17.04.1972
Neðri deild: 62. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

249. mál, Bjargráðasjóður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. Hæstv. félmrh. hefur lýst tilgangi Bjargráðasjóðs og er engu við það að bæta. Verkefni Bjargráðasjóðs er mikilvægt. Hann hefur hlutverki að gegna bæði fyrir landbúnaðinn og fyrir sveitarfélögin, eins við sjóinn sem í sveitinni, alls staðar, þar sem eitthvað kemur fyrir af náttúruvöldum, þarf Bjargráðasjóður að hlaupa undir bagga.

Bjargráðasjóður er gömul stofnun, en hún hefur lengst af verið lítils megandi fjárhagslega. Árið 1960 var gjald til Bjargráðasjóðs aðeins 2 kr. á mann, en er nú 50 kr. á mann. Þetta er vitanlega mjög mikil hækkun, enda þótt tekið sé tillit til verðhækkana, sem orðið hafa. Og eins og hæstv. félmrh. sagði hér áðan, þá mun sjóðurinn eflast með þessu framlagi, ef tíðarfar verður sæmilegt næsta áratug og Bjargráðasjóður þarf ekki að hlaupa undir bagga vegna árferðis eða náttúruhamfara. Þetta veit vitanlega enginn. Þetta frv., sem hér er um að ræða, er nokkur breyting á lögunum eins og þau nú eru. Það er sagt hér í grg. frv., að heildarendurskoðun hafi ekki áður farið fram á þessum lögum og m. a. þess vegna sé eðlilegt og sjálfsagt að endurskoða þau. Þetta er ekki rétt. Það er kannske ekki mikilvægt að vera að leiðrétta þetta, en lögin voru endurskoðuð 1967. Stjórnskipuð nefnd hafði starfað að undirbúningi laganna í tvö ár og þessi endurskoðun var talin mjög víðtæk og vel unnin, þegar lögin voru afgreidd hér á hv. Alþ. En þótt þetta hafi verið, þá getur eigi að síður verið réttmætt að endurskoða lögin nú. Ég tel eðlilegt, að það, sem kemur í opinberu þskj. og fylgir stjfrv., sé rétt haft eftir, þar sé rétt farið með staðreyndir, og það veit ég, að hæstv. félmrh. er á sama máli og ég um það.

Hann hefur ekki samið frv. Hér er einhver ritvilla á ferðinni hjá þeim, sem gengu frá frv. En segja má, að það sé ekki neitt stórt atriði út af fyrir sig.

Spurningin er, hvort þær breytingar, sem hér er um að ræða, séu til bóta. Það er það, sem skiptir máli. Hvort deildirnar eru tvær eða þrjár, það er ekkert aðalatriði, hvort sjóðurinn er álitinn vera sjálfstæð stofnun eða ekki eða eins og hann hefur verið, það er heldur ekkert aðalatriði til þess að sjóðurinn geti gegnt því hlutverki, sem honum er ætlað að gera. Ég tel, að þetta sé ekki neitt mikilvægt, sem hér er um að ræða í sambandi við breytingar á lögunum sjálfum, að öðru leyti en því, að ég tel mjög vafasamt, þegar um það er að ræða, að mikið tjón verður í einhverjum landshluta og það liggur fyrir, að verja þarf miklu fé til hjálpar, þá eigi stjórn Bjargráðasjóðs að skipa nefnd til þess að athuga það mál. Það segir í grg. með frv., að eðlilegt sé, að stjórn sjóðsins skipi þessa nefnd, vegna þess að það verði hlutverk sjóðsins að bæta tjónið. En ég vil nú segja það, að enda þótt Bjargráðasjóður hafi verið efldur undanfarið, þá mun hann ekki vera megnugur að bæta stórtjón af eigin fé, og það verður að fara til ríkisvaldsins og sækja þar fjármagn. Ég held, að það væri miklu hyggilegra frá sjónarmiði sjóðstjórnar, frá sjónarmiði þeirra, sem þurfa á fjármagninu að halda, að ríkisstj. skipaði nefndina, því að um leið og ríkisstj. hefur gengizt undir það að skipa nefnd í því skyni að kanna tjónið, þá hefur hún einnig tekið á sig siðferðislegar skuldbindingar um það að bæta tjónið. Ég tel, að miklu eðlilegra sé, að ríkisstj. skipi nefnd heldur en sjóðstjórnin, því að sjóðstjórnin hefur aldrei nema yfir takmörkuðu fjármagni að ráða og alls ekki nægilegu, ef um stórtjón er að ræða, eins og oft vill verða. Ég minnist þess, að þegar Heklugosið varð, þá borgaði ríkissjóður beint 35 millj. kr., vegna þess að Bjargráðasjóður var ekki fær um það. Ríkisstj. skipaði nefnd, og um leið og hún gekkst inn á að skipa nefnd til þess að kanna málið hafði hún einnig gengizt inn á það óbeint að bæta tjónið.

Hæstv. ráðh. gat um það áðan, hversu mikið fjármagn það væri, sem hefði verið veitt í lánum og styrkjum. Og þetta er allmikil upphæð, jafnvel miðað við þær kr., sem við nú erum með í umferð. Það eru 240 millj. kr. á árunum 1967–1971. En heildartekjur Bjargráðasjóðs á ári eru ekki nema — heildartekjur af framlögum — ekki nema 20 millj. kr., þannig að við sjáum, að enda þótt Bjargráðasjóður hafi verið efldur, þá er þetta takmarkað fé, sem hann hefur, ef til stórtíðinda dregur. Og ég vil nú mælast til þess, að sú n., sem fær þetta frv., athugi það, hvort þetta er hyggilegt fyrir þá, sem ætla sér að sækja fé til ríkisstj., að taka af henni valdið til þess að kanna tjónið. Ég held, að ef ég væri í stjórn Bjargráðasjóðs, teldi ég þetta mjög óhyggilegt, og ég mundi byrja á því að reyna að klemma ríkisstj. með því að fá hana til þess að skipa nefnd til þess að athuga málið. Það væri hægari þá eftirleikurinn að sækja fé í hendur hennar, því að þótt ganga megi út frá því, hvaða ríkisstj. sem er í landinu, að hún sé alltaf reiðubúin að hlaupa undir bagga og bæta tjón, þá er það nú svo, að menn líta misjöfnum augum á málin og sumir telja þetta vera bráðnauðsynlegt, aðrir ekki. Þess vegna er nú það, að eðlilegt er, að hverju sinni sé kannað af velviljuðum og fróðum mönnum, hvernig málin standa, og til ríkisstj. verður að leita, ef til stórtíðinda dregur og hjálp þarf að veita.