19.04.1972
Efri deild: 69. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

260. mál, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Þegar lög um breyt. á skipulagsskrá Stofnunar Árna Magnússonar höfðu verið samþykkt í annað skipti á þjóðþingi Dana 19. maí 1965, var gerður sáttmáli milli Íslands og Danmerkur og undirritaður í Kaupmannahöfn 1. júlí 1965. Vegna málaferla þeirra fyrir dönskum dómstólum. sem töfðu það, eins og öllum er kunnugt, að lögin um breytingu á skipulagsskrá Stofnunar Árna Magnússonar kæmust til framkvæmda, varð dráttur á fullgildingu þessa sáttmála allt fram til 1. apríl 1971. En þá nokkru áður var lokið málaferlunum í Danmörku.

Sáttmáli þessi fjallar um framkvæmd lagaákvæðanna um skiptingu handrita og skjalagagna í Árnastofnun í Kaupmannahöfn, á þann hátt, að skilað verði til Íslands þeim hluta safnsins, sem telst íslenzk menningareign, og sömuleiðis sams konar handritum og skjalagögnum úr Konungsbókhlöðu. Skipulagsskránni, sem Friðrik V. setti 18. jan. 1760, er breytt þannig með lögum, að Stofnun Árna Magnússonar skiptist í tvær deildir, svo að handrit og skjalagögn, sem teljast íslenzk menningareign, skal varðveita í vörzlu Háskóla Íslands. Sú deild Stofnunar Árna Magnússonar, sem sett verður á stofn á Íslandi, skal einnig fá til varðveizlu handrit úr. Konungsbókhlöðu af sama tagi og þau af handritum Stofnunar Árna Magnússonar, sem til Íslands fara. Með þessum sáttmála ríkisstjórnanna tekur ríkisstj. Íslands að sér að varðveita með atbeina Háskóla Íslands þau handrit og skjalagögn, er koma í hlut stofnunardeildarinnar á Íslandi. Varðveizla og umsjón handritanna skal vera í samræmi við reglurnar, sem skipulagsskrá Legats Árna Magnússonar felur í sér. Af þessum handritum og skjalagögnum og fjárhlut af höfuðstól Stofnunar Árna Magnússonar skal mynda Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Tekið er fram í sáttmála ríkisstjórnanna, að ríkisstj. Íslands muni staðfesta það heiti á stofnunardeildinni íslenzku.

Frv., sem hér er lagt fyrir, felur í sér efndir af Íslands hálfu á því fyrirheiti, sem í sáttmálanum er gefið. Efndirnar eru með þeim hætti, að lagt er til að breytt sé lögum um Handritastofnun Íslands til samræmis við ákvæði sáttmálans milli Íslands og Danmerkur. Orðið hefur að ráði að tengja í heiti hinnar nýju stofnunar nöfnin tvö, það nafn, sem kveðið er á um í sáttmála Íslands og Danmerkur, Stofnun Árna Magnússonar, og það nafn, sem tíðkazt hefur hingað til. Handritastofnun Íslands. Í lögunum er skýrt tekið fram, að hér sé um að ræða háskólastofnun, því að það eitt er í samræmi við hin dönsku lög og sáttmálann milli ríkjanna, sem á þeim byggist. Gert er ráð fyrir, að forstöðumaður stofnunarinnar sé prófessor við heimspekideild Háskóla Íslands og hann ásamt rektor Háskólans skipi meiri hl. í stjórnarnefnd stofnunarinnar. Sömuleiðis eru ákvæði um það, að tilsjónarmenn með stofnuninni, eða eforar eins og þeir nefnast í skipulagsskrá Stofnunar Árna Magnússonar, skuli tilnefndir af háskólaráði.

Jafnframt þessum breytingum, sem leiðir af hinum dönsku lögum og sáttmála ríkisstjórna Íslands og Danmerkur, eru gerðar breytingar á stjórn hinnar nýju stofnunar frá því, sem ákveðið var í lögum um Handritastofnun frá 1961. Í aths. við frv. til þeirra laga var komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar lög þau, sem þjóðþing Dana samþykkti á s. l. vori um afhendingu íslenzkra handrita til Íslands, koma til framkvæmda, og koma skal á fót „Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi“, ætti hún að verða kjarni þessarar handritastofnunar.“

Með því frv., sem hér er lagt fyrir, er horfið að nokkuð öðru ráði. Ljóst þykir, að tilvist slíks kjarna innan vébanda Handritastofnunar Íslands kynni að hafa í för með sér ýmiss konar annmarka. Annars vegar mundi starfsemi stofnananna að miklu leyti falla í sama farveg, en að því leyti, sem þær gegndu sérstæðu hlutverki hvor um sig og lytu sérstakri stjórn, kynni að koma til árekstra. Og enn kemur til eitt atriði, sem máli skiptir, sem sé, að þegar Handritastofnun Íslands var sett á laggirnar, var henni ætlað mjög víðtækt hlutverk. Hún átti að verða nokkurs konar allsherjarstofnun íslenzkra fræða. Í tillögum háskólaráðs, sem voru fskj. með frv. frá 1961, er og talað um að koma á fót rannsóknastofnun í íslenzkum fræðum og skilgreining laganna á hlutverki stofnunarinnar, sem enn er látin haldast lítt breytt, bendir til hins sama. En nú hefur þannig þróazt, að settar hafa verið á stofn við Háskólann sérstakar rannsóknastofnanir í hverri þriggja aðalgreina íslenzkra fræða, í sagnfræði, í norrænum málvísindum og í bókmenntafræði. Af sjálfu leiðir, að þær stofnanir hljóta að taka að nokkru leyti við því hlutverki, sem Handritastofnuninni var ætlað í upphafi. En hins vegar er ekki hugsað til þess að setja upp sérstakar deildir í þessum fræðigreinum innan vébanda Handritastofnunarinnar. Samkv. þessari eðlilegu þróun verður hún því raunveruleg handritastofnun, bæði í nafni og ætlunarverki, og starfssvið hennar fellur að mestu leyti saman við svið hinnar fyrirhuguðu stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi. Þegar á þetta allt er litið, virðist augljóst, að heppilegasta lausnin sé sú að breyta lögunum um Handritastofnun Íslands og sameina hana hinni nýju Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Til þessa hefur stjórnarnefnd Handritastofnunar verið skipuð sjö mönnum, forstöðumanni stofnunarinnar sjálfrar, þrem öðrum prófessorum við Háskólann og þrem embættismönnum, landsbókaverði, þjóðskjalaverði og þjóðminjaverði. Þungt er í vöfum að hafa svo fjölmenna stjórnarnefnd, og borið hefur á þeirri skoðun, að óeðlilegt megi telja, að forstöðumenn annarra stofnana séu skyldaðir til að sitja embættis vegna í stjórnarnefnd Handritastofnunar. Um prófessorana þrjá hefur sú venja tíðkazt upp á síðkastið, að þeir hafa verið fulltrúar fyrir hverja hinna þriggja aðalgreina íslenzkra fræða. En eins og ég gat um áðan, hafa þær greinar nú fengið hver sína rannsóknastofnun, en upphaflegt ætlunarverk Handritastofnunar þrengist að sama skapi, og því virðist nú ekki ástæða til, að þessar fræðigreinar eigi sérstaka fulltrúa í stjórn stofnunarinnar.

Í frv., sem hér er lagt fyrir, er gert ráð fyrir þriggja manna stjórnarnefnd. Í sáttmála Danmerkur og Íslands um handritin og varðveizlu þeirra er varðveizla þeirra og umsjón falin ríkisstj. Íslands og Háskólanum. en Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi — Handritastofnun Íslands er sett á fót til að annast handritin og vinna úr þeim. Því er eðlilegt, að þessir þrír aðilar eigi hver sinn fulltrúa í stjórnarnefnd stofnunarinnar. Sem sagt, forstöðumaður stofnunarinnar sitji í stjórn hennar, rektor Háskóla Íslands og fulltrúi ríkisstj. tilnefndur af menntmrh. Einnig er talið eðlilegt að taka beinlínis fram í lögunum, að starfsmenn stofnunarinnar skuli vera með í ráðum um fræðilega stjórn hennar, svo sem um val verkefna og skiptingu samkv. nánari ákvæðum, sem sett verði í reglugerð.

Með ákvæðinu um réttindi og skyldur starfsmanna stofnunarinnar í 8. gr. frv. er átt við starfstilhögun innan stofnunarinnar, þ. á m. að verkefnaval fari fram í samráði við starfsmenn eftir þeim reglum, sem mælt verður fyrir um í reglugerð. Starfsmenn slíkrar stofnunar vinna meira og minna sjálfstætt, eftir að verkefnin hafa verið ákveðin. Sömuleiðis er ætlazt til, að reglugerð kveði á um þá leiðsögn, sem starfsmenn skuli veita stúdentum, styrkþegum og innlendum og erlendum vísindamönnum við lestur handrita, mat á gildi þeirra og aðferðir við útgáfustörf. Hins vegar er í þessu frv. horfið frá því, sem mælt er fyrir um í núgildandi lögum, að sérfræðingar stofnunarinnar láti í té kennslu við Háskólann í lestri handrita, fornskriftarfræði, útgáfutækni og öðrum greinum. sem þeir eru sérfróðir um. Sú hefur orðið reyndin, að forstöðumaður Handritastofnunar og sérfræðingar hennar láta mikla tilsögn í té, bæði styrkþegum við stofnunina og öðrum, sem koma þar til starfa, auk þess sem þeir hafa yfirumsjón með öllum verkum, sem út verða gefin hjá stofnuninni. Þetta hefur reynzt mjög tímafrekt, og er þó einsýnt, að það mundi verða enn tímafrekara, er fram í sækir, þegar fjölgar þeim gestum. sem vinna á vegum stofnunarinnar. Þegar þessa er gætt, virðist ekki fært að lögbinda frekari kennsluskyldu sérfræðinga við Háskólann, því að svo gæti þá farið, að þeir hefðu lítinn sem engan tíma aflögu til að sinna sjálfstæðum vísindastörfum við stofnunina sjálfa. Á það ber að leggja ríka áherzlu, að Handritastofnun á að vera rannsóknastofnun fyrst og fremst, en ekki kennslustofnun.

Ég býst við, að öllum, sem hér eru staddir, sé í fersku minni sú stund, þegar danska herskipið „Vædderen“ lagði að landi fyrir næstum réttu ári, 21. apríl 1971, og færði Íslendingum þau tvö handrit, sem nefnd eru á nafn fullum stöfum í dönsku lögunum um afhendingu handritanna, Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða. Með frv., sem hér er lagt fyrir, eru lögð að því drög, að íslenzka ríkið uppfylli að sínum hluta þau fastmæli, sem bundin hafa verið við hið gamla sambandsríki okkar, Danmörk. Málalok í handritamálinu eru svo einstæð og Íslendingum slíkt fagnaðarefni, að ég veit mig tala bæði í nafni þings og þjóðar, þegar ég lýsi því hér yfir, að af Íslands hálfu verður kappkostað af fremsta megni að taka þannig við hinum fornu ritum. varðveita þau og rannsaka á þann hátt, að uppfylli í hvívetna ákvæði stofnskrár Legats Árna Magnússonar og samboðinn er þeim þjóðarfjársjóði okkar Íslendinga, sem hér er um að ræða.

Háskólinn í Kaupmannahöfn og Háskóli Íslands hafa nú hvor um sig skipað tvo menn til að fjalla um skiptingu handritanna eftir þeim reglum, sem settar eru í hinum dönsku lögum. Þegar það frv., sem nú er lagt fyrir, er orðið að lögum. er ekkert því til fyrirstöðu, að handritaskiptin geti hafizt, þá hafa Íslendingar uppfyllt af sinni hálfu forsendurnar fyrir skiptingu Stofnunar Árna Magnússonar. Ég fyrir mitt leyti er þess fullviss, að það verk, sem enn er óunnið við skiptingu handritanna, verður unnið í þeim anda veglyndis og réttsýni, sem fulltrúar dönsku þjóðarinnar skópu með samþykkt laganna um handritaskilin til Íslands.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.