03.05.1972
Efri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef áður getið þess í umr. hér í þessari hv. d., að ég tel bæði eðlilegt og æskilegt fyrir þjóðina að dreifa opinberum stofnunum um landið meira en verið hefur. Ég hef einnig gert grein fyrir því, að það er nokkuð breytilegt með stofnanir, hvað slíkt er auðvelt, t. d. mjög erfitt með þjónustustofnanir, sem þurfa að hafa beinan aðgang sem flestra landsmanna, en hins vegar venjulega auðveldara með skóla og stofnanir, sem eru af því tagi. Að sjálfsögðu er þetta nokkuð breytilegt einnig með skóla, sumir þannig, að þetta verður ekki gert, með aðra er þetta auðveldara, ekki sízt með þá, sem ekki hafa náð að festa rætur og skapa sér aðstöðu, sem illa verður flutt.

Það er vitanlega ljóst og má búast við því, að það heyrist kvein í sambandi við allan flutning. Það eru fleiri og færri, sem hafa tengzt slíkri stofnun og er illa við að flytja hana. Það mundi einnig heyrast kvein frá því tré, sem á að flytja, sem fest hefur rætur, ef það mætti kveina, og ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að þær athugasemdir, sem komu fram hjá ýmsum forráðamönnum Tækniskólans, voru mjög ósmekklegar og ekki viðeigandi í þessu sambandi. Með tilliti til þess var ég þeirrar skoðunar, að rangt væri í þessu frv. að ákveða staðsetningu tækniskólans í Reykjavík, og ég var fylgjandi því og er enn að ákveða staðsetningu tækniskólans á Akureyri. Ég tel tækniskólann einn af þeim skólum, sem vel má flytja. Ég gat hins vegar fyrir mitt leyti fallizt á það, að tækniskóli yrði einnig í Reykjavík, því að tækninám mun þróast mikið hjá okkur Íslendingum og enginn vafi á, að fljótlega verður þörf á tækniskólum víðar en á einum stað á þessu landi. Því hreyfði ég þeirri hugmynd minni við suma nm., að rétt væri að ákveða staðsetningu skólans á Akureyri, en ákveða jafnframt aðra grein, þar sem ríkinu væri skylt að koma upp allri nauðsynlegri aðstöðu, sem ekki verður fengin með samvinnu við aðila þar, en hafa síðan ákvæði til bráðabirgða þess efnis, að fullkominn tækniskóli yrði starfræktur í Reykjavík, þar til slík aðstaða hefur fengizt. Ég lýsi einnig þeirri skoðun minni, að ég geti vel fallizt á að hafa þetta opnara, þ. e. a. s. að ákveða staðsetningu skóla bæði á Akureyri og í Reykjavík eða eftir nánari ákvörðun ráðh., eins og kemur fram í 7. gr., þar sem nefndir eru fleiri staðir en Reykjavík. Ég get því fyrir mitt leyti vel fallizt á þau rök, sem komu fram hjá síðasta hv. ræðumanni, og vil fyrir mitt leyti taka þetta til athugunar í n. eftir þessa umr.

Ég skrifaði hins vegar undir nál. og stóð upp fyrst og fremst til þess að gera grein fyrir því, hvers vegna ég gerði það þrátt fyrir þá skoðun, sem ég hef nú lýst. Ég gerði þetta fyrst og fremst vegna þess, að mér er kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. mun hafa í huga að taka þessi mál öll til athugunar með tilliti til þess ákvæðis í málefnasamningi hæstv. ríkisstj., þar sem slíku er heitið. Ég hef fyrir satt, að byrjunarathugun á þessu sé á næsta leiti. Þó að ekki sé unnt í þessu nál, að vísa beint til þeirrar n. eða hverjir það verða, sem taka þessa athugun að sér, þá sýnist mér ljóst, að mál sem þetta hljóti að vera eitt af því fyrsta, sem kannað verður, enda í brtt. n. ráðh. falið að láta rannsaka ítarlega, hvort ekki sé tiltækilegt, að tækniháskóli verði starfræktur á Akureyri. Það er með tilliti til þessarar þróunar, sem ég skrifaði undir það nál., sem hér liggur fyrir.