03.05.1972
Efri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur tekið frv. þetta til athugunar og mælir með samþykkt þess. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér nokkrar breytingar frá gildandi lögum um Tækniskóla Íslands. Það er hér um að ræða nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar, sem ég skal ekki fara út í að skýra, sé ekki ástæðu til þess við þessa umr. Það eru enn fremur ný ákvæði, sem varða inntökuskilyrði í skólann. Það er svo nýjung, sem er falin í því, að þetta frv. gerir ráð fyrir, að það verði sérstök skólanefnd skipuð fyrir Tækniskólann. Í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir, að við skólann starfi fimm manna skólanefnd, skipuð af menntmrn. til fjögurra ára í senn. Alþýðusamband Íslands, Landssamband iðnaðarmanna, Félag ísl. iðnrekenda og Tæknifræðingafélag Íslands tilnefna hvert um sig einn mann í nefndina og annan til vara, en rn. skipar formann og varaformann nefndarinnar án tilnefningar. Þetta er eitt af aðalnýmælunum í þessu frv. En samkv. gildandi lögum er engin skólanefnd, sem hefur um Tækniskólann að fjalla, heldur heyrir hann beint undir menntmrh.

Þá er nýjung, sem mér þykir rétt að vekja athygli á, í 2. mgr. 7. gr. frv„ en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er að starfrækja undirbúningsdeild skólans á Akureyri, Ísafirði og öðrum þeim stöðum, þar sem slíkt þykir henta. Verði að því stefnt, að á Akureyri rísi sjálfstæður tækniskóli.“ Starfræksla undirbúningsdeildar á Akureyri og Ísafirði, eins og hér er gert ráð fyrir, er í samræmi við það, sem verið hefur í raun á undanförnum árum. En það er nýjung í löggjöfinni að setja það í lög, að þessi undirbúningsdeild skuli starfa á Ísafirði. Samkv. gildandi lögum er í þessu efni einungis nefnd Akureyri. Þá er sú önnur breyting frá gildandi lögum í þessari mgr., að það er tekið fram, að stefnt skuli að því, að á Akureyri rísi sjálfstæður tækniskóli.

Þetta eru meginbreytingarnar frá gildandi löggjöf, sem teknar eru upp í þessu frv. Eins og segir í grg. með frv., var sérstakri nefnd falið að vinna að endurskoðun laganna um Tækniskóla Íslands. Mér þykir rétt að benda á það, sem stendur í grg. varðandi starf þessarar nefndar. Þar segir, að í skipunarbréfi nefndarmanna hafi verið tekið fram. að nefndin skuli hlutast til um, að í frv. til laga um skólann verði ákvæði, er tryggi, að nemendur hans fái jafngóða menntun og nemendur viðurkenndra tæknifræðiskóla í nágrannalöndunum, að því er varðar kennslumagn, kennslu og námstímalengd og annað, sem máli skiptir í því efni.

Nefnd þessi, sem falið var að vinna þetta verk, mat það svo, að á þeim stutta tíma, sem óskað var, að hún lyki þessu verki, væri ekki hægt að koma við jafnumfangsmikilli og nákvæmri athugun og þyrfti til að gera samanburð á tækni og tæknifræðinámi í nágrannalöndunum og á Íslandi. Og með hliðsjón af þessu var ekki um að ræða hjá þessari nefnd heildarendurskoðun á þessari löggjöf eða tæknimenntun í heild, heldur aðeins gerðar þær breytingar á gildandi lögum, sem ég hef hér áður gert grein fyrir. En nefndin bendir á í grg. með frv. þessu, að frekari athugun þurfi á framtíðarstöðu Tækniskóla Íslands í skólakerfinu, og telur, að það sé æskilegt að fela sérstakri nefnd það verkefni með svipuðum hætti og lagt er til í álitsgerð um nýskipan verktæknimenntunar á Íslandi, sem menntmrn., skólarannsóknadeild, gaf út í júní 1971.

Af þessu má nokkuð marka, að þó að hér sé um að ræða nýtt frv. til l. um Tækniskóla Íslands, þá eru öll þessi mál mjög í deiglunni. Með tilliti til þess leitaðist hv. menntmn. við að athuga þessi mál af fyllstu kostgæfni, og frv. var sent ýmsum aðilum til umsagnar, svo sem Tæknifræðingafélagi Íslands, verkfræðideild Háskóla Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi ísl. iðnrekenda og Alþýðusambandi Íslands, og n. bárust umsagnir um frv. og þessi mál frá öllum þessum aðilum nema Alþýðusambandinu.

Í umsögn frá Tæknifræðingafélagi Íslands kemur það fram, að Tæknifræðingafélagið telur mikla nauðsyn á því, að þetta frv. nái fram að ganga og efnislega í aðalatriðum óbreytt. Og ástæðurnar til þess eru þær, eins og Tæknifræðingafélagið hendir á, að það hafði komið upp sú spurning á s. l vori, þegar fyrstu nemendur Tækniskólans voru útskrifaðir, hvort Tæknifræðingafélag Íslands gæti viðurkennt tæknifræðinga Tækniskóla Íslands. En það hafa ekki aðrir heimild til þess að kalla sig tæknifræðinga samkv. íslenzkum lögum en þeir, sem fá leyfi til þess hjá ráðh., en ráðh. getur ekki veitt leyfi nema með meðmælum Tæknifræðingafélags Íslands. Þetta skýrir þann áhuga, sem Tæknifræðingafélag Íslands hefur fyrir því, að frv. þetta nái fram að ganga, vegna þess að félagið telur, að með því sé svo bætt um kennslutilhögun og stjórn skólans, að félagið geti viðurkennt hann sem slíkan.

Umsögn frá verkfræðideild Háskóla Íslands var hins vegar á þá leið, að hér væri um svo umfangsmikil mál að ræða, framhaldsmenntun tæknináms í landinu, að það þyrfti að taka málið allt til gaumgæfilegrar athugunar, áður en frv. þetta yrði lögfest eða breytingar gerðar á núgildandi löggjöf. Og verkfræðideildin lagði því til, að málinu yrði frestað.

Verkfræðingafélag Íslands, Landssamband iðnaðarmanna og Félag ísl. iðnrekenda, þessir aðilar allir gáfu jákvæðar umsagnir um þetta frv. N. bárust einnig umsagnir frá bæjarstjóranum á Akureyri, frá bæjarstjórn Húsavíkur og bæjarstjórn Seyðisfjarðar m. a., en þær umsagnir vörðuðu fyrst og fremst spurninguna um staðsetningu Tækniskólans, en eins og kunnugt er, hefur verið mikill áhugi á því, að Tækniskólinn yrði staðsettur á Akureyri. Ég skal ekki fara sérstaklega út í það mál nú, en víkja þessu næst að brtt., sem menntmn. leggur fram á þskj. 658.

Önnur brtt. varðar 7. gr. frv., og lagt er til, að í lok gr. bætist orðin „og skal þegar á næsta skólaári hefja þar starfrækslu á raungreinadeild“. Þetta þýðir það, að það skuli, eins og í frv. segir, ekki einungis stefnt að því, að á Akureyri rísi sjálfstæður tækniskóli, heldur er með þessari breytingu því slegið strax föstu, að það sé farið að vinna að þessu og ein deild eigi að bætast við undirbúningsdeild skólans, sem þegar er fyrir á Akureyri, þegar á næsta skólaári. Þetta undirstrikar að mínu viti mjög þá stefnu, sem frv. gerir ráð fyrir, að það skuli rísa sjálfstæður tækniskóli á Akureyri.

Þá er 2. brtt. n„ og hún er um það, að á eftir 13. eða lokagr. frv. komi bráðabirgðaákvæði, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Menntmrh. skal beita sér fyrir því, að undirbúin verði ný löggjöf um skipulag verk- og tæknimenntunar á framhaldsskóla- og háskólastigi. Skal m. a. taka til athugunar, hvort ráðlegt sé, að stofnaður verði tækniháskóli og taki hann við öllu tæknifræðinámi, sem nú fer fram í Tækniskóla Íslands, og verkfræðinámi Háskóla Íslands. Ráðh. skal jafnframt láta rannsaka ítarlega, hvort ekki sé tiltækilegt, að tækniháskóli verði starfræktur á Akureyri.“

Eins og ég gat um áðan, þá kemur það fram í grg. með frv., að nefnd sú, sem vann að samningu þess, telur eðlilegt, að það fari fram almenn athugun á framhaldstækninámi í landinu, og einnig lagði verkfræðideild Háskóla Íslands til, að svo yrði gert. En af ástæðum, sem ég hef áður greint, taldi menntmn. samt rétt að mæla með því, að það frv., sem hér liggur fyrir, yrði þegar samþ. En n. fellst á þau sjónarmið, að það sé nauðsynlegt að endurskoða í heild framhaldstækninám í landinu, og gerir þess vegna till. um bráðabirgðaákvæði þar að lútandi. En í þessu bráðabirgðaákvæði segir: „Skal m. a. taka til athugunar, hvort ráðlegt sé, að stofnaður verði tækniháskóli og taki hann við öllu tæknifræðinámi, sem nú fer fram í Tækniskóla Íslands, og verkfræðinámi Háskóla Íslands.“ Það er bent sérstaklega á þetta atriði, vegna þess að það hefur komið fram hugmynd og till. í nál. um nýskipan verk- og tæknimenntunar á Íslandi, sem ég greindi áðan frá, um það, að það skuli stofnaður tækniháskóli og með þeim hætti fellt saman verkfræðinám háskólans og hluti af verkefnum Tækniskólans. Menntmn. telur rétt, að þetta sé sérstaklega athugað, og tekur það þess vegna fram. En þá segir enn fremur í þessu bráðabirgðaákvæði: „Ráðh. skal jafnframt láta rannsaka ítarlega, hvort ekki sé tiltækilegt, að tækniháskólinn verði starfræktur á Akureyri.“ Þetta vill n. benda sérstaklega á með tilliti til þess, að það hafa verið uppi mjög háværar raddir og till. um það, að tæknimenntunin verði flutt eða Tækniskóli Íslands verði fluttur til Akureyrar. Menntmn. finnst eðlilegt, að við heildarathugun þessara mála sé þetta atriði sérstaklega athugað í þeim tilgangi, að það verði komizt að hinni heppilegustu lausn í þessu efni, hver sem svo niðurstaðan að lokum kann að verða.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta að svo stöddu.