aths. og er einkum rækilega gerð grein fyrir þeim nýmælum, sem í frv. eru, en samt þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um hlutverk og starf Bjargráðasjóðs og þá í leiðinni að gera grein fyrir þeim nýmælum, sem í frv. felast.

Frv. til l. um Bjargráðasjóð Íslands, sem hér liggur fyrir, er samið af stjórn sjóðsins og flutt af ríkisstj. samkv. ósk bjargráðasjóðsstjórnar. Með þessu frv. er ekki lagt til, að tekjuöflun sjóðsins verði breytt í neinu frá því, sem nú er, en árlegar tekjur sjóðsins eru þessar:

a. Framlög sveitarfélaga, sem nema skulu 50 kr. fyrir hvern íbúa sveitarfélags miðað við þjóðskrá 1. des. árið á undan.

b. 0.25% af söluvörum landbúnaðarins, sbr. 2. gr. laga nr. 38 15. febr. 1945, um stofnun búnaðarmálasjóðs.

c. Framlag ríkissjóðs, sem nema skal samanlögðum framlögum samkv. stafl. a og b.

d. Vextir af fé sjóðsins.

Lagt er til, að deildir sjóðsins verði aðeins tvær: almenn deild og búnaðardeild, en samkv. gildandi lögum eru deildir sjóðsins þrjár; séreignadeild, sameignadeild og afurðatjónadeild landbúnaðarins. Ráð er fyrir því gert, að séreignadeild sýslu- og bæjarfélaga verði lögð niður sem sérstök deild í sjóðnum og því verði ekki lögð óafturkræf framlög til séreigna, en eldri ákvæði um ráðstöfun séreigna sýslu- og bæjarfélaga, eins og þær eru við gildistöku frv., haldist óbreytt. Þessar séreignir sýslnanna og kaupstaðanna námu við reikningslok 1971 samtals 32 462 961,90 kr. Gert er ráð fyrir, að ákvæðin, sem gilt hafa frá öndverðu um séreignir þessar, gildi framvegis um séreignirnar eins og þær verða, þegar frv. þetta öðlast lagagildi, með þeirri undantekningu, að 2. mgr. 8. gr. laganna falli niður, en hún hljóðar svo:

„Ef haustbirgðir reynast svo litlar í einhverju héraði, að hætt er við bjargarskorti fyrir menn eða skepnur, ef illa vetrar, þá má sýslunefnd eða bæjarstjórn með samþykki bjargráðastjórnar nota séreign sína í sjóðnum til að kaupa eða tryggja varaforða, en það fé, sem þannig er notað, skal greiða aftur að fullu, en vaxtalaust, í bjargráðasjóðinn á ársfresti, nema því verði ráðstafað samkv. 1. málsgr. þessarar gr.

Ákvæði þetta hefur aldrei komið til framkvæmda, enda mundi það engan vanda hafa leyst, þó að notað hefði verið. Lagt er til, að framvegis verði eins og nú er heimilt að veita deildum sjóðsins lán af séreignafénu gegn almennum vöxtum af sparifé. Þetta hefur verið gert undanfarin harðindaár. Samkv. reikningum sjóðsins fyrir árið 1971 nemur bráðabirgðalán, sem afurðatjónadeild fékk hjá séreignadeildinni, 6 millj. 940 þús. kr. auk ógreiddra vaxta að upphæð 485 800 kr.

Samkv. 8. gr. frv. er hlutverk almennu deildar sjóðsins að veita einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar tjón á fasteignum og lausafé af völdum náttúruhamfara, svo sem óveðurs, flóða og vatnavaxta, skriðufalla, snjóflóða, jarðskjálfta og eldgosa. Samkv. reikningum sjóðsins fyrir árið 1971 voru eignir sameignadeildar, sem svarar til almennu deildarinnar samkv. frv., 37 957 036.60 kr. Þar með er þá talin fasteign, 8.3% af fasteigninni að Laugavegi 105. Skuldir sameignadeildar eru hins vegar engar.

Hlutverki búnaðardeildar, sem svarar til afurðatjónadeildar samkv. gildandi lögum, er svo lýst í 9. gr. frv., að hún skuli veita einstaklingum eða sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til:

a. að bæta meiri háttar tjón vegna búfjárdauða af völdum sjúkdóma eða af slysum, þegar gáleysi eiganda verður eigi um kennt;

b. fóðurkaupa vegna grasbrests af völdum kulda, kals eða óþurrka til að afstýra óeðlilega mikilli förgun búfjár;

c. að bæta uppskerubrest á garðávöxtum;

d. að veita fjárhagsaðstoð vegna verulegs afurðatjóns á sauðfé og nautgripum.

Um fjárhagsaðstoð samkv. þessari gr. fer samkv. reglum, sem sjóðstjórn setur.

Vegna undanfarandi harðæra er hagur þessarar deildar fremur bágborinn. Að vísu er hrein eign deildarinnar samkv. ársreikningum 1971 20 782 156.90 kr., en skuldir hennar nema hins vegar samtals 152 146 662.90 kr., sem greiða verður háa vexti af. T. d. námu vextir og lántökukostnaður þessarar deildar l 1 588 362 kr. á árinu 1971, en heildartekjur námu þá aðeins 17 545 236.70 kr. Í hreina tjónastyrki var varið um 3 millj. kr. á því ári, svo að tekjuafgangur varð óverulegur miðað við þessa miklu skuldabyrði eða aðeins 2 817 099.35 kr. Jafnvel þótt árferði verði sæmilegt næstu árin er því augljóst, að efnahagur búnaðardeildar yrði mjög bágborinn, ef ákvæðin um skiptingu tekna sjóðsins á milli deilda væru óbreytt. Það er því lagt til, að 25% af framlagi ríkissjóðs miðað við íbúa renni til búnaðardeildar. Þetta svarar til 12.50 kr. á íbúa á ári eða hér um bil 2.5 millj. kr. á ári. Þrátt fyrir þessa bragarbót mun búnaðardeild hafa mikla skuldabyrði næstu árin.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að stjórn sjóðsins sé heimilt að skipa nefnd til að rannsaka tjón og gera tillögur um aðstoð, þegar um er að ræða almenn tjón í heilum byggðarlögum. Undanfarin ár hefur landbrh. skipað slíka harðærisnefnd. Eðlilegra virðist þó, að stjórn sjóðsins geri það, þar sem sú aðstoð, sem veita skal, er að jafnaði veitt úr sjóðnum. Stjórn sjóðsins hefur jafnan leitað umsagnar Búnaðarfélags Íslands um harðærisvandamál landbúnaðarins, og verður að sjálfsögðu engin breyting á því.

Í 12. gr. frv. er sérstaklega gert ráð fyrir styrkveitingum til þeirra sveitarstjórna, sem búið hafa við samfellt harðæri í tvö ár eða lengur og notið aðstoðar Bjargráðasjóðs af þeim sökum. Til þess að þessi heimild verði notuð verður þó tjón af völdum harðærisins að nema a. m. k. þriðjungi af tekjum sveitarfélagsins. Á árunum 1967–1970 námu vaxtalaus lán úr afurðatjónadeild vegna harðæris samtals 168 millj. 226 þús. kr. og heyflutningastyrkir úr sameignadeild 20 708 609.25 kr. eða samtals 188 934 609.25 kr. Á árinu 1971 námu vaxtalaus harðærislán úr afurðatjónadeild um það bil 45.8 millj. kr. og lán vegna sauðfjársjúkdóma o. fl. ca. 2.3 millj. kr. Styrkir, sem veittir voru vegna Heklugossins síðasta, námu rúmum 35 millj. kr., en fé í þessu skyni var lagt fram úr ríkissjóði að mestu eða öllu leyti.

Af þeim tölum, sem nú eru nefndar, má sjá, að viðfangsefni Bjargráðasjóðs geta verið allmikilvæg og stundum erfið úrlausnar. Sjóðurinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þjóðfélaginu og þarf að vera svo öflugur, að hann geti mætt þeim erfiðleikum, sem breytilegt árferði hefur oftlega í för með sér hér á landi. Mjög auknar tekjur, sem sjóðnum var séð fyrir á undanförnum harðæristímum, ættu að efla efnahag hans, ef árferði verður ekki lakara en í meðallagi næsta áratuginn, hvað enginn veit um.

Herra forseti. Ég hef nú gert nokkra grein fyrir starfsemi og stöðu Bjargráðasjóðs. Þetta mál er mál sveitarfélaganna og legg ég því til, að því verði vísað að umr. lokinni til hv. heilbr.- og félmn.