15.05.1972
Efri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

260. mál, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. til l. um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi — Handritastofnun Íslands. Frv. þetta er samið í framhaldi af sáttmála Dana og Íslendinga um flutning á hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar til Íslands. Hinni nýju stofnun, sem varðveita mun handritin hér á Íslandi, hefur verið ætlað að bera nafnið Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi — Handritastofnun Íslands, enda kemur hún að öllu leyti í stað Handritastofnunar Íslands. Fullt samkomulag hefur nú hins vegar orðið um það að breyta fyrirhuguðu heiti stofnunarinnar þannig að nafn hennar verði Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, og þess vegna hefur menntmn. gert till. um það. Það er 1. brtt., að viðbótin, þ. e. orðin Handritastofnun Íslands, verði felld með öllu niður úr frv.

Ágreiningur hefur komið fram um stjórnarfyrirkomulag stofnunarinnar. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir þriggja manna stjórnarnefnd, sbr. 4. gr. 2. mgr., en þar er gert ráð fyrir því, að í stjórnarnefndinni eigi sæti forstöðumaður, sem jafnframt sé formaður stjórnarinnar, rektor Háskólans og einn skipaður af menntmrh. Jafnframt þessu er gert ráð fyrir sérstakri fræðilegri stjórn, sem skipuð verði starfsmönnum stofnunarinnar undir forustu forstöðumanns samkv. nánari ákvæðum í reglugerð, sem ráðh. setur. Heimspekideild Háskóla Íslands og háskólaráð hafa borið fram till. um aðra stjórnskipan stofnunarinnar og henni hefur verið komið á framfæri við menntmn. fyrir milligöngu menntmrn. Í þessum till. er gert ráð fyrir því, að við stofnunina sé starfandi fimm manna yfirstjórn, þar af skipi Háskólinn þrjá menn í þá yfirstjórn; háskólabókavörður sé sjálfkjörinn í þessa fimm manna stjórnarnefnd, einn sé skipaður af menntmrh. án tilnefningar og sérfræðingar stofnunarinnar eigi rétt til setu á stjórnarnefndarfundum og hafi þar málfrelsi og tillögurétt. Jafnframt gerir háskólaráð og heimspekideild Háskólans þá till., að fellt verði úr frv. það ákvæði, sem gerir ráð fyrir sérstakri fræðilegri stjórn stofnunarinnar, sem starfsmenn hennar standi að. Menntmn. hefur skoðað þessar till. og ábendingar. Hún telur sjálfsagt og óhjákvæmilegt, að Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi sé háskólastofnun í nánum tengslum við Háskóla Íslands. Þessu til áréttingar má vitna í 1. og 2. gr. sáttmálans, sem gerður var á milli Danmerkur og Íslands, þar sem áherzla er lögð á það, að handritin skuli flytja til Íslands og Háskóli Íslands skuli varðveita þau og hafa umsjón með þeim. Þetta kemur fram bæði í 1. og 2. gr. sáttmálaus. Menntmn. telur, að þessi samningsákvæði séu raunverulega alveg nægilega uppfyllt í sjálfu frv. með ákvæðum 1. gr. þess, þar sem segir, að Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi sé háskólastofnun með sérstakri stjórn, með ákvæðum 7. gr. um tvo tilsjónarmenn stofnunarinnar, sem háskólaráð skuli kjósa, og með ákvæðum 2. mgr. 4. gr. um stjórnarnefnd stofnunarinnar, þar sem gert er ráð fyrir, að rektor Háskóla Íslands eigi sæti í stjórnarnefndinni. Til enn frekari áréttingar á tengslum stofnunarinnar við Háskóla Íslands leggur hins vegar menntmn. til, að frvgr. verði breytt á þann veg, að rektor Háskóla Íslands verði formaður stjórnarnefndar stofnunarinnar í stað forstöðumannsins eins og frv. gerir ráð fyrir. Það er 2. brtt„ sem n. flytur á þskj. 787.

Að öðru leyti telur n. eðlilegast og farsælast, að það stjórnarfyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, haldist óbreytt og fræðileg stjórn stofnunarinnar verði skipuð starfsmönnum hennar. Auk þessa hefur menntmn. gert till. um breytingu á 5. gr. frv. í samræmi við óskir háskólaráðs, eins og fram kemur í 3. brtt. n.

Sigurður Ólason hæstaréttarlögmaður hefur vakið athygli menntmn. á því, að æskilegt kynni að vera, að í frv. kæmi fram sá skilningur Alþ., að handritin væru eign Íslendinga. Eins og kunnugt er, hafa Íslendingar ávallt haldið því fram, að handritin væru eign íslenzku þjóðarinnar. Þrátt fyrir þetta var á það fallizt af hálfu íslenzkra stjórnvalda í febrúar 1961, að Íslendingar tækju á móti handritunum sem gjöf og var því augljóslega um að ræða nokkra tilslökun að hálfu Íslendinga í því skyni að auðvelda dönskum stjórnvöldum að koma málinu fram. Hin fyrirhugaða eignarréttaryfirfærsla var síðan staðfest af danska þinginu, sem beinlínis notaði hugtakið gjöf í samþykkt sinni um málið. Í ákvæðum samningsins milli Dana og Íslendinga, sem gerður var í júlí 1965, er hins vegar hvergi að finna nein afgerandi ákvæði um eignarréttinn að handritunum. Þar er talað um, að orðið sé við þeim óskum íslenzku þjóðarinnar, að hún hafi sjálf umráð þessara þjóðlegu minja og að handritin séu íslenzk menningarrit, en kjarni sáttmálans er sá, að handritin séu flutt til Íslands og Íslendingar eigi að hafa umsjón með þeim. En hver er eigandi handritanna? Það segir sáttmálinn ekkert um.

Eftir dönskum lögum er hins vegar ekki lengur vafi á, að afhending handritanna felur í sér yfirfærslu eignarréttar. Þetta var úrskurðað með dómi hæstaréttar Danmerkur 17. nóvember 1966, sem komst einróma að þeirri niðurstöðu, að lögin um afhendingu handritanna fælu í sér eignarnám. Það ætti í raun og veru ekki að standa á Íslendingum að staðfesta þann skilning á eignaraðild handritanna, sem Danir hafa áður fallizt á, bæði á þjóðþingi sínu og í hæstarétti, þó að sjálfur milliríkjasamningurinn sé einkennilega fáorður um þetta mikilvæga atriði. Samningnum milli Dana og Íslendinga um lausn handritamálsins verður að sjálfsögðu ekki breytt héðan af, en Alþ. fær raunverulega með samþykkt þessa frv. um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tækifæri til þess að staðfesta skilning Íslendinga á því, hver sé eigandi handritanna, þannig að ekki þurfi síðar um það að deila, og í framhaldi af þessu hefur Sigurður Ólason hæstaréttarlögmaður komið fram með þá till., að 2. gr. frv. verði þannig orðuð: Stofnunin varðveiti handrit þau og skjalagögn, þjóðareign Íslendinga, sem ríkisstj. Íslands hefur veitt og veitir viðtöku o. s. frv. Þarna verði skotið inn orðunum „þjóðareign Íslendinga“. Þegar menntmn. ræddi þetta mál, voru nm. almennt sammála um, að til álita gæti komið að fallast á þessa till., en vegna þess að ekki hafði gefizt neinn tími til að leita álits sérfræðinga um þetta atriði áður en fundur menntmn. var haldinn, var ákveðið að kanna nánar fyrir 3. umr. hjá þeim, sem mestan þátt hafa átt í samningu þessa frv., hvort til greina kæmi að breyta frv. í þessa átt. Ég hef leitazt við að kynna mér skoðanir þeirra, sem gerst þekkja þetta mál, bæði frá lögfræðilegu sjónarmiði og frá öðrum sjónarmiðum, og eftir að það mál hefur verið athugað, þá virðast menn almennt vera sammála um, að þessi breyting, — þó að hún eigi raunverulega fyllsta rétt á sér og ekki sé vafi á því, að þessi er skilningur okkar Íslendinga á því, sem gerzt hefur í handritamálunum, — gæti verið varhugaverð og eins og á stendur sé hyggilegra að fara að með fullri gát. Ég vil taka það fram, að m. a. hef ég haft samráð við hæstv. menntmrh. um þetta atriði svo og forstöðumann Handritastofnunar Íslands, sem áður hafði haft samráð við m. a. Loga Einarsson hæstaréttardómara. Ég vil taka það einnig fram, að ég hef rætt þetta við þá meðnm. mína, sem ég hef náð til. Það er sem sagt samstaða um það að hreyfa ekki við frv. hvað þetta atriði snertir.

Eftir að menntmn. kom saman til fundar, hefur mér verið bent á, að við það að úr nafni stofnunarinnar eru felld orðin „Handritastofnun Íslands“, þá sé óhjákvæmilegt að gera nokkrar breytingar á 9. gr. frv., þannig að skýrt komi fram, að þessi nýja stofnun skuli taka við öllum eignum og skuldum Handritastofnunar Íslands. Þar sem þess verður vafalaust freistað að koma þessu máli til 3. umr. og þá jafnvel úr d. í dag, ef þess er nokkur kostur, hef ég talið hyggilegast, ef ekki koma nein mótmæli við því hér í umr. á eftir, að reyna að fá samþykkta við þessa umr. brtt. við 9. gr. frv., sem ég að vísu hef ekki átt kost á að ræða sérstaklega við menntmn. um. Ég leyfi mér því að flytja hér sem skriflega brtt. við frv. eftirfarandi till., að 9. gr. orðist svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi, og falla jafnframt úr gildi lög nr. 27 frá 2. maí 1969, um Handritastofnun Íslands, en Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tekur við öllum eignum og skuldum Handritastofnunar Íslands.“

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að afhenda þessa skriflegu brtt.